Fyrir skömmu rituðu 37 vísindamenn, undir forystu Eiríks Steingrímssonar prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, þingmönnum umvöndunarbréf sakir fram kominnar tillögu til þingsályktunar sem miðar að því að útiræktun erfðabreyttra (eb) lífvera verði ekki heimiluð hér á landi frá og með árinu 2012. Í því segir að „engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun“, að áhyggjur tillögunnar séu „byggðar að verulegu leyti á misskilningi, vanþekkingu, fordómum eða hagsmunum“ og að greinargerð með henni sé »að mestu leyti röng“. Þingmenn eru hirtir fyrir ófagleg vinnubrögð.

Í stað þess að byggja tillöguna á áliti þeirra sem hvorki hafa skilning né fagþekkingu eru þingmenn hvattir til að leita til „þeirra mörgu fræðimanna sem eru vel að sér um málefnið“. Er augljóst að Eiríkur telur sveit sína falla undir þá skilgreiningu og er þá skammt úr leiðsögn þeirra í orð hinnar helgu bókar: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh. 8. kap., 31-32. v.)

Látum þingmenn svara fyrir sig, en skoðum nánar málflutning Eiríks og félaga. Hvað veldur því að 37 vísindamönnum er ókunnugt um tugi ritrýndra rannsókna þess efnis að slepping eb-lífvera kunni að valda víðtækri mengun umhverfis og skaðlegum áhrifum á aðrar lífverur? Er hugsanlegt að pólitík hafi óvart orkað á prófessor Eirík í sjónvarpsviðtali í tilefni umrædds bréfs, er hann segir „engar sérstakar vísindalegar ástæður“ en meira „pólitískar“ liggja að baki banni við útiræktun eb-plantna? Þar var þó sannarlega ljóst að niðurstöður vísindarannsókna G.E. Séralini o.fl. (2009) á 3 maísyrkjum, sem ætluð voru til manneldis og fóðrunar, voru ástæða þess að fjöldi Evrópulanda bannar ræktun á erfðabreyttum maís?

Og hvað styður þá djörfu fullyrðingu Eiríks og félaga að ónákvæmni erfðainnskota hafi „engar alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið“? Gögn um rannsóknir þess efnis væru vel þegin, en óþarfi að láta sem það sé óumdeilt, því vísindamenn hafa bent á að við innskot kunni að verða gríðarleg röskun á erfðamengi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífveruna og áhrif hennar á umhverfið (Wilson o.fl. 2004).

Hvað rekur Eirík til að staðhæfa að „allar vísindalegar rannsóknir sem gerðar hafa verið“ bendi til þess að „ekki sé neinn fótur fyrir því að eb-lífverur séu að valda skaða“, þegar fyrir liggur fjöldi rannsókna sem bendir til ofnæmis- og eituráhrifa á tilraunadýr og búfé (m.a. Malatesta o.fl., Prescott o.fl., Pusztai o.fl., Séralini o.fl.)?

Því verður a.m.k. ekki á móti mælt að umhverfis- og heilsufarsáhrif eb-lífvera eru mjög umdeild þótt sjálfstæðar rannsóknir eigi á brattann að sækja gegn ægivaldi líftæknifyrirtækja. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna (útg. 2008) sem 400 vísindamenn sömdu og stjórnvöld 58 ríkja árituðu er rót nokkurra helstu vandamála í landbúnaði rakin til ræktunar eb-plantna. Hvað er þá annað eftir til málsbóta útiræktun eb-plantna en sérhagsmunir líftæknifyrirtækja?

Athygli vekur hve árás Eiríks og félaga á umrædda þingsályktunartillögu ber svipmót af ógnum sem sjálfstæðir vísindamenn og stjórnvöld víða um heim hafa mátt þola af hálfu líftæknifyrirtækja og vísindamanna í þjónustu þeirra fyrir þá sök eina að hafa leitt fram rannsóknir sem benda til hættu sem umhverfi og heilsu kann að stafa af sleppingu eb-lífvera. Athyglisvert er að Eiríkur og félagar telji sig þurfa að sverja af sér hagsmunatengsl við ORF líftækni, en viðurkenna þó að nokkrir þeirra hafi atvinnu af rannsóknum með eb-lífverur. Margir þeirra starfa í stofnunum sem a.m.k. til skamms tíma voru samningsbundnar ORF um fræðslu, rannsóknir, þróun og jafnvel markaðsmál. Og a.m.k. fimm þeirra starfa hjá Landbúnaðarháskóla Íslands sem unnið hefur náið með ORF og var lengi vel hluthafi í fyrirtækinu. Þá benti prófessor Eiríkur á að af efnahagslegum ástæðum væri rangt að banna útiræktun eb-plantna og notaði ítrekað starfsemi ORF til að réttlæta mál sitt.

Í anda hins göfuga vísindamarkmiðs að skilja orsakir heimsins fyrirbæra - rerum cognoscere causas - hljótum við að spyrja hvað valdi þeirri ónákvæmni sem málflutningur Eiríks og hans ágæta föruneytis ber vott um. Tæpast er það landfræðileg einangrun. Er hugsanlegt að kenna megi um þekkingarskorti eða léttvægu mati þeirra á varúðarreglunni? Hvort tveggja yrði talið íslensku vísindasamfélagi til vansa, ef rétt reyndist. En síst er svo illa ígrunduð ráðgjöf til þess fallin að draga úr meintri ófaglegri meðferð mála á hinu háa Alþingi. Silkislegið yfirvarp óháðra vísinda fær því miður ekki dulið kröfur Eiríks og félaga um að löggjafarvaldið gangi erinda sérhagsmuna - í máli sem í ríkum mæli varðar heill þjóðar og umhverfis hennar. Það er miður, eftir allt sem á undan er gengið í landi voru.

Birt:
9. mars 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Vísindamenn í fjötrum sérhagsmuna - um erfðabreytingar“, Náttúran.is: 9. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/09/visindamenn-i-fjotrum-serhagsmuna-um-erfdabreyting/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: