Náttúran.is tekur þátt í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands
Nú í vikunni var undirritaður samningur milli Náttúran.is og EVEN sem felur í sér staðfestingu á því að Náttúran.is mun taka þátt í uppbyggingu hleðslukerfis fyrir rafbíla og hjálpa til við fræðslu um verkefnið.
EVEN vinnur að þjóðarátaki um orkuskipti í samgöngum sem gerir rafbílavæðingu Íslands mögulega. Verkefnið er byggt upp með þátttöku lykil fyrirtækja og stofnana í samfélaginu, auk ríkis og sveitarfélaga.
Þessir aðilar sameinast um að stuðla að nýtingu raforku í samgöngum með beinni þátttöku í þjóðarátakinu, þjóðinni til heilla. Þátttakendur eru skilgreindir sem aðilar með samfélagslega ábyrgð. Með þátttöku í verkefninu senda þeir skýr skilaboð til samfélagsins, sinna birgja, samstarfsaðila og viðskiptavina um gildi þess fyrir þjóðfélagið að rafbílavæðing Íslands verði að veruleika.
EVEN mun standa að uppsetningu orkupósta í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir á landinu öllu. Verkefnið setur skýra stefnu á grænar lausnir til eflingar sjálfbærrar þróunar á Íslandi sem er í fullkomnu samræmi við það sem að Náttúran.is hefur verið að vinna að á undanförnum árum.
Ljósmynd: Sighvatur Lárusson framkvæmdastjóri EVEN ehf. og Guðrún Tryggvdóttir framkvæmdastjóri Náttúran er ehf. takast í hendur eftir undirritun samningsins.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is tekur þátt í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands“, Náttúran.is: 4. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/04/natturan-tekur-thatt-i-thjodarataki-um-rafbilavaed/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.