Þann 19. mars 2008 var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002-2014, sem náði m.a. til virkjanasvæða við Hverahlíð og Bitru. Fjöldi athugasemda barst við auglýsta tillögu og nær allar vegna fyrirhugaðs virkjanasvæðis við Bitru. Vegna aðstæðna sem þá voru, ákvað Sveitarfélagið Ölfus að fresta aðalskipulagi á því landsvæði sem tekur til Bitruvirkjunar og var svæðið auðkennt sérstaklega á skipulagsuppdrætti.

Sveitarfélagið Ölfuss telur að vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu sé þörfin fyrir nýja atvinnusköpun brýnni en nokkru sinni fyrr. Með sjálfbærri orkunýtingu í sveitarfélaginu skapast forsendur til fjölbreyttrar uppbyggingar á atvinnustarfsemi fyrir allt Suðurland. Með skýrri marksmiðssetningu, þar sem tekið er tillit til umhverfisins og ströngum kröfum um umhverfisfrágang, telur sveitarfélagið að uppbygging á orkuvinnslu við Bitru og Gráuhnúka vinni saman með þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu, þ.e. útivist og ferðaþjónustu sem og einnig að afla betri upplýsinga um þá auðlind sem jarðhitinn er, til að auka vitneskju um sjálfbærra nýtingu hennar. Við endurskoðun á aðalskipulagi Ölfuss hafa markmiðum iðnaðarsvæða verið breytt. Lögð er áhersla á umhverfisvæna orkuöflun og að við virkjun og mannvirkjagerð alla verði horft til meiri samþættingu orkuvinnslu og náttúruverndar á Hengilssvæðinu og þá einnig horft til friðunar ákveðinna svæða. Með fyrrgreindum atriðum telur sveitarfélagið að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar frá 19. maí 2008 og tillit sé tekið til þeirra athugasemda sem bárust sem flestar við Bitruvirkjun.

Helstu atriðin í aðalskipulagsbreytingunni eru:
  • Iðnaðarsvæði, markmið og leiðir. Stækkun iðnaðarsvæðis Hellisheiðavirkjunar, iðnaðarsvæði fyrir Bitruvirkjun, nýtt rannsóknar- og vinnslusvæði við Gráuhnúka, ný iðnarðsvæði vestan Þorlákshafnar.
  • Vatnsvernd og náttúruvá.
  • Opin svæði til sérstakra nota.
  • Samgöngur og veitur, s.s. Þorlákshafnarlín 2 og 3.
  • Efnistökusvæði.

Sveitarfélagið Ölfuss tekur fram að þeir sem gerðu athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagsbreytingu árið 2008, þegar Bitra var auglýst, þurfa að ítreka þær við þessa auglýsingu telji þeir að athugasemdirnar eigi einnig við nú.

Aðalskipulagstillagan verður til sýnis á bæjarskrifstofum Ölfuss að Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn á skrifstofutíma og hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík, frá og með 22. ágúst 2009 til 19. september 2009. Skipulagsgögn má sjá á heimasíðu www. olfus.is og www.landmotun.is

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við aðalskipulagið. Frestur til þess að skila þeim inn er til 3. október 2009.

Mynd: Frá kynningu á Bitruvirkjun og Hverahlíð í húsnæði OR þ. 04.10.2007. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
20. ágúst 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Lára Hanna Einarsdóttir „Baráttan um Bitru heldur áfram“, Náttúran.is: 20. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/19/barattan-um-bitru-heldur-afram/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. ágúst 2009
breytt: 20. ágúst 2009

Skilaboð: