Hreinlætisvörur
Vistvænar hreinlætisvörur eru til í miklu úrvali og margar þeirra umhverfisvottaðar. Oft er hægt að sleppa hreingerningarefnum við þrif ef notaðir eru örtrefjaklútar og náttúruleg efni eins og edik eða salt. Ofnotkun hreinsiefna er mikil og dýrkeypt fyrir umhverfið. Efnin hverfa ekki þegar þau eru komin í skolpleiðslurnar heldur enda þau í hafinu. Efnin eru áfram virk og geta skaðað lífríkið. Að efni brotni niður í umhverfinu segir ekki allt um hversu fljótt þau gera það og einnig geta niðurbrotsefnin verið skaðlegri en upprunalegu efnin. Öruggast er að forðast notkun óþarfa efna og skammta rétt þegar efna er þörf. Yfirleitt er hægt að helminga ráðlagða skammta hreinsiefna því vatn á íslandi er mun mýkra en t.d víða í Evrópu.

Sjampó og sápur
Sjampó og sápur geta innihaldið bæði tilbúin og náttúruleg efni. Stundum koma náttúrulegu efnin beint úr jurtum, en oft er búið að einangra þau til að fá nákvæmlega þá virkni sem óskað er eftir í vörunni. Skoðaðu vel innihaldsefnin sérstaklega ef þú ert með ofnæmi. Góð regla er að nota eins lítið af sápu og hægt er enda getur ofnotkun aðeins leitt til þess að húðin þornar um of. Sum sjampó innihalda efni eins og vax sem erfitt er að ná úr hársverðinum. Ódýr sjampó eru oft alls ekki góð vara auk þess sem þau eru ódrjúg. Sjampó í góðum gæðaflokki er mun virkara og verðið segir því ekki alla söguna. 

Dömubindi
Forðist að kaupa dömubindi þar sem hverju einstöku bindi er pakkað inn í plast. Hreinlætinu ætti að vera fullnægt með ytri umbúðum. Umhverfisvænna er að velja dömubindi og tíðartappa sem eru ekki með plasti og eru unnin úr lífrænni bómull, hafa ekki verið bleikt og/eða eru laus við ilmefni. Hægt er að komast alveg hjá því að nota bindi eða tappa með því að nota margnota gúmmíbikar (Álfabikarinn) úr 100% náttúrulegu gúmmíi. 

Barnableiur
Hvert barn notar að meðaltali um 5000 bleiur fyrstu æviárin. Einnota bleiur hafa mjög neikvæð umhverfisáhrif en létta að sjálfsögðu mikið á þvottum og vinnu umannenda barna. Barnsrassinn finnur að öllum líkindum heldur ekki eins mikið fyrir óþægindum og af taubleium. Það er því erfitt að fara fram á það við uppalendur barna að þeir leggi á sig ómælda aukavinnu til að vera umhverfisvænir. Hver og einn verður að ákveða hvort að það sé þess virði eða ekki.

Hægt er að kaupa taubleiur úr lífrænni bómull og góðar bleiubuxur úr lífrænni ull. Einnig eru til lífræn silkiinnlegg í bleiur. Þetta þarf að þvo og þurrka og það skapar mikla vinnu fyrir umönnunaraðila og eykur vatns- og þvottaefniseyðslu.

Ef einnota bleiur verða fyrir valinu er betra að þær séu vistvænar og helst að þær beri umhverfisvottun. Forðist bleiur sem innihalda PVC (vinyl). Gallinn við einnota bleiur er sá að gríðarlegt magn safnast upp og bleiur með kvoðum og geli sem tútna út eru fullar af efnum sem ekki brotna niður í náttúrunni. Til eru umhverfisvottaðar bleiur sem eru gerðar úr niðurbrjótanlegum efnum. Ef neytendur kaupa aðeins umhverfisvænar bleiur sendir það skilaboð til hinna framleiðandanna að bæta sína framleiðslu. Þannig getum við haft bein áhrif á framboðið með vali okkar á hvaða neysluvörum sem er.

Salernispappír
Jarðarbúar nota gríðarlegt magn af salernispappír sem þarf síðan að brotna niður í náttúrunni. Að velja umhverfisvottaðan salernispappír eru í öllum tilfellum betra fyrir lífríkið.

Birt:
30. október 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hreinlætisvörur“, Náttúran.is: 30. október 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/hreinltisvrur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: