Búsáhöld eru til margvíslegra nota í eldhúsinu og það er betra að eiga minna af góðum gæðum en mikið úrval af lélegum gæðum.

Góð glerglös eða kristalsglös geta enst ágætlega sé vel með þau farið en plastglös eru aftur á móti mjög þægileg, sérstaklega þar sem börn eru í heimili. Varast skal þó að velja glös úr PVC því þau eitra frá sér.

Stell voru til langs tíma talin „fjárfesting fyrir lífið“ enda gott keramik eða postulín níðsterkt og oft listafalleg framleiðsla. Í dag eru bollastell og diskar frekar álitið tískuvara og oft skipt út á flestum heimilum. Með þetta eins og annað er gott að hafa í huga að fjárfesta strax í gæðum frekar en að þurfa að fullnægja sömu þörfinni með fjárútlátum aftur og aftur.

Markaðurinn er hreinlega hannaður til að plata okkur til að kaupa drasl sem á ekki að endast nema í stuttan tíma. Þannig er hægt að selja okkur hlutina oftar og græða meira. Verðið segir oft til um gæðin en þó ekki alltaf. Verum því á varðbergi gagnvart rusli sem haldið er að okkur og kaupum ekki köttinn í sekknum. Það er ekki aðeins dýrt fyrir budduna okkar heldur einnig fyrir umhverfið sem taka þarf við draslinu að lokum. Auk þess kemur hráefnið í pottana, stellið og hnífapörin okkar úr náttúruauðlindum sem ekki eru óþrjótanlegar.

Ekki er æskilegt að kaupa samsett hnífapör. Þau eru viðkvæm og þola t.a.m. ekki uppþvottavélina og brotna í sundur með tímanum. Umhverfisvænna er að kaupa hnífapör úr stáli sem endast í tugi ára. Silfurborðbúnaður endist ævina út en hann þarf að pússa reglulega.

Birt:
17. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Búsáhöld“, Náttúran.is: 17. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/bshld/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 17. maí 2014

Skilaboð: