Gengurðu vel?
Í seinasta pistli mínum hér „Að ganga vel á fjöllum“ fjallaði ég um umgengni okkar um fjöllin og landslagið. Nú er komið að því að við skoðum aðeins hvernig við göngum sjálf.
í allri þeirri vakningu sem á sér stað í dag í gönguferðum okkar úti í náttúrunni, þá er þar einn þáttur sem er vanræktur.
Það er sá þáttur sem víkur að því hvernig við göngum. Hvernig við beitum líkamanum og notum þyngd okkar sjálfra við að koma okkur áfram.
Í ótal fjallaferðum mínum hef ég séð fólk eyða allt of mikilli orku í gönguna. Vissulega er það oft í góðu lagi, þegar fólk er að æfa og byggja upp þol og styrk á styttri leiðum, en þegar löng ganga er framundan, þar sem halda þarf út langan göngudag og eiga svo hugsanlega einhverja orku afgangs ef eitthvað ber út af, eða bara til að koma sér heim, er mikilvægt að beita sér rétt.
Sjálfur hef ég það fyrir vana þegar ég fer með hópa í lengri göngur að kenna fólki rétta göngutækni og líkamsbeitingu. Byrja fyrirlesturinn á því að spyrja hvort það hafi ekki örugglega allir lært að ganga nálægt eins árs afmælinu sínu. Flestir játa því, en þegar ég spyr hvort nokkur hafi fengið „framhaldsnámskeið“ eftir það, verður oftast fátt um svör.
Þess vegna ætla ég að fjalla hér aðeins um það hvernig best er að beita sér á göngu og veita einhverjum ykkar vonandi langþráð framhaldsnámskeið í að ganga.
Of margir hefja gönguna á því að rjúka af stað. Eftir stutta stund fer fólki að hitna og gamalkunnug „brunatilfinning“ kemur í læri og aðra vöðva sem við beitum helst á göngunni. Þetta er gott dæmi um það þegar vitlaust er farið af stað og ávísun á mikla þreytu og jafnvel að þreytan nái yfirhöndinni áður en markmiði ferðarinnar er náð og göngumaðurinn snýr við löngu áður en ætlað var.
Auðvitað viljum við komast hjá þessu og helst að koma aftur til baka, full af orku og þægilega þreytt.
Þegar við ætlum okkur í gönguferð skulum við byrja á því að huga að klæðnaðinum. Stundum er svalt úti og jafnvel kalt. Við komum út úr heitum bílnum og ákveðum að klæða okkur m.v. þá tilfinningu. Svo er gengið af stað og eftir stutta stund fer okkur að hitna vel og þá kemur upp þörfin að fækka fötum, en þá erum við kannski þá þegar orðin sveitt og þvöl og því er erfitt að finna rétta hitann á okkur eftir það. Sjálfur hef ég það fyrir vana að vera alltaf „smá kalt“ þegar ég byrja að ganga. Þá veit ég líka að eftir smá stund þegar líkaminn fer að hitna að þá verð ég líka hóflega heitur og þarf því ekki að fækka fötum. Höfum því í huga að klæða okkur ekki of mikið í upphafi göngu, en ef okkur hlýnar ekki fljótlega, þá er kannski tímabært að bæta á sig fleiri fötum. Við það að svitna of mikið missum við mikla orku sem við auðvitað viljum eiga þar til átökin aukast. Munið því, að ykkur á að vera „örlítið kalt“ þegar gangan hefst.
Þá er það gangan sjálf. Mín einfalda regla segir „Þú ferð hraðar ef þú ferð hægt“. Nú hvá eflaust einhverjir og því ætla ég að skýra þetta betur.
Þegar við göngum, skulum við ganga fremur hægt og hafa skrefin stutt og umfram allt, ekki fara of hratt af stað. Skrefin eiga að vera það stutt að við erum aldrei að tegja á okkur í skrefunum, því þegar við teygjum á vöðvunum, er stutt í að mjólkursýran fari af stað og þá er líka stutt í að við þreytumst. Oft krefst það nokkurar einbeitingar og vilja að halda þessum rólega hraða. En ég lofa ykkur því að ef þið venjið ykkur á að ganga rólega, þá sjáið þið líka fljótt að þessi hæga yfirferð skilar ykkur hraðar, því sjaldnar þarf að hvíla sig og einnig helst líkamshitinnn stöðugri og við mæðumst mun minna.
En þá er það hvernig við beitum okkur á göngunni. Vonandi tekst mér að lýsa því hér á einfaldan hátt. Í stuttu máli sagt, þá eigum við ekki að„draga okkur upp“ í skrefunum, heldur eigum við að “stíga upp“. Of margir eru að taka löng skref og stíga þá langt fram fyrir sig og nota því nánast alla vöðva í lærunum þegar þeir draga sig upp. Best er að bera sig þannig að, að við færum líkamsþungann fram. Það gerum við með því að halla okkur aðeins fram á við og í hverju skrefi færum við þann fót sem við stígum í, sem næst í lóðrétta línu undir þyngdarpunkt líkamans. Síðan stígum við upp í þann fót og því felst áreynslan að mestu í því að rétta úr fætinum og þá erum við aðeins að nota vöðvana aftan í lærunum.
Eflaust tekur það ykkur einhvern smá tíma að tileinka ykkur þessa göngutækni (allavega átti það við um mig) en ég lofa ykkur því að þið munið eiga auðveldari ferðir framundan.
Stundum þarf jafnvel að beita smá „aga“ á göngufélagana þegar maður vill ganga rólega.
Fyrir tveim árum var ég á leiðinni á Hvannadalshnúk með hóp björgunarsveitarfólks. Spennann var mikil, en ég vildi halda þessum skynsamlega gönguhraða. Þegar við vorum komin nokkuð áleiðis, sáum við aðra hópa draga á okkur. Þetta kom af stað stressi í mínu fólki sem vildi auka hraðann. Ég stóð á mínu og hélt þessum yfirvegaða hraða og innan skamms ruku nokkrir hópar fram úr okkur við mikla óánægju míns fólks. En viti menn, þegar komið var upp í um 1600 m. hæð fórum við fram úr öllum þessum hópum, sem voru þar örþreyttir og orkulitlir. Svo fór að við vorum fyrsti hópur á tindinn þennan dag og einhverir þessara hópa sem fóru fram úr okkur neðarlega á leiðinni náðu ekki að komast á tindinn sökum þreytu.
Göngum því hægt og spörum orkuna. Þannig förum við miklu hraðar yfir auk þess sem ferðirnar verðu mun ánægjulegri.
Ljósmynd: Sól fagnað á Búrfelli, ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Gengurðu vel?“, Náttúran.is: 24. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/24/gengurdu-vel/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. október 2011