Öll börn geta teiknað og málað. Jafnvel þótt sumum kunni að finnast myndir þeirra ófullkomnar, þá hafa ölll börn tilfinningu fyrir litum og fegurðarskyn sem hægt er að rækta og þroska með barninu. Það er einnig mjög gaman og ekki síður mikilvægt að tjá sig með því að leika sér að litum.

Á markaðnum eru margar tegundir af vaxlitum, pastellitum og öðrum litum sem börn geta notað. Fjölbreytnin á markaðnum er nánast óendanleg. Það er mikilvægt að velja liti og vaxliti fyrir yngstu börnin sem má setja í munninn vegna þess að smábarnið skoðar næstum því allt með munninum. Hins vegar eftir því sem börnin stækka er hægt að setja í hendurnar á þeim dýrari liti, og kenna þeim flóknari tækni. Gætið þess vandlega samt sem áður að kaupa einungis liti sem innihalda engin eiturefni.

Krakkarnir geta notað vatnsliti og akrýlliti sem hægt er að blanda með vatni en ekki er ráðlegt að setja olíuliti í hendurnar á börnum vegna þess að þá þarf að þynna með leysiefnum sem geta verið stórhættuleg heilsunni. Einnig ef barnið þitt er að teikna flottar teikningar með blýanti eða með kolum (charcoal), og ef þú þarft að nota fixer til að festa myndina á blaðinu, þá skaltu gæta þess að þú sem hinn fullorðni sért sá sem úðar fixernum. Einungis skal nota olíuliti og fixera í vel loftræstum rýmum, eða utandyra. Aldrei skal setja sterk lím eða fixera eða úðabrúsa með sterkum litum í hendurnar á börnum/unglingum.

Ef barnið þitt hefur gaman af því að teikna og mála, þá eru í boði mörg skemmtileg námskeið fyrir krakka, sem geta verið afar ánægjuleg fyrir bæði börn og foreldra. Skissublokk er einnig góð hugmynd, þannig að barnið geti teiknað og skissað hvar sem er og hvenær sem er.

Birt:
25. júní 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ritföng og litir“, Náttúran.is: 25. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/ritfng/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. maí 2014

Skilaboð: