Arthúr Björgvin Bollason flutti þetta magnþrungna erindi á málþingi um gildi landslags á hálendi Íslands sem haldið var í Norræna Húsinu 21. október árið 2000.

Í frægri grein sem dr. Sigurður Þórarinsson skrifaði fyrir hartnær hálfri öld um „Fossa á Íslandi“ lýsir hann viðhorfi sínu til þessa mikla náttúruafls með eftirfarandi orðum:

„Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkur af framtíð þjóðar okkar, er byggist á þeim verðmætum sem mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi ekki að í fossum landsins búi einnig verðmæti sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum“.

Þegar við lesum þessi orð dr. Sigurðar Þórarinssonar vaknar sú spurning, hver þau verðmæti séu sem hann er að tala um. Þessi verðmæti, segir hann, verða ekki metin til fjár, heldur mælast þau í unaðsstundum. Sú hugsun sem Sigurður opinberar í þeim skrifuðum orðum felst í því að til séu verðmæti sem séu annars eðlis en þau sem felast í verðbréfum, verðmæti sem eru jafnvel allsendis óskyld krónum og aurum, vöxtum eða vaxtavöxtum; verðmæti sem skila okkur annrs konar hagnaði en hlutabréf á markaði. Þarna er höfundur bersýnilega að skírskota til annarra þarfa en þeirra sem tengjast efnislegri tilvist okkar, - þarfa sem varða sálina, tilfinningarnar, „andann“ eða hvað við viljum kalla þann þátt mannskepnunnar sem hér á í hlut. Sigurður er að tala um það hjartansmál sem Þorsteinn Erlingsson skáld gerði að yrkisefni í kvæðinu sínu um fossana á æskuslóðum í Fljótshlíðinni:

„Þó þeir ættu aungva sál / eða skiftu hljómi / sungu þeir heilagt hjartansmál / hver með sínum rómi“.

Og síðar í kvæði sínu „Fossanið“ bætir skáldið við:

„Hljóðin snjöllu úr hamraþröng / heiðra ég öllu meira / þar eru tröll og syngja söng / svo að fjöllin heyra“.

Hér gerir Þorsteinn Erlingsson það sem skáldum hefur löngum verið tamt: hann holdgerir náttúruna og gefur henni mál. Fossniðurinn er söngur tröllanna sem þau syngja fyrir fjöllin. Í kvæðinu sem Þorsteinn yrkir í Danmörku kemur líka fram að það sé ekki á færi annarra en Íslendinga að skilja óðinn sem fossarnir flytja:

„Hárra fjalla frægðaróð / fossarnir mínir sungu; / það hefur enginn þeirra ljóð / þýtt á danska túngu“.

Í ljóði Þorsteins Erlingssonar, Fossaniður, lætur skáldið hugann hvarfla til þess tíma þegar það óx úr grasi og heyrði tröllin syngja í fossunum fyrir ofan bæina í Fljótshlíðinni. Fossniðurinn, tröllasöngurinn, verður skáldinu kveikja að ljóði sem í raun fjallar um heimþrá, söknuð eftir landinu og sælli sumartíð, þegar fossarnir sungu „sama létta braginn…upp um alla hlíð / endilangan daginn“. Og úr því minnst er á hughrifin sem fossarnir hafa vakið þá má nefna það sem Sigurður Nordal skrifaði forðum daga um þann sem er þeirra voldugastur. Í ritgerð frá þriðja áratug 20stu aldar lýsir Sigurður Dettifossi með eftirfarandi orðum:

„Reynið þér að hugsa yður Dettifoss, sem ekki hafið séð hann. Jökulsá á Fjöllum, eitt af agalegustu fljótum þessa lands, vaðlaus milli fjalls og fjöru, fellur þar ofan í endann á 170 feta djúpri gjá. Ferðamaðurinn kemur á vesturbakkann, sér ána hverfa ofan í gljúfurkverkina og breiðast fram af austurbrúninni. En fossinn streymir ekki í jafnri sífellu, hann dettur. Straumþungi árinnar er svo ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að vatnið þeytist fram af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundrast í fallinu, leysast sundur í vatnsstjörnur, sem þjóta í allar áttir og draga eftir sér úðahala. Nafnið Dettifoss er valið með glöggri athugun. Nýir og nýir flekar detta hver ofan á annan, hverfa ofan í mökkinn í gljúfrinu. Fossinn fellur endalaust og breytir þó mynd á hverju andartaki. Hann seiðir augað til sín - allt í einu finnst áhorfandanum bakkinn þjóta með hann út í geiminn með ógnarhraða og grípur ósjálfrátt hendinni eftir einhverju að halda sér í. Og hugann sundlar eins og augað. Þessi vitlausi, tilgangslausi tryllingur plægir sálina. Menn standa eins og frammi fyrir dómstóli, þar sem hið dýpsta í þeim er knúið fram. Vitið skilur ekki. Viljinn bognar.“

Lokaorðin í þessari lýsingu Sigurðar Nordals á áhrifum fossins eru býsna athyglisverð. Hér má beinlínis skilja orð fræðimannsins sem svo að hann sé að vísa til trúarlegrar reynslu: menn standa eins og frammi fyrir dómstóli, þar sem hið dýpsta í þeim er knúið fram. Fossinn vekur í brjósti þess sem á hann horfir djúpa kennd, snertir einhvern kjarna, einhverja kviku sem leynist innst og dýpst í hverjum og einum. Seiðandi og tryllingslegur flaumurinn, þetta ógnvekjandi hamsleysi náttúrunnar, er ofvaxið mannlegum skilningi. „Vitið skilur ekki“. Hughrifin eru handan allra marka mannlegrar skynsemi, þau eru á öðru sviði. Yfirþyrmandi máttur vatnsins, kraftur þessarar voldugu höfuðskepnu smýgur inn í sálina, flekarnir sem þeytast fram af klettabrúninni og springa og sundrast í fallinu, koma róti á tilfinningar þess sem verður vitni að þessu vitlausa og tilgangslausa sjónarspili. Og það er einmitt lóðið: þessi tryllingur er með öllu vit- og tilgangslaus. Mikilfengleiki þessa stórbrotna náttúruundurs höfðar ekki til vitsmuna, heldur tilfinninga. Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant gerði á sínum tíma greinarmun á tvenns konar fegurð: annars vegar talaði hann um „náttúrufegurð“ og hins vegar um „listræna fegurð“. Annars vegar er sú fegurð sem hrífur okkur „beint“, án þess að skilningur eða skynsemi komi þar nærri. Hins vegar er sú fegurð, sem við „skiljum“ og skýrgreinum með hjálp vitsmunanna. „Náttúrufegurð“ sagði Kant "er fagur hlutur. Listræn fegurð er aftur á móti fögur hug-mynd af einhverjum hlut". Og þegar við hrífumst af fögrum hlutum í náttúrunni, sagði Kant, þá er slík hrifning laus við allan ásetning, óháð öllum hagsmunum, hverju nafni sem þeir nefnast. Og þessi mannlegi hæfileiki, að geta hrifist af náttúrunni og notið þeirrar fegurðar sem hún býr yfir, gerir okkur í stakk búin til að laðast að fyrirbærunum, elska þau „eins og þau eru“, án þess að hafa neinn framandlegan tilgang í huga eða vilja „hagnast“ á þeim með nokkrum hætti. Og þar með hefur þessi umræddi hæfileiki jafnframt fengið aðra og merka vídd. Þar með hefur hann nefnilega tengst siðferðinu og siðferðisvitundinni: í þeim efnum varðar mestu að við umgöngumst hvert annað með þá hugsýn að leiðarljósi, að hver og einn einstaklingur er tilgangur í sjálfum sér; okkur leyfist m.ö.o. aldrei að nota hvort annað sem tæki í framandlegum tilgangi, eða með það fyrir augum að „hagnast“ á því. Þetta er mikilvægur kjarni í allri siðfræði Kants og þessi siðfræði gegnir stóru hlutverki í stjórnarskrám allra vestrænna ríkja. Til að einfalda þetta tal um samband fegurðar og siðlegrar breytni má kannski segja að kjarninn í þessu öllu sé sá að fögur náttúra geri okkur, hvert og eitt, að betri manni. Náttúrufegurð hafi - m.ö.o. - mannbætandi áhrif á þann sem hennar nýtur. Og þá eru enn ótalin þau áhrif sem fögur náttúra hefur á ímyndunaraflið og margir hugsuðir - þeirra á meðal Kant - hafa gert sér mat úr. Þessum áhrifum hefur meistari Þórbergur lýst á snjallan hátt í bók sinni „Steinarnir tala“, þar sem hann fjallar um æskuárin í Suðursveit. Þar víkur hann einmitt, með svolítið öðrum hætti en Kant, að þeim mun sem hann telur vera á náttúrulegum og manngerðum hlutum.

„Af öllum „dauðum hlutum“ segir Þórbergur „fannst mér steinarnir vera mest lifandi.

Það var af því að þeir voru náttúrulegastir og mundu lengst aftur. Það hafði enginn umskapað þá og neytt þá til að vera öðru vísi en náttúran hafði gert þá. En hinir „dauðu hlutirnir“ voru afmyndaðir af mönnum og ónáttúrlegir, og mér fannst þeir hafa glatað miklu af sálu sinni, með því að vera gerðir svona…" Og sá texti er að líkindum vandfundinn á íslenskri bók, þar sem því er lýst af öðrum eins næmleika, hvílík áhrif einn steinn getur haft á mannlegt ímyndunarafl og í lýsingu Þórbergs á steininum góða sem hann festi sjónir á í fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn Hala í Suðursveit:

„Það var eitt við þennan stein, sem gerði hann furðulegan og ólíkan öllum steinum öðrum, og nú ætla ég að segja það, þó að það sé ótrúlegt. Hann var alltaf ósýnilegur nema í sólskini og sást þó aldrei í sólskini fyrr en sól var komin um það bil í hádegisstað. Eftir það sást hann allan daginn , meðan sól skein á hann. En undireins og sólsett varð þarna uppi í Mosunum eða ský dró þar fyrir sólu, þá varð hann aftur ósýnilegur. Þá var eins og það hefðu verið ofsjónir í mér, að hann hefði verið til. Þetta var óhugnanlega dularfullt.

Það voru þessi hamskipti steinsins úr ósýnilegri veru í sýnilega og aftur í ósýnilega í björtu, sem gerðu hann merkilegri en alla aðra steina í fjallshlíðinni, kannski í öllum fjallshlíðum í heiminum. Þarna stóð hann í grjótskriðu uppi í Mosunum eins og ljósbleik hulduvera, ólíkur öllum öðrum steinum, einn sér, algerður einstæðingur. Hann hafði engan til að tala við. Ég vorkenndi honum. Mér fannst honum hlyti að líða illa af því, hvað hann var einmana, eins mikið lifandi og hann var".

Í þessum orðum sjáum við hvernig steinn í fjallshlíð fær líf og lit og örvar ímyndun ungs drengs sem leikur sér í túninu fyrir neðan. Og fyrir þá sem vilja lesa meira má nefna að af þessum steini og skiftum meistara Þórbergs við hann er þó nokkur saga, sem ekki verður rakin hér. Þó að þessi texti úr bókinni „Steinarnir tala“ sýni kannski fyrst og fremst hversu næmur Þórbergur var fyrir blæbrigðum jafnvel einföldustu og smæstu hluta í náttúrunni, þá hafa ýmsir fleiri orðið til þess að lýsa blæbrigðum íslenskrar náttúru á áhrifamikinn hátt. Og það á ekki aðeins við um Íslendinga, heldur hafa erlendir gestir á stundum dregið upp glæstar myndir af hughrifum sínum af þessu tagi. Einn þeirra er þýski norrænufræðingurinn Andreas Heusler, sem var á sínum tíma mikilvirkur fræðimaður og þýddi m.a. Brennu Njáls sögu á þýsku. Í ritgerð sinni „Íslandsmyndir“, sem Heusler skrifaði skömmu fyrir aldamótin 1900, lýsir hann einkennum íslensks landslags á tilþrifamikinn hátt. Lýsing Heuslers er ekki síst forvitnileg fyrir þá sök, að hann ber náttúru Íslands saman við náttúru annarra landa. Hesuler segir:

„Íslenzkum svæðum eru sameiginlegir nokkrir eiginleikar, er að mestu leyti stafa af loftinu. Svo skærir og léttir litir, að ekki verður með orðum lýst; oft er engu líkara en sjónarsviðinu hafi verið andað á landið. Fjarsýnin er undarlega skýr, en aldrei hvöss og hörð. Mörg landsvæði eru litauðug, en aldrei flikrótt og skræpuleg. Ég get ekki hugsað mér að íslenzkt landslag náist til fulls nema með vatnslitum. Á heimleiðinni kom mér það kynlega fyrir sjónir, hve litirnir umhverfis Edinborg voru dumbir og þungir; það kom ekki af verksmiðjureyknum brezka: á Sjálandi voru áhrifin eins. Nándin virtist svartleit og þungleg, fjarsýnin annaðhvort óskýr eða hörð. - Jafn einstillta liti og á Íslandi þekki ég annars aðeins á Ítalíu. En aðalblærinn er allur annar: íslenzka ljósið er alltaf grárra, silfraðra, og áhrif þess því svalari. Himinbláminn er líka miklu ljósari. Kvöldroðinn á himninum og á jökulbungunum er viðkvæmari, kaldari, bláleitari en hin rauðgullna glóð Alpafjallanna, hann líkist meira hinni sjaldgæfu hreinu Alpaglóð, sem kemur eftir fyrstu bliknun tindanna.“
(ísl. þýðing: Guðmundur Finnbogason)

Í þessum orðum Heuslers er tæpt á nokkrum þeirra eiginleika sem erlendir ferðamenn nefna gjarnan, þegar þeir lýsa hrifningu sinni á ósnortinni íslenskri náttúru. Skærir og léttir litir, tærleiki loftsins sem gefur mönnum víða sýn, litauðgi landslagsins, sem er þó fjarri því að stinga í augu, silfruð birtan og svalur roðinn á jökulhvelinu, þegar kemur að sólsetri... „Skein yfir landi sól á sumarvegi / og silfurbláan Eyjafjallatind / gullrauðum loga glæsti seint af degi" segir Jónas í kvæðinu sínu um "Gunnarshólma“.

Og fjöllin sem listfræðingurinn John Ruskin kallaði á sínum tíma "hinar miklu dómkirkjur jarðarinnar" verða skáldinu Gesti Pálssyni kveikjan að lítilli hugrenningu um þá nautn sem náttúran veitir. Í sögu Gests um Sigurð formann er að finna eftirfarandi hugvekju:

„Hvergi getur maður eins hjartanlega og eins fullkomlega sökkt sér niður í að njóta náttúrunnar eins og uppi á fjöllunum. Í byggðinni rekur maður sig alltaf á mannaverk og mannabýli, og það ekki trútt um stundum, að manni finnist þess konar smásmíði hálft um hálft eins og einhvers konar blettir á náttúrunnar stóru bók, eins og náttúran væri hreinni og svipmeiri, ef þau væru ekki. Allt öðru máli er að gegna uppi á fjöllunum. Þar er ekkert sem dregur úr mikilfengleik náttúrunnar. Hvergi er sumarkyrrðin á næturþeli eins þögul og þar. Stórskorin fjöll og firnindi, endalausir eyðigeimar, blásin holt og hæðir, allt stendur dauðakyrrt og steinþegjandi í sinni hrikadýrð; og ekkert minnir á mennina þar uppi nema vegurinn, sem maður fer, en hann er líka venjulega sannkallað mannaverk“.

Enda þótt það sé íslenskur maður sem hér talar leyfi ég mér að fullyrða að í þessum orðum komi fram nokkurs konar kjarni þess sem erlendir gestir hrífast af, þegar þeir eru leiddir til fjalla. Stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma eiga uppruna sinn í borgum. Svo vísað sé til þeirrar reynslu sem ég hef sjálfur orðið fyrir á ferðalögum með erlenda gesti um hálendi Íslands, þá er þetta einmitt það sem mörgum þeirra kemur í hug, þegar þeir eru að reyna að skýra hughrifin sem þeir verða fyrir, andspænis tignarlegri náttúru öræfanna. Hún vekur hjá þeim blendnar og á stundum torræðar tilfinningar í garð þess manngerða umhverfis, sem þeir sjálfir eru komnir úr. Þeir hafa á orði að þeim finnist húsin í borgunum, þar sem þeir eiga sjálfir heima, eins og einhver missmíð, einhver blettur á hinni stóru bók náttúrunnar. En umfram allt er það þó hin djúpa kyrrð, ólýsanleg þögnin og hin víða sýn, firnindin sjálf, sem snerta hina erlendu gesti djúpt; og það svo djúpt að á stundum er eins og þeir taki hamskiptum, eins og sálin fái hreinlega snöggan þvott af því tagi sem Grikkir kölluðu „kaþarsis“ til forna: hreinsun sálarinnar og töldu gríska harmleikinn vera færan um að veita fólki. Ég hef oft orðið vitni að því að erlent fólk taki slíkum hamskiptum, af því flettist á augabragði allt það roð sem borgarmenningin hefur látið vaxa á því; allt í einu er eins og þetta fólk komist í beina og óblandna snertingu við náttúruna - sem veldur því að það nálgast um leið einhvern kjarna, einhverja kviku sem býr innra með því sjálfu. Það er mjög sérstæð reynsla að verða vitni að slíkum „upplifunum“. Oftast eru þetta ekki nema einstök og um leið fágæt augnablik: maður stendur á vesturbarmi gljúfursins fyrir neðan Dettifoss og horfir á flekana þeytast niður í djúpið; allt í einu grípur hann eftir einhverju til að halda sér í. Það er eins og æðandi flaumurinn valdi því að hugsanirnar leysast upp, rammgerðar stíflur skynseminnar bresta og eitt andartak fá löngu heftar tilfinningar að flæða fram; eitthvað sem býr innst og dýpst í fylgsnum sálar leitar upp á yfirborðið. Á slíkum stundum er engu líkara en að klettarnir í Jökulsárgljúfrinu fái mál og tali til þess sem stendur á brúninni, bergnuminn af tilgangslausum tryllingi náttúrunnar; og „þar sem aldrei á grjóti gráu / gullin mót sólu hlæja blóm“ fyllist allt af ljósbleikum hulduverum sem lifna fyrir hugskotssjónum ferðalangsins. Þessi upplifun lýtur engri skynsemi, engum vitrænum reglum: hún er beinn og ómengaður samruni manns og náttúru, þar sem maðurinn hverfur aftur í það skaut sem hann var hrifinn úr endur fyrir löngu, þegar hann fór að einangra sig frá náttúrunni og smíða sér sinn eigin heim úr táknum, orðum, hugtökum og öðrum verkfærum vitsmuna og skynsemi. Og það er ekki aðeins á gljúfurbarminum fyrir neðan Dettifoss sem erlendir gestir verða fyrir hugljómun af þessu tagi. Múrar skynseminnar eiga það líka til að bresta, þegar hinir erlendu gestir standa andspænis náttúruundrum á borð við tignarlegt jökulhvel sem vokir yfir fáeinum tjöldum í grænni lautu til fjalla. Þá verða menn oft eins og furðu slegnir yfir því hvað ísinn og snjórinn taka á sig margar og síbreytilegar myndir. Þessum sérstæðu myndbreytingum jökulsins lýsir meistari Þórbergur af næmleika og kankvísi í bernskuminningum sínum úr Suðursveit, þar sem hann vex úr grasi við fótskör konungs jöklanna:

„Þó að Öræfajökull virtist eilífur og óumbreytanlegur að lögun, var hann svo tilbreytingaríkur að blæ og blæbrigðum, að hann varð aldrei þreytandi. Hann endurspeglaði með síungum næmleika hverja tilbreytingu í lofti og á láði. Hann skipti um blæ og tón með hverri árstíð, hverjum mánuði, hverri eykt, hverjum kvartélaskiptum, hverri tunglfyllingu. Hann var öðruvísi þegar maður fór inn að éta morgunmatinn, en þegar maður krossaði sig á móti Rustanöfinni á miðjum morgni, og svo var hann orðinn allt öðruvísi, þegar maður sagði við sjálfan sig á miðaftni: „Nú eru ekki nema fimm klukkutímar, þangað til hætt verður að slá. „Og þegar maður var að pissa upp við smiðjuvegginn á vökunni og horfði á Stjörnuna í miðmundastað, þá var hann orðinn mikið breyttur frá því hún var í dagmálastað. Og hin mikla stærð hans, skírleiki hans í litum og tilbreytingar í formi gerðu þessi hamskipti augsýnilegri, margvíslegri og meira tælandi en blæbrigði annarra fjalla. Öræfajökull var alltaf nýr.“

Á sama hátt og Andreas Heusler í textanum sem vitnað var til hér að framan verður Þórbergi tíðrætt um blæbrigði íslenskrar náttúru: síbreytileikann, tilbreytinguna. Þrátt fyrir að margur erlendur ferðamaður sem hingað kemur hafi gert víðreist, áður en hann lagði upp í Íslandsferðina, eru flestir á einu máli um þetta atriði. Blæbrigðaríkari náttúra en sú íslenska muni vandfundin. Þessa verða allir varir sem fylgja erlendum ferðamönnum um hálendi og víðerni landsins. Og það er ekki síst víðsýnið sem hrífur huga erlendra gesta á fjöllum uppi. Sem og hitt að sjaldnast er nokkurt mannvirki að sjá. Hægt er að fara um víðar lendur án þess að koma nokkurs staðar auga á neina „bletti á náttúrunnar stóru bók“. Og fyrir utan þann sálarþvott sem fyrr var nefndur og margur erlendur gestur hefur talið sig finna í návígi við ósnortna náttúru landsins, þá er eins og auðnin hafi stundum eins konar „trúarleg“ áhrif á þá sem um hana fara. Ekki bara að fjöllin breytist í„"dómkirkjur jarðarinnar“, eins og Ruskin komst að orði, heldur fara upplýstir Evrópubúar að finna fyrir einhvers konar dulmagni, sem þeir rekja að nokkru leyti til náttúrunnar. Þessi tilfinning getur jafnvel orðið svo sterk að hún beri erlenda gesti ofurliði. Sem dæmi um þetta er grein sem birtist í víðfrægu þýsku tímariti fyrir fáeinum árum. Greinina skrifaði blaðakona og rithöfundur á miðjum aldri. Í greininni lýsir konan því, þegar hún fer með Kristleifi, bónda á Húsafelli, í ökuferð á jeppa inn að stóru gljúfri, uppi í fjallinu fyrir ofan bæinn. Eftir að hafa haft á orði, hve örugglega bóndinn stýri jeppanum yfir ár og læki, um vegleysur upp á fjallið, segir greinarhöfundur:

„Á Íslandi eru margir staðir, sem geta gert mann orðlausan. Þetta er einn sá áhrifamesti, sem ég hef séð, með lítils háttar gróðri upp í miðjar hlíðar, vindi, vatni og fjólubláum og grænum steinum sem hrynja niður í dalinn fyrir neðan. Mér finnst ég ekki vera stærri eða merkilegri en mosinn sem hér grær. Eins og ég sé ekki annað en hóstakjöltur jarðsögunnar, örsmá og skipti engu máli. Og skyndilega verður mér ljóst, hvers vegna menn trúa hér á útburðarvæl í barni, sem fátæk vinnukona á að hafa borið út í þessu gljúfri endur fyrir löngu“.

Nú vill svo til að ég var sjálfur með í þessari ökuferð. Og ég þykist þess fullviss að hvorki ég né kunningi minn, Kristleifur bóndi á Húsafelli, eigum eftir að gleyma því sem gerðist, þegar við komum með konunni upp á barm hins mikla gljúfurs í fjallinu. Þessi annars hvatvísa og lífsreynda kona umbreyttist beinlínis í það hóstakjöltur jarðsögunnar sem hún talar um í greininni. Þegar hún steig út úr jeppanum þarna á fjallinu gagntók dulmagn staðarins hana svo gjörsamlega, að hún brast í grát. Hún stóð þarna á gljúfurbarminum, hátt uppi á fjallinu, og tárin streymdu niður kinnarnar. Hún sagði mér eftir á að þrátt fyrir að hún hefði farið víða og komið í allar heimsálfur, hefði hún aldrei orðið fyrir neinu þessu líku. Hún hefði aldrei kynnst því fyrr að landslag hefði snortið hana svo djúpt og komið jafn miklu róti á hugann. Þar sem hún stóð þarna uppi á fjallinu hafi hún orðið fyrir snert af dulrænni reynslu, sem hefði verið henni lokuð bók til þessa. Ástæðan fyrir því að ég var svo margorður í upphafi máls um það, hvernig íslenskir höfundar hafa lýst hughrifum sínum af náttúru landsins, var einfaldlega sú að þessum lýsingum svipar mjög til þess sem erlendir gestir hafa skrifað um sama efni. Það á ekki síst við um gesti af Þýskalandi, en eins og allir vita voru Þjóðverjar til skamms tíma einna duglegastir að sækja okkur heim.

Til marks um þann tón sem enn ríkir í skrifum þýskra ferðamanna um íslenska náttúru má nefna grein sem birtist í einu virtasta dagblaði Þýskalands, „Süddeutsche Zeitung“ fyrir skömmu. Í greininni segir m.a.:

„Hér hefur náttúran enn sál, og manninum finnst hann vera gestur. Hvert fjall, hver hóll, á sína sögu, og stundum stangast sögurnar á. Harka landslagsins er í algerri andstöðu við mýkt jarðarinnar. Það er eins og náttúran hafi verið svipt klæðum og standi nakin frammi fyrir ferðamanninum. Í stað þess að gefa gaum að gróðri, litum og blómum, beinast augun að jörðinni sjálfri. Þau fylgja mjúklega sveigðum línum, beinaberum hornum, skörpum útlínum, rifum, holum og hrukkum. Með einstæðum hætti minnir þetta landslag á lifandi hold: þegar sólin brýst í gegnum skýin og daggarperlur glitra á mjúkum mosabreiðum, þegar djúpar tjarnir ljóma eins og græn augu í svörtu hrauni eða heitir hverir glitra eins og grænir og bláir eðalsteinar…“

Enda þótt það sé ólíklegt að þessi þýski blaðamaður hafi kynnt sér skáldskap Stefáns Harðar Grímssonar, minnir lýsing hans á ósnortinni náttúru landsins á upphaf ljóðsins Vetrarmorgun eftir Stefán Hörð:

„Í grænan febrúarhimin / stara brostin augu vatnanna / frá kaldri ásjónu landsins“.

Það má segja að slíkar lýsingar beri allar að sama brunni: hvort sem það eru erlendir gestir eða íslenskir höfundar sem eiga í hlut, er ósnortinni náttúru Íslands lýst sem uppsprettu hugarróts sem oftar en ekki veldur þeim sem nýtur hennar sálrænum eða tilfinningalegum unaði. Það er sá unaður sem dr.Sigurður Þórarinsson átti við í grein sinni um fossana og ekki verður metinn til fjár eða mældur í kílóvattstundum. Í ljósi þess að flestir hugsuðir sögunnar hafa haldið því fram að andleg gæði séu manninum meira virði en veraldleg, virðist liggja beint við að varðveita og vernda það sem stuðlar að andlegri velsæld manna. Á því leikur enginn vafi að íslenskar óbyggðir flokkast undir gæði af þessu tagi. Öræfakyrrðin, dulmagn jöklanna, hrynjandi fossa og kliður lækja, dómkirkjur fjallanna, steinar sem tala og breytast í bleikar hulduverur, allt eru þetta mikilvæg gæði sem ekki verða metin til fjár. Og á okkar tímum, þegar oftrú á efnisleg gæði tröllríður hinum vestræna heimi, þurfum við Íslendingar að hafa sérstakan vara á, svo að við missum ekki sjónar á þeirri miklu auðlind sem ósnortin náttúra landsins er. Slíkt myndi nefnilega jafngilda því að við gengjum á hlut þess sem er best og dýrast í okkur sjálfum.

Ljósmynd: Dettifoss, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
30. apríl 2011
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Arthúr Björgvin Bollason „Óbyggðir og erlendir ferðamenn“, Náttúran.is: 30. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/30/obyggdir-og-erlendir-ferdamenn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. júní 2011

Skilaboð: