18. lofslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin í Doha
Sautján þúsund fulltrúar frá um hundrað og níutíu ríkjum eru samankomnir í Doha, höfuðborg Qatar, á átjándu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Ráðstefnustaðurinn vekur athygli. Mörg Arabaríki eru olíuríki og vinna leynt og ljóst gegn takmörkunum á bruna jarðeldsneytis. Qatar hefur hins vegar að undanförnu reynt að skapa sér stöðu og bæta ímynd sína á alþjóðavettvangi. Sem gestgjafaríki tekur Qatar mikla ábyrgð, gestgjafinn gegnir lykilhlutverki í þeim flóknu diplómatísku sem á sér stað á loftslagsráðstefnum sem þessum, ráðstefnum sem á undanförnum árum hafa farið meira og minna út um þúfur. Qatar telst raunar síst af öllu fyrirmyndarríki í loftslagsmálum, raunar fremur höfuðskúrkur því losun á íbúa er hvergi hærri í heiminum en þar.
Kýoto bókunin, sem kveður á um að iðnríki sem fullgiltu hana, að Íslandi undanskildu, drægju úr losun fjögurra tegunda gróðurhúsalofttegunda um tíu prósent á árunum tvö þúsund og átta til tvö þúsund og tólf. Reyndin er sú að ríkin sem um ræðir hafa dregið úr losun sem nemur að meðaltali um fimm komma tvö prósent. Gildistími bókunarinnar rennur út um áramót en í Durban í Suður Afríku í fyrra náðist samkomulag um að framlengja hana, en þar við sat. Það er ekki samkomulag um hvort eigi að framlengja hana um fimmn ár eða átta, og það er ekki samkom ulag um auknar skuldbindingar um aukinn samdrátt losunar. Í Koha verður þess freistað að ná samkomulagi sem gildi frá árinu tvö þúsund og fimmtán. Hvort það tekst er allt önnur saga. Lítum nánar á helstu persónur á leiksviðinu.
Kínverjar losa mest allra þjóða. Þeir eru aðilar að Kyoto bókuninni, skilgreindir sem þróunarríki, án skuldbindinga. Kína vill nýtt bindandi samkomulag en að iðnríki bera hitann og þungan af því fjárhagslega. Kínverjar hafa sagt að skilyrði fyrir því að þeir gangist undir skuldbingingar sé að Banda´rikin geri slíkt. Sama gildir um Indland og Kína.
Bandaríkin hafa ekki staðfest Kyotobókunina, og loftslagsmál bar ekki á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu þar vestra. Sterk öfl í bandarískum stjórnmálum afneita því að athafnir manna hafi áhrif á loftslag til hlýnunar. Opinberlega hafa bandaríkjamenn krafist þess að stór þróunarríki eins og Kína og indland leggi sitt af mörkum fjárhagslega sem og í takmörkun losunar. Heildarlosun banda´rikjanna hefur þó lækkað síðustu ár og má sennilega þakka það frumkvæði einstakra ríkja.
Japan hét því að sínum tíma að skera niður losun um sex prósent en Japanar hafa nú lýst yfir að þeir skuldbindi sig ekki frekar. Kanada hefur sömuleiðis dregið sig út úr samstarfinu og er á móti nýju tímabili skuldbindinga. Sama á við um Rússland. Afstaða Nýja Sjálands er óljós. Evrópusambandið er í farabroddi fyrir þeim ríkjum sem vilja nýjan bindandi samning og hefur hefur heitið áframhaldandi samdrætti í losun. Ísland hefur í raun lýst yfir að það fylgi stefnu sambandsins í loftslagsmálum.
Af þess má ljóst vera að mörgum hindrunum þarf að ryðja úr vegi áður en nýtt samkomulag tekst. Sem fyrr verður tekist hart á um skiptingu kostnaðar milli iðnríkja og þróunarríkja. Greint var frá því fréttum í dag að langt er frá því að fyrirheit iðnríkja, þar á meðal Íslands um aukin framlög til þróunarríkja í því skyni að hjálpa þeim að auka hagvöxt sinn án þess að feta í fótspor iðnríkja hvað varðar aukna losun gróðurhúsalofttegunda hafi gengið eftir. Það mun ekki varla greiða fyrir samkomulagi í Doha. Á hinn bóginn er ráðstefnan í Doha fram í skugga nýrra vísbendinga um að hlýnun á öldinni kunni að verða helmingi meiri en hingað til hefur verið skilgreint sem efstu þolmörk. Um það vitnar ný skýrsla sem unnin var fyrir alþjóðabankann og greint var frá í Speglinum nú fyrir skemmstu. Af þeirri skýrslu má ráða að þær ráðstafanir sem hingað til hefur verið reynt árangurslaust að ná samkomulagi um á fyrri loftslagsráðstefnum myndi reynast allsendis ófullnægjandi, jafn vel þótt þær kæmust í framkvæmd í framhaldi að ráðstefnunni í Doha.
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „18. lofslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin í Doha“, Náttúran.is: 27. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/27/18-lofslagsradstefna-sameinudu-thjodanna-hafin-i-d/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.