Að gera heimilið/húsið vistvænna byggist meira á ákvarðanatöku hvers og eins en nokkru öðru. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að fara vistvænar leiðir byrjar langt ferli sjálfsmenntunar sem fer mjög eftir því hve áhuginn er mikill og hvaða möguleikar eru fyrir hendi.

Skilgreining á vistvænni byggingu:
Þó að engin ein sannindi og engar patentlausnir séu til sem virka alls staðar er málið þó ekki flóknara en svo að; vistvænt hús notar minni orku, minna vatn og náttúrulegar auðlindir, hefur í för með sér minni úrgang og sóun auk þess sem það er heilbrigðara fyrir íbúa þess miðað við venjulegt hús.

Hús getur verið byggt frá grunni á grundvelli vistvænna sjónarmiða eða eldra húsnæði er fært í vistvænna form. Að gera hús upp vistvænt er annað hvort hægt að gera í áföngum eða á einu bretti. Það sem til þarf er nýr hugsunarháttur. Allt frá vali á orkusparandi eldhústækjum til trjáræktar í garðinum. Það skiptir jafnvel ekki öllu máli hvort að þú leigir, búir í íbúð í blokk eða í einbýlishúsi í Grafarvoginum. Alls staðar eru möguleikar á að gera húsnæðið vistvænna og heilbrigðara.

Umhverfisvitund þarf að þroska en þegar hún er orðin til er ekki aftur snúið. Vistvæn hús eru ekki aðeins mannvæn og umhverfisvæn heldur miða að því að vera hagkvæm og eru því rekstrar- og viðhaldssparandi í líftíma sínum en líftími húss miðast við 60 ár. Kostnaður við húsbyggingu er ekki einungis falinn í stofnkostnaði (byggingarkostnaði) heldur rekstrar- og viðhaldskostnaði í um 60 ár og auðvitað heilsuáhrifum á íbúana allan þennan tíma.

Tékklisti fyrir vistvæn hús:

  • Staðsetning: Nýbyggingar og ný hverfi má ekki reisa á viðkvæmum svæðum frá sjónarmiðum náttúruverndar eins og t.d. á annars góðu ræktunarlandi, votlendi, í heimkynni dýra og jurta í útrýmingarhættu. Bestu svæðin til að byggja vistvænt á eru „á landfyllingum, fyrrum bílastæðum, fv. verslunarmiðstöðva-lóðum o.s.fr. Leitið eftir að þétta byggð þannig að þéttleiki verði a.m.k. 15 einingar á hektara. Vistvæna húsið ætti að vera í þægilegri göngufjarlægð frá biðstöðvum almenningssamgöngukerfisins, þannig að þér standi til boða að skilja bílinn eftir heima. Vistvænt hús ætti að vera í göngufjarlægt frá almenningsgörðum, skólum og verslunum. Líttu til þess að haga innkaupum eftir því hve marga poka má taka heim á hjólinu. Það er heilbrigðara fyrir þig, veskið þitt og umhverfið.
  • Stærð: Það skiptir engu máli hve mörg jákvæð vistvæn viðmið eru tekin alvarlega ef stærðin er ekki í neinu samræmi við þarfir og fjölda íbúa. 500 fermetra hús eyðir miklu meira af náttúrulegum auðlindum en 200 fermetra hús gerir. Það er einnig miklu dýrara að kynda og lýsa stórt hús. Ef þú vilt raunverulega byggja vistvænt hús, haltu þig þá á mottunni hvað stærðina varðar.
  • Byggingarhönnun: Staðsetning byggingar á lóðinni ætti að vera þannig að orka sólarinnar fái að njóta sín, bæði til að hita og lýsa upp húsið. Húsið ætti jafnframt að vera hannað þannig að það taki af vind og beini honum frá húsinu. Vindurinn kælir og flýtir niðurbroti byggingarefnisins og hækkar þannig viðhaldskostnað. Gluggar, þakgluggar, ljósrifur og aðrar leiðir ætti að nota til að dagsljósið náí inn í húsið. Klæðning hússins ætti að gera ráð fyrir sólskyggni þar sem þess er þörf. Sérstaklega góð sólarvörn er í trjám og því ætti að nota þau þar sem því er viðkomið. [t4] tvöfalt gler minnnkar hitainnstreymi á sumrum og hitatap á vetrum. Þakið ætti að vera eins ljóst á lit og hægt er og endurkasta hita vel. Þakefni eru til með Energy Star orkumerkinu en torfþök eru ákaflega vistvæn og virka mjög vel og draga í sig hita án þess að leiða hann inn í húsið.
  • Vistvæn byggingarefni: Vistvænt hús þarf að vera byggt með heilbrigðum eiturefnafríum byggingarefnum og innréttingum, máluð og þéttuð með t.d. zero-VOC (volatile organic compound) og eiturefnafríum efnum eins og stráplötur í milligólf. Viður ætti að koma úr sjálfbærum skógum (FSC). Í vistvænt hús skal nota endurnýtta framleiðslu eins og kostur er. T.d. eldhúsflísar með háu hlutfalli af endurnýttu efni.
  • Einangrun: Eiturefnafrí einangrun, úr efnum eins og sojabaunum, bómull með háu hlutfalli af high R-factor ((hitaþolin) í veggi og gólf sem koma í veg fyrir kaldaloftsleka á sumrum og hitaloftslegak á vetrum.
  • Hurðir og gluggar: Gluggar og útidyr ættu að hafa Energy Star orkumerkið og ættu að einangra glugga/hurðaropin vel gegn köldu lofti á vetrum og heitu á sumrum.
  • Orkusparnaður: Í vistvænu húsi er orkusparandi ljósabúnaður, hitakerfi, kælikerfi (þar sem það á við) og heimiiistæki ættu að vera orkusparandi með Energy Star orkumerki.
  • Endurnýjanleg orka: Vistvænt hús ætti að nýta eitthvað af uppsöfnuðum varma og vistvænni orku s.s. sólarorku. Á Íslandi höfum við það fram yfir flest önnur lönd að geta kynt húsin okkar með hitaveituvatni. það er í raun vistvæn orka.
  • Vatnssparnaður: Vistvænt hús býr yfir vatnssparandi kerfi og vatnssparneytnum eldhússtækjum og baðtækjum, sérstaklega á svæðum þar sem vatnsskorts gætir.
  • Umhverfisgæði innandyra: Náttúrleg dagsbirta ætti að ná til a.m.k. 75% af innanrými hússins. Náttúruleg loftun, sem næst oft með réttri staðsetningu húss, opnanlegum hlerum, gluggum, vindstrompa og annarrar tækni ætti að leyfa nægjanlega miklu af hreinu lofti inn í húsið. Hitunar-, loftunar- og kælikerfi hússins ætti að hreinsa loft sem kemur inn í húsið og koma hreyfing á kyrrt loft fyrir utan húsið. Bílskúrinn ætti ekki að vera með lofthreyfingarkerfi inn heldur viftu sem hreyfir loft út úr bílskúrnum.
  • Garðurinn: Runnar og tré og önnur garðhönnun ætti að skyggja á ytri veggi, innkeyrslu, palla og koma í veg fyrir ofhitnun útivistarsvæða. Í görðum ætti að taka tillit til þess hvort að plöntur eru vatnsfrekar eða grannar. Feykimikl vökvun í görðum getur leitt til þess að vatnsþurrð verði á heitum sumardögum, jafnvel á svæðum sem ekki eru þurr að jafnaði. Hægt er að hanna og rækta garðinn þannig að ekki þurfi að vera stöðugt að vökva hann.

Tékklisti þýddur og staðfærður frá Green building Council. Það skal tekið fram að enn hafa ekki verið þróuð vistvæn viðmið fyrir íslenskar byggingar en það fer að verða mjög brýnt að til séu staðlar sem séu þróaðir sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Margt bendir þó til þess að loks sé að verða vakning á þessu sviði en Vistbyggðarráð hefur lagt mikið af mörkum í þessu sambandi á undanförnum árum. Sesseljuhús að Sólheimum hefur haldið merkjum vistvænna bygginga á lofti um árabil en húsið er hannað sem vistvæn bygging. Gestasofan að Skriðuklaustri er fyrsta byggingin sem byggð er samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum hér á landi. Nýbygging Náttúrufræðistofnunar í Garðabæ er einnig hönnuð á grunni vistvænnar hugmyndafræði. Sjá Vistvæn hús á Íslandi hér á Græna kortinu.

Grafík: Hús Náttúrunnar (í vef og app-útgáfum) er vistvænt hús, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir, ©Náttúran.is.

Birt:
12. nóvember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvað er vistvænt hús?“, Náttúran.is: 12. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2008/04/19/hvao-er-vistaent-hus/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. apríl 2008
breytt: 12. nóvember 2014

Skilaboð: