Nú er lokið ráðstefnunni Driving Sustainability '08 sem haldin var dagana 18. og 19 september s.l. Fjölmargir fyrirlesarar úr ýmsum áttum kynntu markið fyrirtækja sinna eða tjáðu skoðanir sínar á þróun tækni til vistvænni aksturs. Margir vilja, með nokkrum sanni, meina að akstur verði aldrei vistvænn. En það er líka ljóst að ekki getur haldið fram sem horfir því einn góðan veðurdag verður enga meiri olíu að fá. Olían sem við erum að ganga á er lífmassi sem safnaðis upp á miljónum ára og má því segja að þar sé um samþjappaða sólarorku þessa tíma að ræða. Og okkur er að takast að brenna henni upp á 100 til 200 árum. Við það losnar líka kolvísýringur og önnur efni sem bundust í þennan massa á þeim miljónum ára sem tók þess lög að myndast. Í jarðfræðilegu samhengi má líklega líkja olíuvæðingunni við sprengingu eða stórkostlegar náttúruhamfarir. Þessi losun efna í andrúmsloftið veldur ójafnvægi sem erfitt er að stemma stigu við og nú óttast Sameinuðu þjóðirnar og vísindamenn loftlagsnefndarinnar (IPCC) að ef ekki veri eitthvað verulegt gert til að draga úr þessu ójafnvægi muni koma að vendipunkti hvaðan ekki verður aftur snúið. Þá muni náttúran sjálf bregðast við með veðurfarsbreytingum sem kollvarpi mannlegu samfélagi eins og við þekkjum það auk þess að kosta fjölmargar tegundir lífvera tilveru sína. Framleiðendur ökutækja hafa oft verið sakaðir um að hafa dregið lappirnar í breytingum á driforku bifreiða vegna hagsmunatengsla við olíuiðnaðinn. Kvikmyndin Who Killed the Electric Car? var gerð um rafbíl sem kom á markað í Kaliforníu fyrir nokkrum árum og var svo kallaður aftur til baka þrátt fyrir góðan reynslu. Höfundur myndarinn Cris Paine var einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar og verður myndin sýnd í Háskólabíó sunnudaginn 21. sept. kl. 15:00.

Nú keppast framleiðendur bifreiða við að koma með lausnir sem uppfylla skilyrði um útblásturslausan akstur. Hér verður stiklað á stóru í því sem fram kom á ráðstefnunni.

Forseti Íslands Herra Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði ráðstefnugesti við setningu hennar. Hann lagði áherslu á að framtíðin væri okkar allra og sameiginleg. Á þeim tíma sem hann hefði gengt embætti hefðu miklar breytingar átt sér stað og fyrirsjáanlegt væri að svo héldi áfram og við mættum búast við að innan 10 til 30 ára gætum við náð þeim stað hvaðan ekki yrði aftur snúið. Einnig benti hann á að Ísland gæti hentað sem svæði til að prófa hugmyndir og aðferðafræði á sviði nýrrar tækni til að stemma stigu við loftlagsbreytingum. Það kom líka á daginn að nú hefur verið undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Mitsubishi og íslenskra aðila um þróun hugmynda sem ganga út á að framleiða eldsneyti úr útblæstri stóriðju með rafmagni. Eins stendur til að prófa hérlendis rafbíla með skiptirafhlöðum sem fyirtækið er með í þróun og koma hingað 2010. Nánar er fjallað um þetta samstarf á öðrum stað hér á vefnum.

Vilji, áhugi og bein afskipti þjóðhöfðingja og ráðamanna af þessum málum kom mörgum gestum ánægjulega á óvart og sögðu sumir að það mætti vel eiga sér stað í þeirra heimalandi.

Bertand Piccard, ævintýramaður og brautryðjandi sonur þess manns sem kafað hefur dýpst í heimshöfin og sonarsonur þess sem hæst flaug í loftbelg var fullur áhuga, vilja og þrautseygju þegar hann lýsti ætlun sinn að ná manna lengst lárétt. Og það án annarar orku en sólarljóss. Hann og félagar hans í Solar Impulse eru að smíða flugvél sem fer af stað, kemst á flug og heldur sér á flugi án utanaðkomandi orku. Aðeins sólarsellur á 80m löngum vængjum vélarinnar safna orku knýja hreyfla og hlaða rafhlöður sem duga verða vélinni þegar hún flýgur án sólarljóss. Hann notaði líkingar úr ferðum sínum til að skýra afstöðu sína til þeirra verkefna sem orku og ökutækjaiðnaðurinn ásamt neytendum stendur frammi fyrir. Þannig talaði hann um að við mættum ekki fljóta um eins og stjórnlausum loftbelg heldur þyrftum við að taka stjórnina. Ná tökum á þeirri átt sem við stefndum í og vita hverju mætti fleygja fyrir borð svo við brotlendum ekki heldur náum þangað sem ferðinni er heitið. Við þyrftum að móta nýjar hugmyndir um orkunotkun og þægindi. Hugmyndir okkar í dag yrðu safngripir innan tíðar. Þannig hefðu neytendur í upphafi 20. aldar liklega beðið um hraðari hesta í stað þess að láta sér detta í hug bíla, hefðu þeir verið spurðir. Okkar markmið væri ekki eingöngu að finna nýtt afl til að knýja farartæki okkar í dag. Heldur einnig að ná tökum á orkunotkun og nota minna á skilvirkari hátt.

Piet Steel frá Toyota hélt gott erindi um stefnu og rannsóknir sinna manna á raunhæfum lausnum. Toyota hefur verið nokkuð framarlega í flokki með Tvinnbíla sína og leggja áherslu á þá tækni. Nota þeirn t.d. bensín eða  vetni sem eldsneyti á Prius hybrid bílana. Gaman væri að sjá möguleika á metani í þessu sambandi en það var ekki að sjá hjá Piet að það væri einn kosturinn. Ástæðan fyrir áherslu á hybrid tæknina er einkum verð á rafhlöðum, þyngd þeirra og ending sem veldur því að bílar sem eingöngu gengju fyrir rafmagni yrðu of dýrir ef þeir ættu að standast almennar kröfur um verð og drægni. En Toyota mun kynna til sögunnar nýja gerð hybrid bíla á næsta ári. Þeir eru tengjanlegir og má hlaða þá á nóttunni þegar álag á rafkerfi borga og bæja er í lágmarki. Með því má auka þátt rafmagns í notkun bílsins og draga þannig enn frekar úr notkun eldsneytis. Í þá kynslóð ökutækja verða notaðar NiCad rafhlöður en í næstu kynslóð koma loks Li-ion sem eru öflugri og ódýrari.
Piet sagði einnig frá því að Toyota ynni að gerð s.k. SolidMetal rafhlaða sem yrðu minni, sterkari og ódýrari.

Yet-Ming Chiang prófessor við MIT og einn stofnenda A123 fyrirtækisins fjallaði einmitt um rannsóknir á rafhlöðum. Hann fór nokkuð inn á svið efna og eðlisfræði en róaði fundargesti þegar hann lofaði að prófa þá ekki í lok erindis síns. Í umfjöllun sinni reyndi hanna að sýna hugarheim rafhlöðu-hönnuða og tókst nokkuð vel að sýna þann vanda sem glímt er við á því sviði. En sá vandi er einkum fólginn í sliti sem verður á efni rafhlaða við síendurtekna hleðslu og tæmingu. Þetta slit eða þreyta á sér stað vegna uppbyggingar mólikúla og sýndi hann hvernig unnið væri að tilraunum með að fá efnið til að raða sér með öðrum hætti svo þensla og hjöðnun hættu að hafa þessi slítandi áhrif á efnið. Ein leiðin sem unnið hefur verið með er að rækta rafhlöður með nokkurskonar lífrænum hætti líkt of vírusa. Hann sýndi einnig að rafhlöður úr LiCoPO2 væru mun stöðugri en úr hefðbundnu LiCoO2 og sýndi hvernig orkurýmd rafhlaða hefði aukist NiCd sem gáfu um 6-700W/1,1Kg í 3.000W/1,1Kg í NiCd rafhlöðum. Hópur hans við MIT hefur unnið að gerð stærstu rafhlöðu heims sem er 50 feta gámur og einnig að þeirri minnstu sem er um 5mm3.

Í erindi Knud Pedersen frá Dong Energy í Danmörku komu fram ný stárlegar hugmyndir um neikvætt verð á rafmagni til hleðslu bifreiða á litlum álagstímum. Þ.e. að greiða bíleigendum fyrir að hlaða bíla sína þegar mest er til af umframrafmangni. Sem gæti tengst hugmyndum Camco í Kaliforníu um að nota rafbílaflota sem jöfnunar-rafhlöðu fyrir landsnetið. Og ná þannig niður virkjunarþörf til að mæta álagsoppum. Joel Swisher frá Camco international sýndi fram á að rafbílar gætu verið tengdir netinu á mestu álagstímum s.s. við kvöldmatartímann og sjónvarpsgláp. Þannig gætu þeir safnað orku þegar notkun er minnst og miðlað henni þegar þörfin er mest.

Mótorhjól Bill Dubé vakti mikla athygli og stal senunni í yfirborðmiðlum en það er knúið 500 hestafla rafhlöðu og hefur sett einhver spyrnumet enda nær það 100 Km/klst hraða á innan við sekúndu. Hjólið ásamt bílum eins og Tesla sportbílnum afsanna kenningar manna um að rafknúin ökutæki þurfi að vera svifasein.

Svíarnir hjá Vattenfall hafa sett sín markmið á að ná 600.000 rafbílum eða tengitvinnbílum á markað í heimalandinu fyrir árið 2020 að því er fram kom í máli Johan Tollin en það nemur um 15% markaðshlutdeild.

Í upphafi síðari dags ávarpaði umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir þingið og lagði áherslu á að loftslagsbreytingarnar væru raunverulegar. Ökutæki og flutnigaiðnaðurinn  ættu um 28% af útblæstri. Þessu þyrfti að breyta en það tæki tíma og líklega væru tengi-tvinnbílar nærtækasta lausnin sem stendur.

Ted J. Miller frá Ford sagði að Ford hefði þegar selt um 70.000 tvinnbíla og væru að vinna að betri og hagkvæmari rafhlöðum.

Shi Yan Quin frá JiaYuan Vehicles sem er kínverskt fyrirtæki sem nú þegar er með rafbíla í framleiðslu þar á meðal Ze-O bílinn. Þeir er komnir á númer í nokkrum héruðum Kína og vöktu athygli á International Auto Fair í London i júlí s.l. Ze-O er fyrsti 5 dyra 5 manna rafbíllinn sem er fjöldaframleiddur en fyrirtækið framleiðir einnig 6 og 8 metra smárútur sem hafa þegar verið pantaðar til nokkura evrópskra borga.

Ichiro Fukue varaforstjóri þungaiðnaðarsviðs Mitsubishi kynnti hugmyndir um framleiðsu elsdneytis úr útblæstri stóriðju með raforku. Þetta er spennandi hugmynd og undirrituðu stjórnendur fyrirtækisins viljayfirlýsingu um samstarf við íslensk stjórnvöld á þessu sviði í lok ráðstefnunnar. Mitshubishi er einnig að vinna að stöðluðum rafhlöðupakka sem skipta má um á skömmum tíma á þar til gerðum skiptistöðvum. Það gerir kleyft að aka rafbílum lengri vegalendir og hlaða rafhlöðurnar undir eftirliti með góðum tækjabúnaði sem er of dýr til að hafa á heimilum.  Þessum búnaði verður komið upp hérlendis sem hluta af samstarfi Íslands og Mitshubishi.
[Sjá nánari í sérgrein.] Í máli Tesuro Aikawa, einnig frá Mitsubishi kom fram að rabíll þeirra með skiptirafhlöðum kæmi á markað í Japan 2009 og 2010 í Evrópu, þar á meðal á Íslandi.

Better Place tefldi fram hugsjónarmanninum Sven Thesen sem gerði olíu-fíkn samfélagsins að umræðuefni og vildi frekar nota tæming [extraction] en vinnsla [production] um olíuiðnaðinn. Hann sagði að ótti manna við hleðslu ökutækja væri ástæðulaus. Hefði hugmynd um hlaðanlegan, færanlegan síma verið kynnt fyrir 30 árum hefði mönnum ekki hugnast þetta með hleðsluna. Allt of mikið vesen. En allir hlaða símana sína án umhugsunar í dag. Better Place hefur þróað hugmyndir um staðlaðar skipti-rafhlöður, net stýrðra hleslutengla sem gera hleðslu einfala og tekur með af álagi á netið.
Samkvæmt útreikningu Better Placa gæti kostnaður neytenda af rekstri rafbíla lækkað umtalsvert frá kostnaði við rekstur eldsneytisknúinna bíla. Eða frá um $0,14 - 0,19/Km í $0,06/Km þ.e. tvöfalt til þrefalt eftir atvikum. Gert er ráð fyrir að ökutækin sjálf kosti svipað en rafhlöður séu í eigu Better Place.

Eina umræðan um vetni sérstaklega var erindi Steven Rouvroy frá Shell. En Shell eða Skeljungur hafa rekið vetnisátöppunarstðð að Grjóthálsi í Reykjavík. Sú stöð var reyst sem hluti af tilraunaverkefni sem nú er lokið en stöðin mun standa þar sem nokkur vetnisknúin ökutæki eru þegar á götum Reykjavíkur. Shell hyggst opna fleiri slikar stöðvar í Japan, Evrópu og Norður Ameríku.

Einn af tveimur fulltrúum almennings í ræðustóli var Eva Håkansson frá Grænum Ökumönnum í Svíþjóð [Gröna Bilister]. Hún tók fyrir þær mþtur sem oft skjóta upp kolinum í umræðu um rafbíla.

#1 Rafbílar eru hægfara. Fyrsti bíllinn var rafbíll smíðaður 1899 en í dag er Tesla einn öflugasti sportbíll heims ( 0 - 100Km/Klst á rumum 3sek.) og eins nefndi hún hjólið sem stóð á ganginum og er innan við sekúndu frá kyrrstöðu í 100Km/Klst.

#2 Litlir og ljótir. Tesla aftur, einn sá glæsilegasti á götunum. Eins nefndi hún bíl frá Smith Electric í Bretlandi sem fer 240 Km á hleðslunni.

#3 Rafbílar komast ekki langt. Með tengtvinnbíl eru engin takmörk frekar en á bensín eða dísilbíl. Flestir aka þó ekki nema innan við 40 - 60Km á dag. Og svo náttúrulega vísaði hún til skiptirafhlöðukerfanna sem fyrri fyrirlesarar höfðu kynnt.

#4 Rafhlöður endast ekki nema 2 - 3 ár. Nú eru til rafhlöður sem þola 3.000 hleðsluhringi eða um 10 ára notkun og innan fárra ára koma rafhlöður sen þola 10 - 15.000 hlesðsluhringi og endast því talsvert lengur en flestir bílar eða allt að 50 ár.

#5 of lengi að hlaðast. Bílar eru flestir kyrrstæðir meiar 20 klst á dag. Og nógur tími til að hlaða. Til eru hleðslutæki sem geta hlaðið bíl á 10 - 15 mínútum en þau eru mjög dýr. Tæki til að hlaða á 1 klst gæti kostað um 5.000€ en ef hleðslan má taka 8 klst kostar tæki aðeins um 1.000€.

Svo tók hún nokkur dæmi um staðreindir varðandi rafbíla.

#1 þeir eru ekki alltaf besta lausnin. En á tveggja bíla heimili ætti annar að vera rafbíll. Rafbílar í vöruflutningum væru ekki hentugir en það væru lestir hinsvegar og þær ganga margar fyrir rafmagni úr leiðslum.

#2 Lítið framboð. En það er að aukast.

#3 Dþrir. En á ráðstefnunnu komu fram ýmsar hugmyndir til lausnar á því. Eins og að rahlöður væru ekki í eigu eiganda ökutækis heldur orkufyrirtækjanna.

Að lokum tók Cris paine til máls og fjallaði um mynd sína Who Killed the Elcectric Car? en þar fjallar hann um tilraun sem var gerð í Kaliforníu með rafbíl á almennum markaði. En þrátt fyrir góðar viðtökur og góða reynslu af bílnum var honum kippt af markaði og nánast eytt.

Af þessu má sjá að margt er í gangi með hönnun, þróun og markaðssetningu rafbíla og tengi-tvinnbíla. Ástæða er til að ætla að þróunin eigi enn eftir að aukast og verði hraðari. Öll stærri framleiðslufyrirtækin eru að vinna að betri rafhlöðum sem verða öflugri, sneggri í hleðslu og með lengri líftíma. Mörgum af þessum markmiðum hefur þegar verið náð á tilraunastofum en eitthvað er í fjöldaframleiðslu. Við getum búist við að fá tengi-tvinnbíla á íslenskan markað strax á næsta ári og er það spennandi lausn fyrir okkur þar sem stór hluti orku okkar kemur frá lítt mengandi virkjunum. Enn hafa ekki verið teknar í notkun viðunandi aðferðir til að draga úr mengun frá jarðvarmavirkjunum en vonir standa til að það náist innan fárra ára.

Myndin sýnir forseta Íslands herra Ólaf Ragnar Grímsson setja ráðstefnuna. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
21. september 2008
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Driving Sustainability '08 “, Náttúran.is: 21. september 2008 URL: http://nature.is/d/2014/01/28/driving-sustainability-08/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. janúar 2014
breytt: 30. janúar 2014

Skilaboð: