Iðnaðarráðherra segir að gagnaver í Keflavík muni ekki ráða úrslitum um hvort virkjað verði í Þjórsá eða ekki. Talsmaður Landsvirkjunar segir ekki af eða á hvort rafmagnið verði selt án virkjunar.
Orka Iðnaðarráðherra segir gagnaver Verne Holding í Keflavík ekki ráða úrslitum um hvort Þjórsá verði virkjuð eður ei og að engin rök séu til virkjunar út frá því einu saman.

Orka Iðnaðarráðherra segir gagnaver Verne Holding í Keflavík ekki ráða úrslitum um hvort Þjórsá verði virkjuð eður ei og að engin rök séu til virkjunar út frá því einu saman.

Fyrirvari Landsvirkjunar um þetta sé því "hreinn óþarfi" sem ráðherranum hafi ekki verið kunnugt um þegar hann fagnaði undirritun samningsins opinberlega.

Greint hefur verið frá því að í téðum samningi Landsvirkjunar við Verne Holding um raforkusölu til fyrirhugaðs gagnavers í Keflavík sé sá fyrirvari að Landsvirkjun fái virkjunarleyfi í neðri hluta Þjórsár.

"Landsvirkjun á ekki aðra virkjunarkosti en í Þjórsá fyrir hátæknina. Það er því eðlileg varfærni að setja í orkusölusamninga fyrirvara um að heimildir fáist fyrir virkjun," segir í tilkynningu fyrirtækisins frá 11. mars. Einnig segir að þetta feli "ekki í sér neinar kröfur eða skilyrði á hendur þriðja aðila".

Upplýsingarfulltrúi Landsvirkjunar, Þorsteinn Hilmarsson, hefur verið spurður um þennan fyrirvara og hvort Landsvirkjun myndi hugsanlega víkja frá honum, þannig að hún seldi raforkuna án virkjunarleyfis. Hann hefur ekki viljað svara þessu beint út, heldur ítrekað að þetta sé "klár fyrirvari". Á miðvikudag sagði hann þó að fyrirvarinn snerist um að fyrirtækið væri ekki skuldbundið til að útvega rafmagnið, fáist ekki leyfið. Hann væri "ekki stórpólitísk yfirlýsing".

Iðnaðarráðherra telur að umrædd orka sé nú þegar til í kerfinu og vísar til þess að á annað hundrað megavött hafi "legið úti" í Sultartangavirkjun til skamms tíma, án þess að aðgangur að raforku hafi rofnað mikið. Gagnaverið þarfnast 25 megavatta.

"Og stjórn Landsvirkjunar hefur sagt að hún muni ekki selja orku til nýrra álvera. Ef þeir ætla að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar þá leiðir af sjálfu sér að þeir þurfa að hafa markað fyrir þá orku. Komdu með tíu gagnaver og þá skulum við tala saman!" segir ráðherra.

Hann vill þó ekki tjá sig um afstöðu sína til hugsanlegrar virkjunar í ánni; það gerði hann vanhæfan til að taka um það ákvörðun seinna meir.

Mynd: Fyrirhuguð lón á korti af Þjórsá. Myndtexti: Iðnaðarráðherra fagnar hátækniverum en kveður gagnaver Verne Holding eitt og sér ekki ráða úrslitum um hvort ráðist verði í að virkja Þjórsá. 

Birt:
15. mars 2008
Höfundur:
Klemens
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Klemens „Ekki virkjað fyrir gagnaver“, Náttúran.is: 15. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/15/ekki-virkjao-fyrir-gagnaver/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: