Stjórn Landverndar harmar ákvörðun Orkustofnunar að veita leyfi fyrir sitt leyti til borana í Grændal í Ölfusi í tengslum við jarðhitarannsóknir. Grændalur er svæði með verndargildi á heimsvísu að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands sem verðskuldar hámarks vernd.

Stjórn Landverndar undrast að stjórnvöld, undir forystu Orkustofnunar, séu reiðubúin til að fórna slíku svæði fyrir fyrirhugaða 10 MW virkjun í mynni Grændals, þvert á afstöðu sveitarfélagsins Ölfuss, Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytisins.

Stjórn Landverndar hefur boðað náttúruverndarsamtök til fundar til að ræða hvaða áhrif umrædd niðurstaða Orkustofnunar, sem túlka verður sem stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda, kann að hafa á þátttöku þeirra í starfi Rammaáætlunar. Það er mat stjórnar Landverndar að stjórnvöld verði að grípa strax til ráðstafana til að tryggja að náttúru Grændals verði ekki raskað í kjölfar ákvörðunar Orkustofnunar.

Stjórn Landverndar bendir á að ákvörðun Orkustofnunar sýni vel fram á það stefnuleysi sem er ríkjandi í orkuiðnaði hér á landi, þar sem skipulags- og leyfisveitingavaldi hefur á undanförnum árum verið dreift á stofnanir og sveitarfélög. Við treystum því að núverandi stjórnvöld breyti lögum og reglugerðum til að sitja ekki undir ámæli um að forðast pólitíska ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis á skipulags-, stóriðju- og virkjanamálum. Ótækt er að einni stofnun sé kleift að veita leyfi til að raska svæði sem náttúruverndarsamtök, ríkisstjórn, fagstofnanir á sviði umhverfismála og sveitarfélög eru sammála um að vernda.

Birt:
2. júní 2011
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „ Yfirlýsing stjórnar Landverndar vegna rannsóknarleyfis í Grændal“, Náttúran.is: 2. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/02/yfirlysing-stjornar-landverndar-vegna-rannsoknarle/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. júní 2011

Skilaboð: