Fresta ber fjárveitingum til Álftanesvegar um Gálgahraun
Stjórn Landverndar tekur undir áskorun aðalfundar Hraunavina, félags áhugamanna um byggðaþróun og umhverfisvernd í Álftaneshreppi hinum forna, til Alþingis Íslendinga, um að fresta fjárveitingu til lagningar nýs Álftanesvegar eftir endilöngu Gálgahrauni.
Gálgahraun er á náttúruminjaskrá og er eina óraskaða apalhraunið sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu áratugum hafa rannsóknir á sviði umhverfissálfræði sýnt fram á mikilvægi óraskaðs og náttúrulegs umhverfis fyrir viðhald góðs sálarlífs. Verðmæti á borð við þau sem felast í óröskuðu Gálgahrauni eru því afar mikilvæg, ekki síst í ljósi staðsetningar svo nálægt þéttbýli, enda sækja margir þangað í hugarró frá amstri hverdagsins.
Í áskorun Hraunavina segir: „Hraunið geymir fyrirmyndir að miklum fjölda hraunmynda meistara Kjarvals, varðveitir fornar leiðir til Bessastaða og er einstök náttúru- og útilífsperla. Aðalfundur Hraunavina haldinn á Álftanesi 3. nóvember 2012 mótmælir því harðlega að skattfé borgaranna sé varið með þeim hætti að stórfelld og óafturkræf náttúruspjöll hljótist af og krefst þess að umræddri fjárveitingu verði frestað uns nýtt vegarstæði hefur verið valið sem samræmist nútíma sjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfsögðum rétti ófæddra Íslendinga."
Áskorun Hraunavina fer hér á eftir.
Áskorun
Til Alþingis Íslendinga
Frá Hraunavinum,félagi áhugamanna um byggðaþróun og umhverfisvernd í Álftaneshreppi hinum forna.
„Á fjárlögum þessa árs eru markaðar 550 m.kr í nýjan Álftanesveg. Væntanlega hefur háttvirtru Alþingi verið ókunnugt um að hinn nýji Álftanesvegur styðst við nær 20 ára gamalt aðalskipulag Garðabæjar og er áformaður eftir endilöngu Gálgahrauni. Gálgahraun er á náttúruminjaskrá og er eina óraskaða apalhraunið sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu. Hraunið geymir fyrirmyndir að miklum fjölda hraunmynda meistara Kjarvals, varðveitir fornar leiðir til Bessastaða og er einstök náttúru- og útilífsperla. Aðalfundur Hraunavina haldinn á Álftanesi 3. nóvember 2012 mótmælir því harðlega að skattfé borgaranna sé varið með þeim hætti að stórfelld og óafturkræf náttúruspjöll hljótist af og krefst þess að umræddri fjárveitingu verði frestað uns nýtt vegarstæði hefur verið valið sem samræmist nútíma sjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfsögðum rétti ófæddra Íslendinga."
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Fresta ber fjárveitingum til Álftanesvegar um Gálgahraun“, Náttúran.is: 27. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/27/fresta-ber-fjarveitingum-til-alftanesvegar-um-galg/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. nóvember 2014