Umræðufundur sem Edda öndvegissetur og Framtíðarlandið boðuðu til í Háskóla Íslands kl 15:00 í dag, var tilkominn vegna greinar sem Andri Snær Magnason skrifaði og birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn var. Titill greinarinnar „Í landi hinna klikkuðu karlmanna“ lýsir innihaldinu ágætlega enda ásakar Andri Snær íslenska karlmenn í áhrifastöðum fyrir óábyrga ákvarðanatöku sem standist ekki neina skoðun.

Grein Andra Snæs varð Framtiðarlandinu tilefni til að kalla saman fund með fulltrúum þeirra afla sem enn þann dag i dag, tveim árum eftir hrun, standa fyrir því að ósjálfbær græðgisstefna undanfarinna ára verði fram haldið.

Þessir fulltrúar voru Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ásamt þeim Andra Snæ Magnasyni, Sigmundi Einarssyni jarðfræðingi og Guðmundi Hálfdánarsyni, sagnfræðingi.

Salur 105 í Háskóla Íslands, stærsti salur stofnunarinnar, var sneisafullur fram að púlti og fólk beið spennt eftir þessu fyrsta einvígi græðgis-stóriðjustefnumannanna Tryggva Þórs og Vilhjálms og skynsemishyggjumannanna Andra Snæs, Sigmundar og Guðmundar. Fundurinn náði þó aldrei að vera samræður milli mannanna í púltinu og fólksins í salnum eins og flestir höfðu vonast eftir, aðallega vegna þess hve fundarstjórn var ábótavant. Mikla reiði var að finna í salnum enda komust færri að með spurningar en vildu og málefnið lengið beðið opinnar umræðu.

Vilhjálmur flutti ræðu um duglega fólkið í þjóðfélaginu og hve mikils virði það væri að fólk fengi að vinna vinnuna sína, sama hve þeir færu oft á hausinn og sama hvað þeir tækju margar fjölskyldur niður með sér í fallinu. Vilhjálmur Egilsson, maðurinn sem gengur inn um dyr á útvarpshúsinu sem enginn annar hefur séð, hvað þá fengið aðgang að, málaði mynd af kjánanum Villa sem skýrði í raun af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru á Íslandi í dag. Aðspurður um hvers vegna enn sé verið að þrýsta á um að Helguvík sé svarið við blautum draumum ákveðinna manna svaraði hann því til að búið væri að koma upp grind að álverinu. Þetta væri allt komið af stað og í niðursveiflu verði að fjárfesta, sama í hverju.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og álversins hafi mætt á fund til SA og sannfært hann um að þetta væri hið besta mál. Hann hafi ekki vitað betur. Ekki vitað að ekkert væri tryggt í stöðunni. Hvorki orkan, orkuflutningarnir, né fjármagnið fyrir þessu öllu saman. Vilhjálmur Egilsson var að sjálfsögðu á Íslandi á síðustu árum og vissi vel af því að áhöld voru um alla þessa þætti. Samt vílar hann enn og dílar og heimtar á hverjum einasta degi að ekkert verði í vegi Helguvíkurálvers. Maðurinn í brúnni er ekki í samband við raunveruleikann. Það er það eina sem að kom út úr þessum fundi. Við höfum heyrt það beint frá honum sjálfum.

Framganga Tryggva Þórs var svo fátækleg og gamaldags að óþarfi er að eyða frekari orðum um hana. Hann hafði örugglega þá ranghugmynd að hann væri á kosningafundi fyrir sjálfan sig. Sorgleg framganga fallandi manns.

Andri Snær og Sigmundur stóðu sig vel, enda sjóaðir í baráttunni. Sem er orðin löng.

Það þarf að kalla til annan fund, framhaldsfund, með betri fundarstjórn, þar sem kortlagt verður hvað hver segir og hver ber ábyrgð á hvaða ákvörðunum til þessa. Það gengur ekki lengur að leyfa þessum uppvöðsluseggjum að haga sér eins og að auðævi jarðar væru óendanlegar og íslendingar tilbúnir að fórna öllu fyrir áhættusækna brjálæðinga. Nú er komið nóg!

Ljósmyndir: Frá fundinum í dag, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
17. september 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fundur hinna klikkuðu karlmanna“, Náttúran.is: 17. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/17/fundur-hinna-klikkudu-karlmanna/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. september 2010

Skilaboð: