Félag um Samfélagsbanka orðið að veruleika
Laugardaginn 16. apríl s.l. var stofnað „félag um samfélagsbanka“ á fjölmennum fundi í ReykjavíkurAkademíunni.
Markmið félagsins er samkvæmt stofnsamþykktum að stuðla að stofnun fjármálafyrirtækis sem byggir á siðferðilegum gildum og hefur samfélagslega uppbyggingu og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Auk þess er ætlunin að stefna að gagnsæju útlánaferli þar sem eigendur sparifjár geta fylgst með og haft áhrif á hvernig fé þeirra er varið.
Hvatinn að þessu verkefni er ekki síst sá að hér er verið að endurreisa banka og fjármálafyrirtæki á nánast sömu forsendum og komu þeim í þrot og nánast ekkert hefur verið tekið á þeim þáttum sem mörgum þykja siðlausir og ómannúðlegir.
Fyrirmynda er leitað í svipuðum stofnunum í Evrópu og þá ekki síst á Norðulöndunum þar sem fjármálastofnanir af þessu tagi hafa verið reknar um áratuga skeið með góðum árangri.
Þar má helst nefna verðlaunahafa umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fyrir árið 2010 en þau féllu í hlut þriggja banka; hins danska Merkur bank, hins norska Cultura bank og Ekobanken frá Svíþjóð. Fulltrúar þessara banka komu til Íslands í fyrrahaust og var boðið að koma degi fyrr og sitja ráðstefnu sem stór hópur fólks hafði undirbúið um nokkurra mánaða skeið, m.a. forsvarsmenn hins nýstofnaða Félags um Samfélagsbanka. Fundur þessi var síðan haldinn þ. 2. nóvember 2010 fyrir fullu húsi í Norræna húsinu, þar sem berlega kom í ljós að gríðarlegur áhugi er fyrir nýrri hugmyndafræði í bankarekstri á Íslandi og tíminn réttur til að gera eitthvað í málunum.
Verkefni Félags um Samfélagsbanka er að kanna lagaumhverfi og forsendur fyrir stofnum fjármálafyrirtækis með ofangreind markmið að leiðarljósi og safna breiðum hópi stofnenda þannig að markmiðinu geti verið náð.
Fimmtán manns, átta karlar og sjö konur, gáfu kosta á sér í stjórn félagsins og voru fundarmenn ásáttir um að allir þeir sem gáfu kost á sér yrðu stjórnarmeðlimir.
Stofnfélagar Félags um Samfélagsbanka eru nú þegar yfir fimmtíu talsins en hægt verður að skrá sig sem stofnfélaga í nokkrar vikur enn.
Nánari upplýsingar um stefnumál og skráning í félagið verður gerð möguleg á heimasíðu félagsins, sem verður bráðlega sett í loftið. Nánari upplýsingar veita Sigfús Guðfinnson braudhus@isl.is og Einar Bergmundur einar@nature.is.
Sjá nánar um forsögu stofnunar félagsins í tenglum á ýmsar greinar í yfirflokknum í Tengdu lesefni „Græn viðskipti, Grænar fjárfestingar, Fundir og Ráðstefnum“ og fleiri tenglum hér t.h. á síðunni. Til þess að nálgast tenglana þarft þú að íta á „nánar“ hér að neðan.
Ljósmynd: Frá stofnfundinum á laugardaginn.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Einar Bergmundur „Félag um Samfélagsbanka orðið að veruleika “, Náttúran.is: 18. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/18/felag-um-samfelagsbanka-ordid-ad-veruleika/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. september 2011