Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og félagið Vinir Þjórsárvera sendu í fyrradag þ. 3. janúar frá sér eftirfarandi bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra. Í bréfinu eru greinargóðar útskýringar á því hvað það er sem ráðherra er að gera rangt og hvaða lög hann er að brjóta með ákvörðun sinni um að breyta mörkum friðlands Þjórsárvera sem tilkynnt var um í fréttum í gær.

Efni:  Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum – andmæli við nýrri tillögu að suðurmörkum fyrirhugaðrar stækkunar friðlandsins

Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og félaginu Vinum Þjórsárvera hefur borist afrit af bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar til Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Bæði bréfin eru dagsett 27. desember 2013. Bréfi Umhverfisstofnunar fylgir greinargerð um stækkun friðlands Þjórsárvera, tillaga til sveitastjórna, dags. 27.desember 2013.

Framangreindir aðilar hafa komið að undirbúningi stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum sem hagsmunaaðilar og fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Félögin teljast því hafa sérstakra hagsmuna að gæta samkvæmt 58. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Af þessu leiðir að félögin teljast aðilar að málinu í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.). Félögin vilja árétta að það er eðlilegt að nýjar hugmyndir um mörk friðlandsins verði kynntar félögunum með sama hætti og öðrum aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þessu máli. Ennfremur er vísað í skuldbindingar Íslands samkvæmt Árósasamningnum.

Í þeirri tillögu að friðlandsmörkum sem dags. er 27. desember 2013 er árfarvegi og bökkum Þjórsár við Eyvafenskrók haldið utan friðlandsins í þeim tilgangi að veita aðstöðu fyrir mannvirki sem Landsvirkjun áformar að veiti vatni úr Þjórsá norðan Svartár. Samkvæmt korti meðfylgjandi framangreindri tillögu lítur þetta út eins og fleygur sem beinist að Þjórsárverum.

Í fyrrgreindri greinargerð, meðfylgjandi bréfi dags. 27. desember 2013,  kemur fram að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið sé sammála Umhverfisstofnun um það að ekki þurfi að leita samþykkis Landsvirkjunar fyrir friðlýsingarskilmálunum. Engu að síður virðist tillagan um ný suðurmörk friðlandsins einhliða eiga rætur sínar að rekja til Landsvirkjunar, sbr. bréf Landsvirkjunar til umhverfis- og auðlindaráðherra dags. 10. september 2013.

Í greinargerðinni segir jafnframt að nákvæm afmörkun þeirra landsvæða sem sett voru í verndarflokk komi ekki fram í núverandi verndar- og orkunýtingaráætlun. Þá segir að þingsályktunartillaga um þá áætlun og fyrirliggjandi gögn verkefnisstjórnar og faghópa 2. áfanga rammaáætlunar búi yfir ítarlegum rökstuðningi fyrir hverjum virkjunarkosti. Er svo að skilja að leitað hafi verið leiðsagnar í þessum gögnum þegar gengið var frá tillögum um suðurmörk friðlandsins.

Félögin telja að þessi túlkun á fyrirliggjandi gögnum byggi á misskilningi og rökstyðja þá afstöðu með eftirfarandi tilvísunum.

Í fyrsta lagi segir í 4. mgr. 6. gr. laga um verndar- og orkunýtingar áætlun nr. 48/2011 að „Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og nýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar“.  Í VI. kafla almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar. Einnig er tilgreind sú meginregla að hvers konar framkvæmdir og rannsóknir vegna virkjunarkosta í verndarflokki séu óheimilar.

Í öðru lagi eru virkjanasvæði skilgreind í kafla 3.2.1. í  Niðurstöðum 2. áfanga rammaáætlunar, frá því í júní 2011. Þar segir um afmörkun svæða á bls. 48:

„Svæði sem til greina koma vegna vatnsaflsvirkjana voru afmörkuð þannig að miðað var við vatnasvið ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja en þar fyrir neðan var aðeins tekinn meginfarvegurinn og næsta nágrenni hans (100-500 m út frá miðlínu eftir aðstæðum, sjá Kort 3.1).  Þetta gilti fyrir öll viðföng nema fiska en náttúruverðmæti þeirra og áhrif á þá voru einnig  metin  í  fiskgengum  þverám  neðan  stíflumannvirkja.  Menningarminjar  voru teknar  með  ef  hluti  minjaheildar var innan 100 m beltis frá meginfarvegi. Við ósa sumra stórfljóta eru flæðiengjar, frjósöm og lífrík votlendisvistkerfi sem eru órjúfanlega tengd vatni, framburði og flóðum í vatnsfallinu og geta raskast  við  framkvæmdir sem breyta rennslismynstri og framburði. Slík votlendisvistkerfi voru tekin með í verðmæta- og áhrifamati og var þá miðað við útbreiðslu gulstarar (Carex  lyngbyeii) sem er einkennistegund flæðiengja. Þar sem sjónræn áhrif náðu út fyrir vatnasvið réðu þau hvernig afmörkun var dregin fyrir víðerni og landslag en ekki fyrir aðra þætti.“ (áherslubr. undirr.)

Leggja ber áherslu á að skýrsla um „Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar“ sýndi niðurstöður verkefnisstjórnar um rammaáætlun, þ.e. þess sérfræðingahóps sem vann þá grunnvinnu sem  þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða byggði á. Ljóst er því að byggja verður á framangreindri skýringu um virkjanasvæði þegar inntak þess hugtaks er túlkað.

Í þriðja lagi verður að líta til athugasemda við þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun (þskj. 1165 – 727. mál, löggj.þ. 2011-2012). Í kafla 5.1 um rökstuðning hvers virkjunarkosts er tekið fram við Norðlingaölduveitu, 566-567,5 m.y.s., að ástæður þess að svæðið falli í verndarflokk séu eftirfarandi áhrif ef virkjað yrði á svæðinu:

„Felur í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft. Virkjunarkostur sem liggur á jaðri svæðis með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang.“ (áherslubr. undirr.)

Framangreindar beinar tilvitnanir taka af alla vafa um að sú tillaga sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur nú sent sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 27. desember 2013, er ekki í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun eða lögskýringargögn og gengur beinlínis gegn rökstuðningi í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd- og orkunýtingu landsvæða.  

Þessu til viðbótar er einnig rétt að benda á náttúruverndaráætlun 2004-2008 þar sem greinilega kemur fram að farvegur Efri-Þjórsár að Sultartangalóni er skilgreindur sem hluti áformaðrar friðlýsingar (sjá mynd í fylgiskjali 1). Í náttúruverndaráætlun 2009-2013 má glöggt sjá hvernig hin nýja tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra fer einnig þvert gegn verndartillögu áætlunarinnar um Þjórsárver, sem lögð var fram sem þingsályktunartillaga (þskj. 239-192. mál, löggj.þ. 2008-2009), sbr. þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2009-2013.

Verði farið að þeirri tillögu sem nú hefur verið kynnt sveitarstjórnum verður fossaröðin einstaka, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss, eyðilögð og víðerni svæðisins vestan Þjórsár spillt. Brýtur það í bága við yfirlýsta stefnu um víðerni sem kemur fram í skýrslu Umhverfisráðuneytisins „Velferð til framtíðar – stefnumörkun til 2020“.

Meðal annars á grundvelli framangreindra raka, krefjast Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og félagið Vinir Þjórsárvera, þess að umhverfis- og auðlindaráðherra dragi nýja tillögu um suðurmörk friðlandsins í Þjórsárverum, dags. 27. desember 2013, til baka. Þá er þess krafist að ný mörk verði byggð á þar að lútandi lögum, þingsályktunartillögu og lögskýringargögnum, sem tilgreina farveg Efri-Þjórsár og fossana sem hluta hins verndaða svæðis, og er einnig í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-08 og 2009-2013.

Að lokum er rétt að ítreka að 20. september s.l. áttu talsmenn félagsins Vinir Þjórsárvera, þau Árni Bragason, Sigþrúður Jónsdóttir og Tryggvi Felixson, fund með umhverfis- og auðlindaráðherra. Á fundinum upplýsti ráðherra að ráðuneytið væri að endurmeta áform um mörk friðlandsins í Þjórsárverum. Svo var að skilja, og í samræmi við þá minnispunkta sem ritaðir voru á fundinum, að endurmatið snéri eingöngu að mörkum friðlandsins við efstu lónin í Kvíslaveitu (s.k. Þjórsárlón). Ráðherra tilgreindi að ástæðan fyrir þessu væri að núverandi mannvirki, efstu lónin í Kvíslaveitu (s.k. Þjórsárlón), hefðu að hluta verið innan marka friðlandsins. Það væri bagalegt fyrir stjórnsýslu svæðisins í framtíðinni. Um þetta atriði hefðu komið athugasemdir frá Landsvirkjun sem ráðherra teldi ráðlegt að skoða vel. Í máli ráðherra kom fram að aðrar breytingar á friðlandsmörkunum, miðað við þá tillögu sem skrifa átti undir þann 20 júní s.l., væru ekki til skoðunar. Þessum orðum hafa félögin fram til þessa talið að mætti treysta.

Undirrituð félög áskilja sér allan rétt til að leita til dómstóla vegna lögmæti nýrrar tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra, málsmeðferðar ráðherra og annarra sem komið hafa að ferlinu og vegna annarra atriða sem snúa að stækkun á friðlandi Þjórsárvera.

Óskað er svara umhverfis- og auðlindaráðherra innan fimm virkra daga.

Virðingarfyllst,

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Félagið Vinir Þjórsárvera

Myndi: Skjáskot úr fréttum Stöðvar 2 í gærkveldi. Efri: Mörk friðlandsins í Þjórsárverum skv. Náttúruverndaráætlun 2004-08 og ákvörðuð stækkun skv. Rammaáætlun. Neðri: Breytt mörk skv. ákvörðun ráðherra þar sem umriss til að gera Norðlingaöldu kleifa er sett inn.

Birt:
5. janúar 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Vinir Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Landvernd „Bréf félaga til umhverfis- og auðlindaráðherra vegna breytinga á mörkum stækkaðs friðlands í Þjórsárverum“, Náttúran.is: 5. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/05/bref-felaga-til-umhverfis-og-audlindaradherra-vegn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. janúar 2014

Skilaboð: