Þeistareykir-Stóravíti-Krafla-Gjástykki 26.-28. júní
Landvernd hefur ákveðið að blása til vettvangsferðar um jarðhitasvæði í Þingeyjarsýslum. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast af eigin raun svæðum sem til stendur að virkja við Þeistareyki, Kröflu og í Gjástykki. Úrvals leiðsögumenn verða með í för en það eru þeir Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, Ómar Ragnarsson fréttamaður og heimamennirnir Agnar Kristjánsson og Sigfús Illugason sem ætla að miðla ferðalöngum af þekkingu sinni á stórbrotinni náttúru og sögu þessara svæða.
Ferðaáætlun hljómar í grófum dráttum þannig að farið verður frá BSÍ í Reykjavík kl. 10.00 föstudaginn 26. júní. Á leiðinni norður er m.a. áætlað að ganga á Grábrók í Borgarfirði þaðan sem útsýni er gott yfir hraunin.
Að morgni laugardags er ferðinni síðan heitið inn á virkjunarsvæðið við Þeistareyki þaðan sem gengið verður á Bæjarfjall en af fjallinu er frábært útsýni yfir jarðhitasvæðið og landið umhverfis. Þaðan verður síðan gengið í austurátt að Stóravíti sem er dyngja en frá henni hafa runnið víðáttumikil hraun í átt að Kelduhverfi og til austurs að Jökulsá á Fjöllum. Gígur Stóravítis er hrikalegur ásýndar, 700-1000 m í þvermál og yfir 100 m djúpur. Rétt þar fyrir sunnan hvílir Litlavíti.
Á sunnudagsmorgun liggur leið að Víti, Leirhnjúk, Hreindýrahól, Múlaborgum og Rauðmúla, vestan við Hágöngur, áður en haldið er í Gjástykki sem er sigdæld í sprungurein Kröflueldstöðvarinnar um 5-6 km norður af Kröflu. Þar er lítið jarðhitasvæði sem var að mestu kulnað þegar Kröflueldar hófust 1975. Svæðið lifnaði mikið við Kröfluelda en jarðhitinn hefur dvínað mikið síðan. Frá Leirhnjúk norður í Gjástykki er sprungureinin þakin hraunum frá Kröflueldum og víða má sjá hvernig hraunin hafa runnið yfir sprungur og ofan í þær. Svæðið er skólabókardæmi um gliðnun landsins og það hvernig nýtt land verður til í skarðinu sem myndast þar sem Norður-Ameríkuflekann rekur frá Evrasíuflekanum. Seinni part dags heldur hópurinn heim á leið og er áætlað að koma til Reykjavíkur að kvöldi sunnudags 28. júní um kl. 24:00.
Við bendum á að þátttaka í ferðum Landverndar hefur verið mjög góð og því vænlegast að skrá sig sem allra fyrst. Þátttakendur geta valið milli þess að ferðast með flugi eða í rútu milli Reykjavíkur og Akureyrar en vinsamlegast hafið í huga að mikil ásókn er í flug og gistingu á þessum árstíma á Norðurlandi og því aðeins hægt að tryggja flugsæti og gistingu við Mývatn til 3. júní. Frestur til að skrá sig í rútuferð alla leið og gistingu í Reykjahverfi er lengri eða til 10. júní.
Upplýsingar um kostnað og skráningu
Mynd af vef Landverndar.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Þeistareykir-Stóravíti-Krafla-Gjástykki 26.-28. júní“, Náttúran.is: 31. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/31/theistareykir-storaviti-krafla-gjastykki-26-28-jun/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.