Hvítkálið og lækningamáttur jurta
Hver jurt er í rauninni listaverk náttúrunnar og býr yfir ákveðnum eiginleikum sem sumir hafa áberandi áhrif á okkur mannfólkið. Ein af þessum jurtum er hvítkál. Þó að oftast sé ekki hugsað um káljurtir í öðru samhengi en sem góðar jurtir til átu og daglegrar næringar skrifaði daninn Björge Wesereng doktorsritgerð sína um lækningamátt hvítkálsins. Í trefjum kálsins er pektín sem auk þess að vera sultuhleypir hefur græðandi eiginleika á sár. Það er því ekki ólíklegt að bráðlega rati á markaðinn hvítkálsgræðikrem með hvítum krossi á rauðum grunni, fyrir danska fánann.
Á Íslandi er verið að ryðja brautina með ýmissi framleiðslu úr jurtum*, einnig byggðri á vísindalegum rannsóknum og því einungis spurning um tíma hvenær þessar vörur slá virkilega í gegn á erlendri grundu. Sem dæmi má nefna Saga Medica, Tær Icelandic, Villimey, Urtasmiðjuna, Móðir jörð, Jurtaapótek og Purity Herbs. Öll þessi fyrirtæki eru að framleiða græðandi eða á annan hátt heilsusamleg krem og olíur úr íslenskum jurtum. Fyrir liggur fjöldi jákvæðra vísindalegra niðurstaðna um ágæti hinna villtu íslensku jurta t.a.m. rannsókna Dr. Sigmundar Guðbjarnarsonar prófessors við HÍ.
Með því að styðja duglega við bakið á þessum greinum værum við að marka brautina og opna fyrir ný tækifæri í nýsköpun. Tækifærum sem byggja á sérstöðu landsins sem hreinnar náttúruperlu. Ég leyfi mér að efast um að nokkrir frumkvöðlar á Norðurlöndum eigi jafn erfitt með að koma undir sig fótunum og íslenskir. Styrkjakerfið byggir mikið til á ölmusum sem ekki koma neinu af stað en gefa í mesta lagi stórhuga frumkvöðlum von um að einhvern tíma komi þeir til með að hafa laun af sinni vinnu. Á meðan er hægt að dæla óendanlega stórum fjárhæðum í vonlaus sýndarverkefni á vegum hins opinbera.
*þó að okkar Pektín-frumkvöðull vinni reyndar sitt pektín úr fiski.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvítkálið og lækningamáttur jurta“, Náttúran.is: 13. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/13/hvtkli-og-lkningamttur-jurta/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. febrúar 2008