Árni Finnsson skrifar um sendiherraskrif á Wikileaks
Sendiherraskrif á Wikileaks
Wikileaks hefur afhjúpað tvennt: Í fyrsta lagi senda amerískir diplómatar frá sér urmul af upplýsingum til Washington sem þeir sjálfsagt hefðu látið ógert hefði þá grunað að þessi skrif þeirra yrðu síðar gerð opinber. Í öðru lagi: skjölin afhjúpa stefnu stjórnvalda þess ríkis sem um er fjallað eða opinbera gagnrýni á orð þeirra og athafnir sem ella hefði verið komið á framfæri með – jú – diplómatískari hætti.
Skrif fyrrum f.v. sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, Carol van Voorst, falla í síðari flokkinn. Þar með talið ummæli hennar um ákafa og áhuga Björns Bjarnasonar á hernaðarlegri nærveru – orðum það pent - Bandaríkjanna hér á landi og greining hennar á hvað hafi legið að baki þeirri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar að hefja skyldi hvalveiðar hér við land í stórum stíl.
Í samantekt fréttastofu Ríkisútvarpsins þann 6. desember s.l. taldi sendiherrann að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar hafi helgast af þrennu:
Í fyrsta lagi sé hann einfaldlega á atkvæðaveiðum. Íbúar kjördæmisins muni eftir þessu í næstu kosningum. Í öðru lagi geti Einar mögulega viljað koma með þessu höggi á Alþjóða hvalveiðiráðið og í þriðja lagi geti þetta verið innlegg í orðræðuna um sjálfstæði Íslands og í baráttuna gegn aðild að ESB, þar sem hvalveiðar yrðu ekki liðnar.
Varðandi fyrsta atriðið kom á daginn að Einar K. Guðfinnsson naut ekki nægilegs stuðnings til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þrátt fyrir að hafa aukið þorskkvótann um 30 þúsund tonn og þrátt fyrir að hafa gefið út hvalveiðakvóta daginn eftir að ráðuneyti Geirs H. Haarde baðst lausnar, afþökkuðu kjósendur forustu hans í prófkjöri. Eftir á má álykta að staða Einars K. í Norðvesturkjördæmi hafi verið orðin veik og að hann hafi gripið til örþrifaráða til að sýna kjósendum að hann væri karl í krapinu.
Að koma höggi á Hvalveiðiráðið
Í janúar 2009 lá fyrir að Bandaríkjastjórn hyggðist beita sér fyrir sáttum innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og að ein helsta forsenda sáttaumleitana væri að hvalveiðar yrðu einungis leyfðar fyrir innanlandsmarkað. Þar af leiðandi yrði alþjóðleg verslun með hvalkjöt ekki leyfð. Talið var að Noregur og Japan gætu sætt sig við slíka lausn en íslenski sjávarútvegsráðherrann hafði útflutningshagsmuni Kristjáns Loftssonar í fyrirrúmi. Það gerði samningaumleitanir innan Hvalveiðiráðsins mun erfiðari en ella.
Það gefur líka auga leið að Einar K. Guðfinnsson vildi vera Þrándur í Götu fyrir hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann átti sæti í nefnd þeirri er skilaði Skýrslu um „samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.” Um hvalveiðar segir í skýrslunni:
Hvalveiðar og viðskipti með hvalaafurðir eru bannaðar af ESB, en hvalveiðar falla undir umhverfismálastefnu ESB. Á fundi með sjávarútvegssérfræðingum framkvæmdastjórnar ESB kom fram að það væri pólitískur vilji innan ESB að banna hvalveiðar og framkvæmdastjórnin og nær öll aðildarríkin væru hlynnt banninu. Það væri því ólíklegt að Ísland gæti fengið undaþágu frá því banni.
Að vísu réttlætti Einar K. Guðfinnsson ákvörðun sína með því að fullyrða að hvalveiðar myndu skapa miklar gjaldeyristekjur, rúmlega 40 milljónir dollara, en það hefur ekki gengið eftir. Einungis lítill hluti afurða Hvals hf. árin 2009 og 2010 hefur komist á markað í Japan. Birgðir hvalkjöts þar í landi hafa aldrei verið meiri en nú. Þessi þróun mála, þessi staða, lá fyrir þegar ákvörðunin var tekin í janúar 2009.
Uppljóstrun Wikileaks er vandræðaleg fyrir Einar K. Guðfinnsson. Að mati sendiherra Bandaríkjanna helgaðist hvalveiðistefna hans af kjördæmapoti, vilja til að spilla fyrir sáttaumleitunum innan Hvalveiðiráðsins og andstöðu ráðherrans við aðildarviðræður við Evrópusambandið.
En í fyrrgreindri frétt RÚV var bjarghringur sem Einar K. greip dauðahaldi:
Fram kemur [í skeyti sendiherrans] að starfsmaður sendiráðsins hafi rætt við Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, um ákvörðun Einars. Árni hafi lýst þeirri skoðun að alþjóðasamfélagið þyrfti að bregðast fljótt við.
Einar K. Guðfinnsson brást við af fullri hörku og lýsti því við fréttastofu RÚV þann 7. desember að samskipti formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands við bandaríska sendiráðið væru „… forkastanleg og í raun ótrúlegt að þau gangi svo langt sem raun ber vitni.”
Á bloggi sínu þann 8. desember herðir hann svo enn á með því að segja að Wikileaks hafi flett
ofan af makki Árna Finnssonar formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands með bandarískum stjórnvöldum í fyrra. Tilgangur leynibralls hans var að fá stjórnvöld hins öfluga ríkis til þess að brjóta á bak aftur löglegar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda í hvalamálinu. Þetta eru mikil tíðindi og ótrúlegt að vita að fulltrúi ríkisstyrktra almannasamtaka skuli vera eins og grár köttur í sendiráði Bandaríkjanna til þess að hvetja þau til að beita íslensk stjórnvöld ofríki.
Og EKG bætir við,
Trúverðugleiki Náttúruverndarsamtakanna er stórlega laskaður á meðan þessi einstaklingur er þar í forsvari.
Þessi ummæli þingmannsins breyta þó ekki því að æ fleiri átta sig á að alþjóðleg nálgun á lausn umhverfismála er sú nálgun sem náttúruverndarsamtök hafa og verða að hafa. Þá gildir einu hvort rætt er við starfsmenn bandaríska sendiráðsins, alþjóðleg umhverfisverndarsamtök eða umhverfisráðuneytið. Raunar felst trúverðugleiki samtaka eins og Náttúruverndarsamtaka Íslands í því að hafa slík tengsl óháð stjórnvöldum.
Ljósmynd: Hvalskurður í Hvalfirði.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Árni Finnsson skrifar um sendiherraskrif á Wikileaks“, Náttúran.is: 25. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/25/arni-finnsson-skrifar-um-sendiherraskrif-wikileaks/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.