Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi sitt Surtsey: Smádýr á landi og fuglalíf, á Hrafnaþingi miðvikudaginn 13. nóvember 2013 kl. 15:15.

Í erindinu verður fjallað um dýralíf á Surtsey, - smádýr á landi og fugla. Sagt verður frá því hvernig dýrin bárust að yfir hafið til að nema nýjar lendur sem voru einkar óvistlegar lengi vel og hentuðu ekki nema þeim sem minnstu kröfurnar gerðu til lífsgæða. Fyrstu landnemarnir verða kynntir til sögu, hvernig skilyrðin breyttust og þróuðust hægt og bítandi og samfélög lífvera tóku að myndast, einföld í fyrstu sem síðar tóku stakkaskiptum allt til dagsins í dag er Surtsey fagnar fimmtugsafmælinu í þessum mánuði.
Maríuerla ber æti í unga sína í Surtsey

Útskýrt verður hvernig hinar ólíku gerðir lífvera byggja afkomu sína á hver annarri, plöntur, smádýr og fuglar, hvernig afkoma einnar byggist á hinum. Það eru í sjálfu sér engin ný vísindi, en á Surtsey gafst einstakt tækifæri til að fylgja því eftir hvernig lífríki festir rætur á ördauðu landi og nær að þróast og þroskast á eigin forsendum. Að þetta skuli hafa orðið kleift er að þakka framsýni sem var sýnd með því að friða eldstöðina strax og ljóst varð að eyja væri að myndast sem ætti fyrir sér langa lífdaga og banna aðgang að henni nema til rannsókna. Einnig ber að þakka því að lokuninni hefur verið við haldið allar götur síðan, þrátt fyrir að af og til hafi komið upp þrýstingur í aðra stefnu. Friðunin er forsenda þess að lífríkið á Surtsey hefur alfarið þróast á eigin forsendum. Fylgst hefur verið með gangi mála samfellt þau fimmtíu ár sem liðin eru frá upphafinu og sagan skráð. Þessi staðreynd var grunnur þess að eldstöðin Surtsey var samþykkt á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2008 og þar með staðfest að verðmæti hennar og rannsóknasögunnar væri á heimsmælikvarða.

Margra spurninga var spurt í upphafi, sem vörðuðu jafnt jarðfræðina og líffræðina, og komu mörg svörin sem litu dagsljósið hvert af öðru verulega á óvart. Að fimmtíu árunum liðnum hefur Surtsey minnkað um helming vegna ágangs og ógnarkrafta náttúruaflanna, sjávar, vatns og vinda, en á sama tíma hefur lífríki þróast og þroskast svo að þarna suður í hafi lúrir eyja, glæsileg fimmtug mær sem hefur lagt af verulega og blómstrar í dag sem aldrei fyrr. Þar vaxa þessi árin að jafnaði um 60 tegundir háplantna, sem veita skjól og skilyrði fjölda tegunda smádýra. Alls hafa 11 tegundir fugla sest að á eynni til að verpa þar á ári hverju og er þar nú væntanlega mesta máfavarp á Suðurlandi. Svartbakur, sílamáfur og silfurmáfur deila með sér hraunbreiðunni í sátt og samlyndi.

Og enn má spyrja Hvað svo? Ferlið er enn í fullum og hröðum gangi, meira að segja svo hröðum að á ári hverju má merkja verulegar breytingar á þroska lífríkisins að jarðfræðiferlunum ógleymdum. Því fer víðs fjarri að lokastigið sé innan seilingar. Það sést berlega þegar horft er til annarra smáeyja Vestmannaeyjaklasans. Þær voru allar Surtseyjar á sínum tíma í fyrndinni. Það er því afar mikilvægt að samfellan í rannsóknum haldist svo lengi sem færi gefst.

Birt:
13. nóvember 2013
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Surtsey: Smádýr á landi og fuglalíf“, Náttúran.is: 13. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/13/surtsey-smadyr-landi-og-fuglalif/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: