Gavia Travel var eitt þeirra fyrirtækja sem kynnti starfsemi sína á málþinginu Græn störf - vistvænar áherslur í atvinnuppbyggingu sem umhverfisráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Félag umhverfisfræðinga á Íslandi stóðu fyrir í Iðnó á Degi umhverfisins sl. laugardag.

Gavia Travel er ferðaþjónustufyrirtæki sem skipuleggur náttúru- og fuglaskoðunarferðir á Íslandi. Fyrirtækið er nýtt af nálinni en eins og frumkvöðullinn Hrafn Svavarsson sagði í kynningu sinni hefur verið skortur á ferðaþjónustutækifærum í kringum fugla á Íslandi. Þrátt fyrir að tugir milljóna manna fari í fuglaskoðunarferðir um allan heim á hverju ári hefur lítið sem ekkert verið gert til að laða þá hingað til lands. Hrafn sagði frá því að með því að fara með kynningar erlendis hafi honum lærst að það þyrfti að byggja upp samstarfsnet um fuglaskoðunarferðir á öllu landinu og hefur þegar verið hafist handa við að skipuleggja slíkt samstarfsnet um fuglaskoðunarferðir víðs vegar um landið. Sjá nánar á Birding Iceland.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þessu unga og spræka fyrirtæki tekst að koma sér og þar með Íslandi á kort áhugamanna um fuglaskoðun um allan heim.

Ljósmynd: Séð niður Látrabjarg. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
27. apríl 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gavia Travel - Fuglaskoðun á Íslandi“, Náttúran.is: 27. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/27/gavia-travel-fuglaskooun-islandi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. febrúar 2011

Skilaboð: