Nú á sér stað gífurleg vakning á meðal fólks um gönguferðir í náttúrunni og fjallgöngur. Enginn er maður með mönnum nema hann gangi á Hvannadalshnúk, þúsundir manna ganga Laugaveginn á ári hverju og á góðviðrisdögum er röðin af fólki upp á Kerhólakamb nánast samfelld frá bílastæðunum og upp á topp.

Þetta er auðvitað jákvæð þróun og stórkostlegt að fólk sé að vakna til vitundar um þá óendanlega möguleika í gönguferðum, gönguleiðum og stórkostlegu umhverfi sem hægt er njóta hér. Á Íslandi getum við jafnvel gengið dögum saman án þess að rekast á annað fólk, sem eru algjör forréttindi m.v. það sem göngu- og útivistarfólk í öðrum löndum upplifir víðast hvar á sínum ferðum.

En stöldrum nú aðeins við og skoðum hvar við erum að ganga?

Því miður virðist allt of margt göngufólk, ef ekki stór meirihluti, huga lítið að hvar gengið er. Vissulega er það að fara um landið fótgangandi einn umhverfisvænasti ferðamáti sem hægt er að hugsa sér, en engu að síður getur göngufólk valdið margvíslegum spjöllum á landinu. Vissulega viljum við ekki upplifa það að hér verði settar strangar hömlur á það hvar ganga má og ekki, eins og víða er í þjóðgörðum og útivistarsvæðum erlendis. Því þurfum við að vakna til vitundar um það hvar við erum að ganga. Allt of víða má sjá ljótar slóðir sem myndast eftir göngufólk á meðan hægt hefði verð að komast hjá þessari slóðamyndun með að fólk gerði sér grein fyrir því að sporin marka slóð.

Allt of margir æða hugsunarlaust áfram í beinni stefnu og gæta ekki að því að sneiða hjá viðkvæmum gróðri og jarðmyndunum. Sorglegt er að sjá fótspór í einmana mosaþembu sem ef til vill er eini gróni bletturinn á stóru svæði. Svona umgengni má því miður sjá allt of víða. Hvað þá sporin í fallegri sandhlíð, sem einhver þurfti að fara þvert yfir í stað þess að sneiðan hjá. Svona getum vil lengi talið upp dæmi, þar sem göngufólk getur spillt landi og spillt ásýnd þess með tíð og tíma.

Því er löngu kominn tími til að göngufólk vakni til vitundar um mikilvægi þess að við hugum betur að leiðavali, gróðurvernd og að ganga með aðgát um viðkvæmar jarðmyndanir.

Sumar fjölfarnar gönguleiðir eru orðnar stórskemmdar af þeim mikla fjölda göngufólks sem þar fer um og dettur mér þá fyrst í hug nokkur svæði á Laugaveginum, t.d. í Jökultungum og mikill skaði hefur orðið sunnan við Ljósá. Þar er löngu orðið tímabært að skylda ferðafélög sem byggt hafa upp aðstöðu á þeirri leið að fara að huga að því að bæta þann skaða sem orðið hefur og huga að aðgerðum til að fyrirbyggja frekari landskemmdir en orðnar eru nú þegar.

Allavega þarf hugarfarið varðandi gönguferðir og áhrif þeirra á landið að fara að breytast, áður en settar verða hömlur og takmarkanir á það dásamlega ferðafresli sem við göngufólk höfum mátt njóta hér hingað til .

Ljósmynd: Göngustígur í Landmannalaugum, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
23. maí 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Að „ganga vel“ á fjöllum“, Náttúran.is: 23. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2011/04/14/ad-ganga-vel-fjollum/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. apríl 2011
breytt: 5. mars 2013

Skilaboð: