Ber á annan veg
Ber eru sannarlega björg í bú og margt annað hægt að gera úr þeim góðu ávöxtum en sultur þó að þær standi alltaf fyrir sínu. Hér eru nokkrar hugmyndir sem virka:
Frosin ber
Bláber (eða hvaða ber sem er) eru lögð í plastglas, vatni hellt yfir svo yfir fljóti. Lokað með plastfólíu og sett í frysti. Þannig geymast berin „fersk“ langt fram á næsta ár.
Sæt ber allt árið
Bláberjum (eða hvaða berjum sem er) er velt upp úr sykri/hrásykri, sett í plastpoka og fryst.
Þurrkuð ber
Bláber (eða hvaða ber sem er, þó ekki mjög stórum og safaríkum) eru sturtað í ofnskúffu sem búið er að leggja bökunarpappír á. Sett í ofn og kveikt undir á 50oC í nokkra klukkutíma, ágætt að hafa ofninn örlítið opinn af og til svo rakinn fari út. Ágætt að snúa nokkrum sinnum en ekki nauðsynlegt. Berin þorna og verða „þurrkuð ber“, þvílíkt lostæti og geymast allt árið.
Myndin er af bláberjum í kökuboxi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ber á annan veg“, Náttúran.is: 11. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2009/08/23/ber-anna-veg/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. ágúst 2009
breytt: 1. janúar 2013