Guðmundur Hörður Guðmundsson nýr formaður Landverndar
Í gær var aðalfundur Landverndar haldinn í Nauthól í Nauthólsvík. Svandís Svavarsdóttir setti fundinn en á dagskrá var m.a. að kjósa á milli tveggja frambjóðanda til formanns og kjósa sex stjórnarmenn. Baráttan um formannsstólinn stóð á milli Björgólfs Thorsteinssonar sem verið hefur formaður samtakanna í sex ár og Guðmundar Harðar Guðmundssonar umhverfisfræðings og fyrrum kynningarfulltrúa umhverfisráðuneytisins.
Þar sem aldrei áður, í fjörtíuogtveggja ára sögu félagsins, hefur þurft að efna til kosninga um formann þar sem aðeins einn maður/kona buðu sig fram til þessa, reis upp ágreiningur um hvort að ákvæði í 3:9. grein laga félagsins, sem kveður á um vægi annars vegar aðildafélaga og hins vegar félaga við afgreiðslu „tillagna“ ætti að gilda eða ekki. Eða hvort að einfaldur meirihluti ætti að ráða úrslitum við kosningu til formanns þar sem í grein 4:11. laganna, stendur að formaður skuli kosinn í sérstakri kosningu og að hún eigi að vera skrifleg. Ekkert er þó fjallað um tilhögun kosninga formanns að öðru leiti í greininni.
Að lokum var ákveðið að þar sem lög félagsins væru ekki nógu skýr að þessu leiti ætti úrslit kosninganna að byggðast á hreinum meirihluta atkvæða og var það samþykkt einróma. Jafnframt var samþykkt að fela stjórn að endurskoða lög félagsins með hliðsjón af þessu. Síðan var gengið til kosninga og úrslit urðu þau að Guðmundur Hörður Guðmundsson hlaut kosningu til formanns með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Einnig var kosið til stjórnar og voru sjö manns í framboði, en sex hlutu kosningu. Nýir stjórnarmenn í Landvernd eru; Anna G. Sverrisdóttir, Einar Bergmundur Arnbjörnsson, Helena Óladóttir og Helga Ögmundardóttir sem kosin voru til tveggja ára en endurkjöri til eins árs náðu þau Hrefna Sigurjónsdóttir og Jón S. Ólafsson enda höfðu þau einungis gefið kost á sér til eins árs.
Það má með sanni segja að mikil spenna hafi ríkt á fundinum og um leið var ánægjulegt hve vel var mætt og mikill hugur í fólki að hleypa nýju lífi í samtökin. Heimskaffi sem fyrirhugað var að halda um umgengni við landið féll niður enda fór fundurinn þónokkuð útfyrir ráðgerðan tímaramma sinn. Sex ályktanir voru samþykktar á fundinum og munum við birta þær hér á vefnum á næstu dögum.
Náttúran.is óskar Guðmundi Herði til hamingju með formannssætið og nýjum og endurkjörnum stjórnarmönnum til hamingju með kjörið um leið og við þökkum góða samvinnu við fráfarandi formann Björgólf Thorsteinsson sem eins og hann sagði sjálfur mun ekki hverfa af braut nátturuverndar heldur vera nýjum formanni og stjórnarmönnum til aðstoðar við að setja sig inn í störf sín.
Sjá lög félagsins nánar á vef Landverndar.
Ljósmyndir: Frá aðalfundi Landverndar þ. 26. maí 2011. Efsta myndin tekin yfir salinn meðan að umhverfisráðherra flutti ræðu sína. Miðmyndin, félagar á fundinum. Neðsta myndin er af nýkjörnum formanni Guðmundi Herði Guðmundssyni að flytja kynningarræðu sína á fundinum. Ljósm.: Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Guðmundur Hörður Guðmundsson nýr formaður Landverndar“, Náttúran.is: 27. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/27/gudmundur-hordur-gudmundsson-nyr-formadur-landvern/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. maí 2011