Dagur hinna villtu blóma verður haldinn sunnudaginn 19. júní árið 2011. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Þátttakan á síðasta ári var alls 211 gestir í 16 skoðunarferðum. Neðst á þessari síðu er tengill inn á síður fyrri blómadaga, allt frá árinu 2004 þegar hann var fyrst haldinn hér á Íslandi. Skoðunarferðir hafa verið skipulagðar á eftirtöldum stöðum:

  1. Laugarás, Reykjavík: Mæting á Laugatungutorgi við aðalinngang Grasagarðsins í Laugardal kl. 11:00. Gengið upp á Laugarás, þar sem gróðurfar er fjölbreytt. Fjallað um gróður svæðisins og plöntur greindar. Leiðsögn: Hjörtur Þorbjörnsson.
  2. Grafarvogur, Reykjavík: Mæting á bílastæðinu við Eiðið út að Geldinganesi kl. 13:30. Leiðsögn: Ríkharð Brynjólfsson.
  3. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull: Mæting á Búðum kl. 14:00. Leiðbeinandi: Hákon Ásgeirsson, landvörður og náttúrufræðingur.
  4. Snæfellsnes: Mæting við Klofningsrétt sunnan Burstahrauns kl. 9:30. Leiðsögn: Skúli Alexandersson.
  5. Snæfellsnes: Mæting í Skarðsvík norðan Neshrauns kl. 13:30. Leiðsögn: Skúli Alexandersson.
  6. Fagridalur, Skarðsströnd. Mæting við Ytri Fagradal kl. 16:00. Gengið niður túnin að ströndinni, og eftir henni áleiðis til Nýpur og síðan upp Nýpurtúnin og lýkur göngunni að Nýp. Leiðsögn: Þóra Sigurðardóttir og Halla Steinólfsdóttir.
  7. Hólmavík: Mæting við flugstöðina á Hólmavík kl. 10:30. Gengið um Kálfanesland og yfir í Stakkamýri. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir.
  8. Dalvík, Náttúrustöðin á Húsabakka: Mæting við Olís á Dalvík kl. 13:00. Gengið um Hrísahöfða. Leiðsögn: Hjörleifur Hjartarson.
  9. Krossanesborgir, Akureyri.  Mæting við nýja bílastæðið norðan við BYKO  kl. 10:00. Gott að hafa stígvél meðferðis fyrir þá sem vilja skoða mýragróðurinn. Leiðsögn: Elín Gunnlaugsdóttir, grasafræðingur.
  10. Fosshóll við Skjálfandafljót. Mæting við verslunina á Fosshóli kl. 10:00. Leiðsögn: Hörður Kristinsson, grasafræðingur.
  11. Vatnajökulsþjóðgarður í Ásbyrgi. Mæting við Gljúfrastofu kl. 14:00. Leiðsögn: Guðrún Jónsdóttir, landvörður.
  12. Egilsstaðir - Fellabær. Mæting við þjóðveg 931 rétt utan við Ekkjufell kl. 10:00. Gengið um klettasvæðið, niður að Lagarfljóti og út með því, síðan hringinn til baka. Leiðsögn: Vigfús Ingvar Ingvarsson.
  13. Fjarðabyggð. Hólmanes, Fólkvangur - Friðland. Mæting við útskotið á Hólmahálsi kl. 11:00. Gengið um Hólmanesið, en þar er fjölbreytt gróðurlendi og mikil tegundafjölbreytni. Leiðsögn: Líneik Anna Sævarsdóttir og Erlín Emma Jóhannsdóttir.
  14. Vatnajökulsþjóðgarður í Skaftafelli. Mæting við Skaftafellsstofu kl. 13:50. Leiðsögn: Regína Hreinsdóttir.
  15. Sólheimar í Grímsnesi. Mæting við Sesseljuhús - umhverfissetur á Sólheimum kl. 15:00. Leiðsögn ákveðin síðar.

Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið  með flóruvinum að þessum degi á hverjum stað fyrir sig, meðal annarra Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrusetrið á Húsabakka,  Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.

Flóruvinir og aðrir sem eru reiðubúnir til að standa fyrir plöntuskoðunarferð á blómadaginn eru hér með beðnir að láta vita á póstfangið hkris@nett.is sem fyrst, og endilega fyrir 15. maí næstkomandi. Taka þarf fram hvar fólk á að mæta, og á hvaða tíma dagsins 19. júní.

Gjarnan mættu einnig fylgja með upplýsingar um hvað markverðast er að sjá á því svæði sem skoðað verður. Upplýsingum verður safnað saman hér á vefsíðuna eins og gert hefur verið síðastliðin ár.

Dagur hinna villtu blóma hefur síðan 2004, þegar Íslendingar bættust í hópinn,  verið haldinn á öllum Norðurlöndunum ásamt Færeyjum og Grænlandi.

Blómadagarnir 2004-2010.

Birt:
19. júní 2011
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Dagur hinna villtu blóma er í dag“, Náttúran.is: 19. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/16/dagur-villtra-bloma-sunnudaginn-19-juni/ [Skoðað:22. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. júní 2011
breytt: 19. júní 2011

Skilaboð: