Sendinefnd Ramsarskrifstofunnar, sem fer með málefni hins alþjóðlega Ramsarsamnings um vernd votlendissvæða, tók nýlega undir það sjónarmið Landverndar að endurgera þurfi umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Jafnframt tók sendinefndin undir þá ábendingu Landverndar að í ljósi áætlana um aukna jarðvarmavinnslu á Kröflusvæðinu og nálægðar við Mývatn, verði nýtt umhverfismat einnig að taka til mögulegra áhrifa af stækkunum á báðum svæðunum sameiginlega. Mat Ramsar gengur mun lengra en verkfræðifyrirtækið EFLA lagði til í úttekt fyrir Landsvirkjun um málið.

Í september 2012 sendu Landvernd og Fuglavernd skrifstofu Ramsarsamningsins bréf þar sem gerð var grein fyrir áhyggjum samtakanna af áhrifum af fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun á lífríki Mývatns og heilsu fólks í Mývatnssveit. Samtökin óskuðu eftir því að Ramsarskrifstofan krefði íslensk stjórnvöld svara um möguleg neikvæð áhrif virkjunarinnar. Í kjölfarið kom sendinefnd skrifstofunnar til Íslands í ágúst 2013.

Í frétt þann 16. september  2013 lýsti Landsvirkjun því yfir að fyrirtækið æskti þess að umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun verði endurskoðað að hluta og að leitað verði álits Skipulagsstofnunar á því eins og lög gera ráð fyrir (http://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/landsvirkjun-stydur-endurskoun-mats-a-umhverfishrifum-bjarnarflagsvirkjunar). Verkfræðistofan Efla vann úttekt á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir virkjunina og komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu orðið teljandi breytingar  sem kölluðu á endurskoðun matsins í heild sinni, en kanna þyrfti hvort endurmat á jarðskjálftum vegna niðurdælinga gæti verið nauðsynleg. Úttektin var unnin að beiðni Landsvirkjunar.Verkfræðistofan Efla vann úttekt á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir virkjunina og komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu orðið teljandi breytingar  sem kölluðu á endurskoðun matsins í heild sinni, en kanna þyrfti hvort endurmat á jarðskjálftum vegna niðurdælinga gæti verið nauðsynleg. Úttektin var unnin að beiðni Landsvirkjunar.

Niðurstaða sendinefndar Ramsar gengur hinsvegar mun lengra. Í desember sl. sendi sendinefndin frá sér skýrslu um málið. Í skýrslunni leggur Ramsarskrifstofan áherslu á að vegna þess hve kvikt (dýnamískt) vistkerfi Mývatns og Laxár er og þess hversu erfitt er að spá fyrir um breytingar í kerfinu, verði að draga úr óvissu með því að skipuleggja allar aðgerðir manna á svæðinu afar vel og til samræmis við varúðarsjónarmið. Í þessum anda leggur Ramsarskrifstofan til að umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun verði endurgert og þar verði sérstaklega litið til mögulegra breytinga á hitastigi, efnasamsetningu og flæðis grunnvatns til Mývatns, bæði til styttri og lengri tíma. Þá er lögð áhersla á að spá fyrir um hvaða vistfræðilegu áhrif slíkar breytingar munu hafa í för með sér, hvort sem litið er til gróðurs, dýralífs eða fæðukeðjunnar í heild sinni. Í þessu samhengi bendir Landvernd t.d. á að innstreymi kísils til Mývatns er háð hitastigi og breytingar á magni efnisins geta haft ófyrirsjáanleg áhrif á lífríki vatnsins því kísill er eitt grunnefna sem öll fæðukeðja vatnsins byggir á.

Vegna fyrirhugaðra stækkana við Kröfluvirkjun, leggur sendinefnd Ramsar til að endurgerð umhverfismats kanni einnig möguleg uppsöfnuð áhrif stækkana virkjana bæði í Bjarnarflagi og við Kröflu á lífríki Mývatns. Hvorki Efla né Landsvirkjun hafa litið til þessa mikilvæga þáttar. Ramsarsendinefndin leggur einnig áherslu á að endurgerð umhverfismats feli í sér nákvæmari umfjöllun um brennisteinsvetni frá virkjunum á svæðinu og mögulegum áhrifum þess á íbúa og náttúru.

Þá leggur Ramsarskrifstofan áherslu á að áður en leyfi verða gefin fyrir stækkun virkjana á svæðinu, geri stjórnvöld kröfu um að gerðar verði áætlanir um hvernig megi koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á vistkerfi Mývatns vegna athafna mannanna.

Ljóst er að Skipulagsstofnun mun þurfa að líta ítarlega til greinargerðar Ramsarsendinefndarinnar þegar stofnunin metur nauðsyn þess að endurskoða umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Landvernd leggur ríka áherslu á að ekki verði farið í virkjanaframkvæmdir  í nágrenni Mývatns ef nokkur óvissa ríkir um áhrif þeirra á lífríki vatnsins.

Birt:
13. janúar 2014
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ramsar tekur undir með Landvernd varðandi virkjanir í Mývatnssveit“, Náttúran.is: 13. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/13/ramsar-tekur-undir-med-landvernd-vardandi-virkjani/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: