Umhverfisþing var haldið á Selfossi í gær. Fjölmenni var, um 300 gestir sátu þingið og var dagskráin ágætlega skipulögð.

Áherslur Umhverfisþings 2011 voru náttúruvernd og umræða um hina svokölluðu Hvítbók sem er tæplega 500 síðna rit sem unnið var af hópi lögfræðinga og nokkurra sérfræðinga, nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga,  með það fyrir augum að gera tillögur að nýrri heildarlöggjöf fyrir náttúruvernd í landinu.

Hvítbókin var fyrst kynnt þ. 6. september sl. og er aðgengileg á vef umhverfisráðuneytisins en aðeins örfá eintök voru prentuð stafrænt, í sparnaðarskini. Umsagnarferli um Hvíbókina lýkur þ. 1. desember nk. sem þýðir að allur almenningur getur lagt fram athugsemdir og tillögur sem hafa mun áhrif á gerð endanlegs frumvarps um breytingar á náttúruverndarlögum. Er gert ráð fyrir því að nýtt frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum komi til kasta Alþingis í vor.

Því er skemmst frá að segja að í þessu ferli öllu, var, eins og svo oft áður hér á landi, ekki gert ráð fyrir raunverulegri aðkomu almennings en kynning á breytingum á náttúruverndarlögum kemur að sjálfsögðu öllum almenningi við, öllum kynslóðum og þjóðfélagshópum.

Niðurstaða umræðuhópa á umhverfisþingi í gær, sem fór fram í formi heimskaffis, leiddi einmitt í ljós að mikilvægast væri að hvítbókin yrði einfölduð og kynnt fyrir almenningi og ekki aðeins kynnt fyrir almenningi heldur þyrfti að eiga sér stað samræða meðal þjóðarinnar, þannig að tillögur að breytingum á náttúruverndarlögum yrði sáttmáli þjóðarinnar um hvernig við viljum vernda náttúruna og nýta á sjálfbæran hátt til framtíðar.

Tónninn á þessu Umhverfisþingi var gerólíkur þingum fyrri ára og mikil bjartsýni lá í loftinu enda loksins af merkja að umhverfisráðherra landsins sé virkilega annt um framvindu umhverfismála í átt til umhverfisverndar.

Einn framsögumaður á Umhverfisþingi var Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisfræðingur sem ræddi m.a. um það „að uppgötva hið heilaga í náttúrunni“ og fór þar nokkuð utan þess vísindalega ramma sem málefni nátturuverndar eru oftast höfð í á opinberum vettvangi. Hún benti á að við mennirnir værum gersamlega háðir náttúrunni og vistkerfum jarðar og að í ósnortinni náttúru séu falin ómetanleg verðmæti. Ef ekkert er heilagt er allt leyfileg sagði Ingibjörg Elsa ennfremur.

Hún endaði með að koma með tillögu að nýrri byrjun á Faðir vor-inu. Sem hljóðar svo;

Faðir vor og móðir vor
Þú sem ert á himni og jörðu
Helgist þitt nafn
og til komi þitt ríki...

Ljósmynd: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir í pontu á Umhverfisþingi 2011.

Sjá hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (heildarrit).

Sjá og hlusta á upptökur af Umhverfisþingi 2011 hér.

Birt:
15. október 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisþing kallar á aðkomu almennings á mótun nýrra náttúruverndarlaga“, Náttúran.is: 15. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/15/umhverfisthing-kallar-adkomu-almennings-motun-nyrr/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. nóvember 2011

Skilaboð: