Þriggja tunnu kerfi Íslenska gámafélagsins
Þriggja flokka sorpflokkunarkerfi Íslenska gámafélagsins er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu, þ.e.; Stykkishólmi, Nónhæð í Kópavogi, Hveragerði, Flóahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Skaftárhreppi, Fljótsdalshéraði (Egilsstöðum), Fljótsdalshreppi, Langanesbyggð, Fjallabyggð, Hvalfjarðarsveit og Fjarðabyggð.
Önnur fimm bæjarfélög nota tveggja tunnu kerfi Íslenska gámafélagsins þ.e. gráu tunnuna og grænu tunnuna þ.e.; Arnarneshreppur, Fjarðarbyggð, Akranes, Borgarbyggð og Skorradalshreppur.
Þriggja tunnu kerfið gengur í daglegu tali undir heitinu „Stykkishólmsleiðin" þar sem Stykkishólmur var fyrsta sveitarfélagið til að gera samning við Íslenska gámafélagið um þriggja flokka kerfi. Þriggja flokka kerfið felur í sér að íbúar sveitafélaga taka skrefið til fulls í flokkun sorps og söfnun og moltugerð lífræns úrgangs frá öllum heimilum.
Íslenska gámafélagið sér um söfnun og útflutning á því flokkaða efni sem þarf að vinna erlendis en kemur öðru í réttan farveg hér á landi. Þjónusta Íslenska Gámafélagsins við sveitarfélögin hafa mælst mjög vel fyrir og er orðin fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög í því hvernig flokkun og endurvinnsla getur sparað beinharða peninga en urðun er dýr og óumhverfsisvæn leið til að láta sorp hverfa sjónum fólks. Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar um 70-80%. Þannig sparar sveitarfélagið stórar fjárhæðir og flokkaða efnið fær endurnýjun lífdaga í nýjum framleiðsluvörum sem sparar auðlindir, eða umbreytist í orku t.d. við bruna eða við metanframleiðslu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þriggja tunnu kerfi Íslenska gámafélagsins“, Náttúran.is: 13. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/13/thriggja-tunnu-kerfi-islenska-gamafelagsins/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.