Verndum hálendi Íslands
Hálendið – hjarta landsins er yfirskrift verkefnis sem Landvernd hleypti af stokkunum í Þjórsárverum þ. 6. sept. 2013. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á fyrirhuguðum framkvæmdum á hálendi Íslands og gefa fólki kost á að taka undir kröfu Landverndar um að hálendinu verði hlíft.
Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda um verndun víðerna hefur stöðugt verið gengið á þessi verðmæti. Nú síðast í gær með yfirlýsingu umhverfisráðherra sem ákveðið hefur að breyta mörkum friðlands Þjórsárvera þannig að Norðlingaölduveita verði gerð mögulegt, þvert á Rammaáætlun þar sem svæðið er í verndarflokki.
Áætlanir eru um virkjanir, uppbyggða vegi og raflínur á hálendinu, til dæmis í grennd við Þjórsárver, við Hágöngur og Hagavatn, í Skaftá, Skjálfandafljóti og Jökulsánum í Skagafirði og á Kili og Sprengisandi. Að mati Landverndar er afar mikilvægt að stöðva þessa þróun og vernda sérstöðu hálendisins sem felst í lítt röskuðum svæðum, stórbrotnum andstæðum í landslagi og gróðurfari og einstökum möguleikum til náttúruupplifunar í óbyggðum.
Tökum þátt í baráttunni fyrir verndun hálendis Íslands með því að fara inn á slóðina hjartalandsins.is (á ensku heartoficeland.org) og undirrita yfirlýsinguna.
Hjartað var valið sem tákn verkefnisins vegna þess að útlínur hálendisins mynda hjarta í grófum dráttum. Auk þess hefur Guðmundur Páll Ólafsson fjallað um hálendið sem hjarta landsins, t.d. á baráttufundi í Háskólabíói 28. nóvember 1998: ,,Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga." Hjartað er gyllt til að tákna auðinn sem felst í óspilltu hálendi, bæði andlegum og efnislegum. Þá er hjartað myndað úr tveimur hlekkjum eða hringjum sem tákna tryggð við það sem okkur er kært.
Á meðfylgjandi mynd er fólk á vegum Landverndar statt í Þjórsárverum með Hjartafell í bakgrunni.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Verndum hálendi Íslands“, Náttúran.is: 5. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/01/05/verndum-halendi-islands/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.