1. Ræktaðu hinar jákvæðu hliðar fyrirtækisins
    Áhugi stórfyrritækja á peningum og engu öðru, ásamt valdi og því frelsi sem fylgir heimsviðskiptum, gerir hönnuðinum erfitt fyrir að höndla hin margvíslegu félagslegu og vistfræðilegu gildi sem snerta sjálfbærni í hönnun í einkageiranum — en það er samt að gerast, þannig að þegar þú sérð slíkt skaltu hlúa að því.
  2. Kynntu þér lífið utan einkageirans
    Hönnuðir sem vinna að sjálfbærum verkefnum eru oft beðnir um að leysa verkefni ókeypis eða fyrir litla borgun vegna þess að það er , “fyrir góðan málstað.” Og það er mikið til í þessu; kerfi sem miðar ekki að hagnaði leyfir þér að sýna fram á að það að gera hluti fyrir góðan málsstað sé þitt grundvallarlífsviðhorf/mottó.
  3. Vertu virkur borgari í lýðræðisþjóðfélagi
    Okkur hættir til að gera ráð fyrir markaðnum (og hinu stóra hagkerfi) sem sjálfsögðum hlut eða þá að við sjáum hann alls ekki. En við getum bæði sem borgarar og sem hagfræðilegar stærðir tekið þátt í því að endurhanna hagkerfi heimsins þannig að betra jafnvægi náist á milli gilda vistkerfisins og mannlegra gilda andspænis fjárhagslegum gildum.
  4. Reyndu að skilja visthvolf jarðarinnar
    Fjögur hvel jarðarinnar eru lofthjúpurinn, lífhvolfið, vatnshvolfið og steinhvolfið. Þessi hvolf eru uppspretta og endastöð allra efna á jörðinni. Því miður er það oft hlutverk hönnunarinnar að endurúthluta og flytja efni á milli þessara hvolfa án þess að byggja upp eitthvað jákvætt (t.d. er kolefni flutt úr steinhvolfinu út í andrúmsloftið = hnattræn hlýnun). Þú skalt læra að þekkja jörðina.
  5. Hafðu auga fyrir efnum
    Við þurfum að sjá það sem venjulega sést ekki: innihald og uppruna efna, hina miklu úrgangsmyndun í framleiðslunni, hina stóru hauga af efnum sem eru nú þegar allt í kringum okkur (þ.e. þungmálma, PVC), og hinar ósýnilegu leiðir sem gera það að verkum að efnin berast aftur út í umhverfið.
  6. Notið bók náttúrunnar
    Náttúran varðveitir (skapar alltaf réttu lífsskilyrðin) og skapar nýjungar (aðstæður geta breyst). Hröðu ferlin í náttúrunni skapa á meðan hægu ferlin viðhalda stöðugleika. Þetta eru einungis tveir mikilvægir þættir sem við getum lært af hönnun náttúrunnar sjálfrar.
  7. Virkjaðu skilningarvitin
    Hin sjónræna áhersla sem er fólgin í hönnuninni dregur úr upplifun annarra skynfæra og minnkar þannig reynsluheim mannsins; mundu eftir hljóði, lykt, snertingu og bragði.
  8. Taktu þér tíma
    Hraðinn aftengir okkur—frá innri upplifun okkar, frá rannsóknum, frá samfélaginu, jafnvel frá því hver við erum (til dæmis, um leið og hraði hnattvæðingarinnar þurrkar út fjölbreytni tungumála). Hönnuðir þurfa bæði á þekkingu að halda sem er hröð og hægfara.
  9. Veltu breytingunum fyrir þér
    Þríhyrningur breytinga hefur þrjú horn. Hvar er jafnvægið á milli tæknibreytinga, breytinga á hegðun og stefnubreytinga/verðbreytinga. Hönnuðir þurfa að velta öllum þessum þremur þáttum fyrir sér.
  10. Fleygðu öllum hugmyndum um sekt eða sakleysi. Ekki gefast upp við að ástunda sjálfbæra hönnun jafnvel þótt að þú lifir ekki gallalausum sjálfbærum lífsstíl. Þú ert ekki ein/n, þar sem kerfið kemur í raun í veg fyrir að hægt sé að lifa algjörlega á sjálfbæran hátt. En viðleitni til að lifa sjálfbært mun hjálpa þér til að nálgast sjálfbærni á skapandi hátt.
Þessar 10 ábendingar Ann Thorpe þþddi Ingibjörg Elsa Björnsdóttir fyrir Náttúruna en þær koma úr bókinni, „The Designer’s Atlas of Sustainability: Charting the Conceptual Landscape through Economy, Ecology and Culture“ eftir Ann Thorpe. Útgefandi Island Press 2007 designers-atlas.net.
Höfundur bókarinnar, Ann Thorpe, mun halda fyrirlestur í Norræna húsinu þ. 24. mars nk. Sjá frétt. Mynd: Opnudæmi úr bókinni The Designer´s Atlas of Sustainability. Af designers-atlas.net
Birt:
14. mars 2009
Höfundur:
Ann Thorpe
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ann Thorpe „Tíu leiðir til að vinna að sjálfbærri hönnun“, Náttúran.is: 14. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/14/tiu-leioir-til-ao-vinna-ao-sjalfbaerri-honnun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: