Gamla íslenska tveggja missera almanakið
Niðurskipan daganna á árshringinn er mannanna verk. Nýtt ár þarf ekki að byrja tíu dögum eftir vetrarsólstöður enda líklegast leifar frá rómverskum skikk enda almanakið sem við brúkum frá þeim komið. Meðan við héldum okkur við gamla tveggja missera almanakið urðu árstíðaskipti sumardaginn fyrsta og svo aftur fyrsta vetrardag. Tímabil voru oft miðuð við stjórnartíð þjóðhöfðingja og samkvæmt þeirri hefð sögðu Íslendingar skilið við Kristján 10. og lýstu yfir lýðveldi á 32. ríkistjórnarári hans.
Gamla íslenska tveggja missera almanakið er bændaalmanak og almanök sem taka mið af búskap, veiðum og ræktun eru enn gefin út í mörgum löndum og oftast fylgja þá athugasemdir um áhrif tungls á gróður, hárvöxt, skepnuhirðingu, matargerð og jafnvel skaphöfn fólks. Þótt hér á landi hafi verið tekið mið af vaxandi og dvínandi tungli virðist sem heldur minni trú hafi fylgt áhrifamætti þess en í nágrannalöndum okkar hverju sem það sætir. Líklega er þar veðrinu um að kenna því afl þess er svo afdráttarlaust enda ristir mánatengdur átrúnaður okkar dýpst þegar kemur að áhrifum tunglsins á veðurfar.
Þó er að finna hagnýt dæmi um slíka trú og þessi finnast í Minningum Guðmundar á Stóra-Hofi: „Vandi var að byggja eldhús svo gott væri. Þau vildu verða full af svælu og röm kverkum og augum. En væru þau byggð á réttan hátt, var ekki hætt við þessu. Grundvöllinn eða undirstöðu átti að byggja með aðfalli en setja strompinn í með útfalli. Byggja átti hlóðir með vaxandi tungli.“
Grafík: Tungldagatal, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Gamla íslenska tveggja missera almanakið“, Náttúran.is: 18. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2010/01/01/i-aetigardinum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. janúar 2010
breytt: 14. febrúar 2015