Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka íslands fylgdist með orðum forsætisráðherra í gær og fyrradag og bendir hér á brot úr yfirlýsingum hennar og gerir athugasemdir:

Forsætisráðherra ku hafa sagt eftirfarandi í gær:

„Stefnt er að amk tveimur umfangsmiklum fjárfestingaverkefnum í orkufrekum iðnaði auk þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þegar eru komnar á stað við Búðarhálsvirkjun, álverið í Straumsvík, Kísilverksmiðju í Helguvík, Gagnaver á Suðurnesjum, álverið á Reyðarfirði og víðar. Ég reikna með að nú styttist verulega í að tilkynnt verði um framkvæmdir í tengslum við orkufrekann iðnað á Norðurlandi. Ég er líka orðin mun bjartsýnni en áður, um að Norðurál nái semja við HS orku og Orkuveituna um nægilega orku til að álver þeirra í Helguvík geti orðið að veruleika með tilheyrandi framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun, Reykjanesvirkjun og línulagnir í tengslum við orkufrekann iðnað á Suðurnesjum. Ef ofangreind verkefni ganga öll eftir gætum við því verið að tala um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og tengdum virkjanaframkvæmdum uppá 300-400 milljarða á næstu þremur til fimm árum og sex til sjö þúsund ársverk við uppbygginguna,"

Það væri ákaflega óábyrgt af forsætisráðherra að segja svona lagað - að nánast lofa heilu álveri upp í ermina á sér - án þess að hafa eitthvað fyrir sér í því. Jafnframt væri það óábyrgt að ráðstafa orkulindum þjóðarinnar með sölu til álvera. Nægir að benda á Drög að orkustefnu sem kynnt var í vetur þar sem bent er á óhagkvæmni orkusölu til álvera. Svo ekki sé minnst á eyðileggingu á náttúruverðmætum, mengun og annað ógeð. Spurning hvort ríkisstjórnin hafi með einhverjum hætti liðkað fyrir samningum líkt og SA hefur ítrekað krafist.

Forsætisráðherra sagði ennfremur í ræðu sinni í fyrradag:

„Rammááætlun og þar með röðun virkjanakosta og verndarsvæði og vatnalög verða afgreidd fyrir næsta vetur og á grundvelli hennar getur Landsvirkjun og aðrir aðilar lagt grunn að framtíðaruppbygginu virkjana og orkusölu þannig að hámarka megi arð þjóðarinnar af orkuauðlindum sínum.
Þar er grundvallaratriði að handstýringu stjórnvalda um hvar skuli virkja sé lokið.  Rammanáætlun á að vera okkar leiðsögutæki  og þar eiga viðskiptaleg sjónarmið að ráða ferðinni annarsvegar og náttúruvernd hinsvegar.“

og síðar...

„Ég nefni líka áframhaldandi mótun á breyttu lagaumhverfi orkufyrirtækja og samninga um afgjald og leiguréttindi auðlinda í þjóðareigu. Rammáætlunin um verndun og nýtingu, vatnalögin og ný orkustefna eru allt greinar af þessum meiði.

Allt lýtur þetta að þeirri grundvallar sannfæringu okkar jafnaðarmanna að betur þurfi að tryggja forræði þjóðarinna á auðlindum hennar og að arðurinn af þeim renni í ríkari mæli til þjóðarinnar sjálfrar.

Í þessu augnamiði og í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er nú í undirbúningi að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun vegna auðlinda í eigu þjóðarinnar þar sem meðal annars verður fjallað um stofnun sérstaks auðlindasjóðs.

Með þeim breyttu leikreglum sem ríkisstjórnin er að móta um auðlindir þjóðarinnar orkuauðlindirnar, vatnið, þjóðlendur, fiskinn í sjónum ofl gæti Ísland á komandi tíð eignast sinn eigin Olíusjóð. Sjóð sem með vaxandi styrk gæti staðið undir hluta velferðarkerfsins og stuðlað að aukinn velferð og sátt í samfélaginu.“


Undistrikanir eru mínar til að vekja athygli á orðinu sem vantar: náttúruvernd, umhverfisvernd, ekki einu sinni hugtakið sjálfbær þróun kemst á blað hjá forsætisráðherra. Hvergi er minnst á hvernig eigi að vernda þá auðlind sem helst ber upp nafn Íslands: náttúruna - hið Fagra Ísland - eins og það var eitt sinn orðað í kosningabaráttu.

Ennfremur, „Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið." Vissulega hefur yfirlýst stefna Landsvirkjunar breyst. Tilgangur fyrirtækisins er nú að skapa eigendum sínum arð. En arðurinn hefur sannarlega ekki myndast. Ekki enn og Landsvirkjun er í nokkurra ára fríi frá arðgreiðslum til eigenda (fólksins) sinna.

Enn er engin ástæða til að treysta forsætisráðherra þegar hún talar um Olíusjóð með stóru O-i. Miðað við orð hennar um álver í Helguvík mun slíkur sjóður aldrei myndast. Eða, eins og fram kemur í nýrri stefnu LV og Drögum að orkustefnu, þá borga álverin lægsta mögulega verð fyrir orkuna og krefjast samninga sem vara eiga í áratugi.

Birt:
31. maí 2011
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Athugasemdir við yfirlýsingar forsætisráðherra um orkumál“, Náttúran.is: 31. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/31/athugasemdir-vid-yfirlysingar-forsaetisradherra-um/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: