Eftirfarandi texti birtist í áttblöðungi (kynningarblaði) eftir Ómar Ragnarsson með yfirskriftinni „Íslands þúsund ár“, sem dreift var með Morgunblaðinu þ. 24. 09. 2006. Athugið að hér birtist eingöngu ákallið sjálft á forsíðu kynningarblaðsins. Á hinum sjö blaðsíðum kynningarblaðsins eru færð rök fyrir einstaka liðum. Mælt er með því að allt blaði sé lesið stafkróka á milli:

Sigríður í Brattholti - Ákall um þjóðarsátt

Þessi orð eru ákall til þjóðarinnar um að stöðva eyðileggingu náttúru Ísland, mestu verðmæta, sem þjóðinni hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt. Þjóðin þekkir fordæmi Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti. Hún andæfði langstærsta framafaraskrefi í sögu þjóðar, sem skorti húsakost, vegi og rafmagn og var ein hin fátækasta í Evrópu. Sigríður gat ekki bent á neitt, sem gæti komið í staðinn, - vissi ekki að ósnortinn fossinn gæti síðar orðið tekjulind fyrir ferðaþjónustu.

 

Ef hún hefði verið uppi nú hefði hún vafalítið hótað að kasta sér í Hafrahvammagljúfur því Kárahnjúkavirkjun mun hafa mun meiri óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif en virkjun Gullfoss gæti haft, - raunar meiri en virkjun Gullfoss og Geysis samanlagt. 1)

Þjóðin þarf því að spyrja sjálfa sig hvernig hún geti staðið að framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun en jafnframt dáð Sigríði í Brattholti.

Í þjóðgörðum Ameríku og nágrenni þeirra er gríðarleg óbeisluð orka jarðhita og vatnsafls. Hún er þó ekki snert heldur eru álver þar lögð niður og í staðinn reist álver á Íslandi. 2)

Þjóðin þar að íhuga hvort Sigríður í Brattholti hefði talið rétt að fórna íslenskum náttúrugersemum til þess að útlendingar geti varðveitt samsvarandi gersemar í sínu landi.

Nú er stefnt að mestu mögulegu umhverfisspjöllum á Íslandi með því að láta Jöklu byrja að fylla Hjalladal með leðju svo að afl virkjunarinnar mun fara dvínandi innan tveggja alda og tortímt verður náttúrudjásnum Hjalladals sem ósnortin myndu stíga í verðmæti með hverju ári. Þau eru hluti af ómetanlegum sköpunarverkum dýrmætasta fyrirbæris Íslands. Vatnajökuls. Eðli Brúarjökuls og Jöklu og þeirra fyrirbæri, sem þau hafa skapað, eiga ekki hliðstæðu í veröldinni.3) Mestöll óafturkræf neikvæð áhrif virkjunarinnar felast í gerð Hálslóns og

með þessari gjörð skilum við um síðir komandi kynslóðum landinu verra en við tókum við því. Það er valdníðsla, - ekki lýðræði, - því yfirgnæfandi meirihluti þeirra, sem þetta mál varðar, er ófæddur.

Nú halda tvær fylkingar þjóðarinnar fast við sinn keip, - önnur vill álver í Reyðarfirði en hin vill varðveita Hjalladal.

Sú þjóðarsátt er möguleg að hin stórbrotnu mannvirki verði fullgerð án þess að dalnum verði sökkt en álver í Reyðarfirði fá orku frá Norðurausturlandi innan fárra ára.

Svæðið verði sett á heimsminjaskrá UNESCO með einu fullgerðu en þó ónotuðu risavirkjun heims og ómetanlegar náttúruperlur við hana sem yrðu ósnortnar í stað þess að verða eyðilagðar. Áhyggjur og deilur vegna stíflurofs, lekar úr göngum og hættu af leirfoki upp úr þurru lónstæðinu snemmsumars yrðu úr sögunni. Kostnaðurinn af nokkurra ára töf yrði ekki meiri en sem nemur tveimur prósentum af þjóðar framleiðslu Íslendinga þessi fáu ár. Hægt væri að viðhalda atvinnu á Austurlandi með því að ráða 450 manns sem mættu á vinnustað á Reyðarfirði án vinnuskyldu næstu ár...4)
Til lengri tíma litið myndu ferðamannatekjur af einstæðum mannvirkjum og náttúrundrum norðan Vatnajökuls meira en vinna þetta upp og verða auðlind á meðan land byggist.

Dauðadómnum yfir Hjalladal hefur ekki verið fullnægt , raunar hægt að snúa við allt til næsta sumars5) og þjóðin á því enn tveggja kosta völ sem færa þarf til bókar nú:

Annars vegar að gangsetja virkjun með stíflum og göngum á jarðhita- og sprungusvæði, - sem síðar mun koma í ljós að verður ekki arðbær vegna hækkaðs kostnaðar.6)
Orðspor okkar kynslóðar mun bíða óbætanlegan skaða.

Hins vegar að fresta fyllingu Hálslóns, geyma Kárahnjúkavirkjun ógangsetta og fá í fyllingu tímans meiri tekjur af þessu svæði en ef dalnum verður sökkt því hverki í heiminum yrði hægt að skoða eins magnað minnismerki um hugrekki þjóðar sem leitaði sátt við kynslóðir framtíðarinnar og eigin samvisku - og þetta einstæða minnismerki yrði þar að auki í næsta nágrenni við frægasta þjóðgarð Evrópu.

Með því að sökkva ekki dalnum myndi suðurveggur Kárahnjúkastíflu, sem ber af norðurhliðinni að glæsileik, blasa við ferðafólki í stað þess að verða hulinn vatni. Hægt yrði að fara um undirgöng og rangala stíflunnar og í járnbraut inn í opin aðrennslisgöngin og njót hugmyndar sem Andri Snær Magnason hefur sett fram um stórbrotin listaverk sem mannvirkin bjóða upp á. Fleiri heillandi möguleikar myndu opnast.7)

Hafin er ásókn í boranir og virkjanir á svæði milli Vatnajökuls og Suðurjökla sem er ígildi Yellowstone í Bandaríkjunum, Ólíkt hafast þjóðirnar að, - allar boranir eru bannaðar á svæði við Yellowstone sem er á stærð við Ísland. Nú um stundir þegar flest virðist snúast um fljóttekna peninga er þjóðinni hollt að spyrja sjálfa sig: Eru æra, heiður og ímynd hennar ekki verðmæti sem meta má til mikils fjár, - það að hún sýni fordæmi sem varpi ljóma á hana í framtíðinni?

Lokaorð þess ákalls eru:

Ísland er dýrgripur alls mannkynsins
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði og smáni.

Myndin er af Ómari Ragnarssyni. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir 

Birt:
24. september 2006
Höfundur:
Ómar Ragnarsson
Tilvitnun:
Ómar Ragnarsson „Sigríður í Brattholti - Ákall um þjóðarsátt“, Náttúran.is: 24. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/sigga_brattholt/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: