Laufás - Lifandi sögustaður
Laufás í Eyjafirði kemur við sögu skömmu eftir að Ísland byggðist og þar hefur staðið kirkja frá fyrstu kristni. Í katólskum sið var hún helguð Pétri postula. Prestssetur hefur verið í Laufási frá fyrstu kristni og er enn. Síðasti presturinn sem bjó í gamla bænum, séra Þorvaður Þormar, flutti árið 1936 í nýtt prestssetur og þar bjuggu Laufássprestar fram til ársins 2000.
Hið íslenska bókmenntafélag gaf út rit Harðar Ágústssonar „Laufás við Eyjafjörð - Staðurinn“ árið 2004 en Hörður hafði þá staðið fyrir áratugalöngum rannsóknum á byggingar- og menningarsögu staðarins.
Laufásbærinn er nú búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900. Opið er daglega frá 13. maí til 15. september frá 9:00-18:00. Á veturna opið eftir samkomulagi.
Hér á Grænu Íslandskorti má nálgast upplýsingar og nákvæma staðsetningu á öllum menningarsetrum landsins þ.á.m. Laufási. Sjá Laufás undir flokkunum: Menning/Söfn, Menningarsetur, Íslenskir þjóðhættir, Sagnfræðileg sérkenni.
Laufáshópurinn er hópur fólks sem vinnur að því að viðhalda þekkingu á þjóðháttum landsins hvort sem er í handverki, tónlist, sagnahefð eða náttúru. Þessi hópur kemur m.a. saman í Punktinum og vinnur að því að kenna hvort öðru handverk fyrri tíma. Stofnfundur Laufáshópsins var í Laufásbænum fimmtudaginn 22 nóv 2001 en síðan þá hefur hópurinn tekið þátt í fjölmörgum sýningum og uppákomum um landið og kynnt þjóðlegar hefðir í matargerð og handverki af miklum eldmóði og fagmennsku.
Myndin er tekin út um glugga skólans í Laufási þ. 1. ágúst 2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Laufás - Lifandi sögustaður“, Náttúran.is: 9. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2008/08/04/laufas-lifandi-sogustaour/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. ágúst 2008
breytt: 9. júlí 2010