Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf í dag stjórnvöldum í 13 ESB ríkjum lokafrest til að bæta lífsskilyrði varphæna. Ella yrði gripið til lögsóknar að tveimur mánuðum liðnum.

Könnun hefur leitt í ljós að sjöunda hver varphæna í Evrópu - 47 milljónir af 330 milljónum - er látin hýrast í búri, sem er ekki stærri en vélritunarblað. Samkvæmt lögum frá 1999, sem gengu í gildi um áramót, ber eigendum varphæna að sjá til þess að þær hafist við í nógu rúmgóðum búrum til að þær geti hreiðrað um sig, klórað sér og sofið á priki.

Löndin sem hafa fengið lokaviðvörun eru Belgía, Búlgaría, Grikkland, Spánn. Frakkland, Ítalía, Kýpur, Lettland, Ungverjaland, Holland, Pólland, Portúgal og Rúmenía. Samkvæmt lögunum sem gengu í gildi 1. janúar verður óheimilt að flytja út og selja í smásölu egg frá þeim sem ekki virða lögin um aðbúnað varphæna. Heimilt er að nota eggin í iðnaði. Til viðbótar við löndin sem hafa fengið lokaviðvörun eru Bretar til sérstakrar athugunar.

Ljósmynd: Gunna hæna, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Jan. 27, 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Ófullnægjandi aðbúnaður varphæna“, Náttúran.is: Jan. 27, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/27/ofullnaegjandi-adbunadur-varphaena/ [Skoðað:Dec. 6, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: