Maraþon-karaókí heldur áfram! Íslandsmetið er nú þegar slegið og stefnir í heimsmet - Þriðja fjölmennasta undirskriftaáskorun Íslandssögunnar gæti orðið sú fjölmennasta

Fimmtudag, föstudag og á morgun laugardag verður orkuauðlindum áfram sunginn óður út um land: Í Reykjanesbæ, á Egilsstöðum, í Stykkishólmi, á Höfn í Hornafirði...

Söngurinn slitnaði aldrei í Karaókí maraþoninu í Norræna húsinu síðustu helgi. Biðröð var við hljóðnemann nema rétt fyrst, en til að kæmi aldrei þögn stökk Björk inn í og tók lag um ástina!

Samhliða var sungið á Akureyri, Selfossi, Bolungavík og í Staðarsveit. Ólafur Stefánsson og Páll Óskar sungu saman fyrsta lagið:„Allt fyrir orkuna“ og spennandi að vita hver syngur síðasta samsönginn í þessari röð tíu maraþon-söngmóta!

Maraþon-viðburðurinn „Rödd þjóðarinnar“ á níu stöðum á landinu –ellefu sinnum-markar tímamót: Almenningur lætur söngrödd sína heyrast í óði til orkunnar okkar:

Óskin er einföld: Orkuauðlindirnar og nýting þeirra í eigu og lögsögu almennings á Íslandi

Heyrst hefur að undirskriftirnar og aðgerðir til varnar orkunni og almenningi séu tímaskekkja því þetta sé orðið allt of seint og sé alltof dýrt. En svo er ekki. Eða eins og Ólafur Stefánsson handboltakappi sagði í þessu sambandi: Það er aldrei of seint að hlusta á sannfæringu sína og gera það sem er rétt fyrir land og þjóð! Allt fyrir orkuna!

Og vegna umræðu um eignarnám og hugsanlegan kostnað: Í fréttum Stöðvar 2 var sagt frá kostnaði upp á 33 milljarða en ekki getið um forsendur útreiknings og ekki nema örfáir þættir teknir inn í myndina. Allt bendir til þess að upphæðin sem um ræðir sé mun lægri og að ríkið geti eignast fyrirtækið með yfirtöku mjög hagstæðra lána sem Magma hefur fengið frá seljanda.  Frekari útreikningar óskast! Allar upplýsingar upp á borðið!

„Rödd þjóðarinnar“ er nafn á röð viðburða. Það er ekki nafn á neinum félagasamtökum eða flokki. Krafan um að stjórnvöld gæti hagsmuna almennings er ekki krafa sett fram í nafni neins flokks eða samtaka: það er grundvallarkrafa hvers og eins borgara þessa lands sem vill að orkuauðlindirnar verði í eigu og lögsögu almennings og sem vill að hagsmunum þröngra sérhagsmunahópa sé ekki gætt á kostnað almennings. Almenningur á rétt á upplýsingum um það hvert er stefnt í orkuiðnaði á Íslandi -en sá iðnaður er einna mikilvægastur til að byggja okkur upp -ef vel er haldið á spilunum!  Og almenningur ætti að fá að taka þátt í að móta orkustefnu framtíðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Magmamálið er prófmál: Ætlum við að stofna íslenskri náttúru, atvinnuuppbyggingu og efnahagslífi í hættu?

Dagskrá Karaókí - maraþonsins á morgun laugardaginn 15. janúar 2011

Höfn í Hornafirði:

Söngveisla í Sindrabæ kl. 17:00
Jóhann Morávek, Heiðar Sigurðsson og Elvar Bragi Kristjónsson, þeir mæta með lagamöppur tilbúnir til að spila undir hjá hverjum þeim sem eru tilbúnir til að syngja og bera hag landsins fyrir brjósti. Laglausir og lagvissir, karókísöngvarar, áhugafólk og stórsöngvarar um allt land ætla leggjast á eitt til að halda söngnum áfram frá því sem frá var horfið s.l. helgi.
Nánari upplýsingar veiir Kristín G. Gestsdóttir: kristinge@hornafjordur.is,

Egilsstaðir:

Karaókí  „maraþon“ í Sláturhúsinu. milli kl.: 13:00 - 16:00. Allir hvattir til að mæta og láta ljós sitt skína (börn og fullorðnir) við undirspil karókívéla, lifandi hljóðfæraleiks eða niðuhals af jútúb. Komdu með þinn eigin disk ... en eitthvað af lögum verður til.
Nokkrir stórsöngvarar búnir að tilkynna komu sína... hver veit nema Bjartmar Guðlaugsson ásamt Sumarliða kíki við.
Upplýsingar og skráningar slaturhusid@egilsstadir.is en best er bara að mæta. Heitt á könnunni.

www.slaturhusid.is
www.orkuaudlindir.is

Nánari upplýsingar um kontakta hjá skipuleggjendum veitir Oddný Eir, s. 8480767

Birt:
14. janúar 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Söng-maraþonið heldur áfram! “, Náttúran.is: 14. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/14// [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. janúar 2011

Skilaboð: