Sveit köllum við oft landið fyrir utan þéttbýlið. Þar komumst við í tengsl við náttúruna og þann lífsstíl sem hefur tíðkast í landinu öldum saman. Sveitin er í raun hin stórkostlega náttúra í allri sinni dýrð. Jöklar, fjöll, hraun, sandar, vötn og lækjarsprænur mynda landslagið en lífríkið samanstendur af flóru (trjáplöntum og villtum jurtum) og fánu (spendýrum, skordýrum, fiskum og fuglum).

Í sveitinni lifir fólk nokkuð öðruvísi lífi en í bæjum og borgum þar sem það lifir í mörgum tilvikum beint af landinu sjálfu og því sem það gefur. Lífið í sveitinni er rólegra og hraðinn er ekki jafn mikill og í borginni. Ræktun matjurta, blóma og trjáa er iðkuð bæði til sveita og í görðum bæja og borga.

Garðurinn kemur fyrir borgarbúann að vissu leiti í staðinn fyrir sveitina dags daglega en þörf fyrir útiveru í hreinni íslenskri náttúru hrekur mölbúana út fyrir bæinn á sumrin sem vetrum. Aukning sumarhúsabyggða er lýsandi fyrir þá nauðsyn okkar að dvelja í faðmi náttúrunnar einhvern hluta ársins.

Birt:
29. júlí 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sveitin“, Náttúran.is: 29. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/sveitin/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 19. maí 2014

Skilaboð: