Á undanförnum vikum hefur hópur SEEDS sjálfboðaliða frá ýmsum löndum unnið að því að gera Alviðru umhverfisfræðslusetur Landverndar við Sog í Ölfusi lifandi og spennandi fyrir gesti vetrarins auk þess sem hópurinn hefur unnið að viðhaldsverkefnum s.s. að mála hlöðu, útihús, palla, borð, brýr og skiltisstanda í hinu víðfeðma landi Alviðru. Verkefnin voru unnin undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur sem starfar nú sem staðarhaldari í Alviðru meðfram framkvæmdastjórn vefsins Náttúran.is.

Sjálfboðaliðarnir hafa m.a. undirbúið matjurtargarð sem hugmyndin er að félagar í Landvernd taki upp á sína arma með vorinu og geri þar bæði tilraunir með ræktun, uppfræði börn og fullorðna og rækti einnig grænmeti til eigin nota.

Landnámshænsnasetri hefur verið komið á fót í gamla mjólkurhúsinu í fjósinu en Landnámshænsnasetrið hefur verið skipulagt í samráði við Jóhönnu G. Harðardóttur formann Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna og Valgerði Auðunsdóttur að Húsatóftum. Fyrstu ungarnir flytja inn laugardaginn 11. september nk. og öllum áhugasömum er boðið að taka á móti ungunum á móttökuhátið sem hefst kl. 14:00 og fá sér síðan kakó og vöfflur til styrktar hinu nýja Landnámshænsnasetri Alviðru.

Skógarlundir austan og sunnan við Alviðrubæinn voru grisjaður í samráði við Skógræktarfélag Íslands og mikið timbur bíður nú úrvinnslu og frjós hugmyndaflugs gesta Alviðru á næstu misserum. Með grisjuninni hefur útsýni opnast frá suðri til norðurs sem bætir enn möguleika Alviðru til náttúrufræðslu og námskeiða af ýmsu tagi. Nýtt eldstæði er austan við bæinn og aðgangur auðveldaður með trjádrumbatröppum niður í lundinn.

Fugla- og náttúruskoðun verður efld enn frekar í landi Alviðru en Alviðra er þátttakandi í Fuglaskoðunarklasa sem nýlega var stofnað til á Suðurlandi. Í landi Alviðru er, næst á eftir Mývatni, besta aðstaða til fuglaskoðunar á öllu landinu, að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings.

Alviðra mun kynna vetrardagskrá sína í byrjun september en félögum, áhugamannasamtökum sem og einstaklingum með góðar hugmyndir er boðið að nýta sér hina fjölbreyttu aðstöðu að Alviðru til að halda fundi, vera með námskeið og fyrirlestra, gönguferðir, fuglaskoðun og hvað eina sem getur stuðlað að fræðslu um náttúru- og umhverfistengd málefni til barna jafnt sem fullorðinna.

Allar nánari upplýsingar veita Lárus Vilhjálmsson framkvæmdatjóri Landverndar larus@landvernd.is og Guðrún Tryggvadóttir staðarhaldara Alviðru gunna@nature.is.

Ljósmynd: Seinni SEEDS sjálfboðaliðahópur Alviðru; Paulo Bessa (Portugal), Esther Almena Álvarez (Spánn), Lucy Millet (UK), Alicia Toldi (US), Mael Cormier (Frakkland), Nicolas Calaber (Frakkland), Catrin Jones (UK) and Anastasiya Melentyeva (Rússland). Ljósmyndari: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
31. ágúst 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Alviðra nýtur góðs af sjálfboðaliðum SEEDS“, Náttúran.is: 31. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/31/alvidra-nytur-gods-af-sjalfbodalidum-seeds/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. desember 2010

Skilaboð: