Jólakveðja Náttúrunnar 2013
Nú, í aðdraganda jóla og áramóta, á hátindi ársins, lítum við til baka og reynum að gera okkur grein fyrir hvað árið færði okkur, hvað við gerðum fyrir aðra og hvað við hefðum getað gert betur. Eins og Jörðin ferðast hring í kringum sólina á einu ári þá er hugmyndin um tíma einnig eins og hringur sem lokast og byrjar aftur um hver áramót.
Jólin eru hluti af hringrásinni, lokun hringsins, þessum skilum, þessu uppgjöri sem á sér stað á hverju ári. Við gerum upp á ýmsa vegu. Bæði við okkar nánustu og við samfélagið í heild sinni.
Þegar litið er yfir árið sem er að líða þá hefur það verið jákvætt og gjöfult fyrir Náttúran.is á svo marga vegu en einnig erfitt, ekki síst þar sem að umhverfismálin virðast fljóta í einhverju tómarúmi pólitíkurinnar um þessar mundir. Mikil óvissa ríkir hvað varðar framtíð náttúruverndar á Íslandi ef að mörg baráttumál núverandi ráðherra málaflokksins ná fram að ganga. Náttúran.is er háð stuðningi stjórnvalda þar sem allt okkar efni er ókeypis til almennings. Þetta kemur framtíð okkar því beinlinis við auk þess að vera ógnvænleg þróun í ljósi þess að eitt aðal verkefni mannkyns ætti að vera að sporna við hlýnun Jarðar.
Árið byrjaði vel hjá okkur er við hlutum góðan verkefnisstyrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og gátum því horft bjartsýn til verkefna ársins. Markmið ársins í ár, auk þess að halda úti fréttum og standa í stöðugum uppfærslum á efni og innihaldi, var að þróa Grænt kort í formi apps, nýrrar vefútgáfu og nýs prentaðs korts. Við fengum fjölda aðila til liðs við okkur í þetta stóra verkefni og tókst að koma kortinu út á haustdögum er það var kynnt á Vísindavöku Rannís. Dr. Anna Karlsdóttir lektor við Háskóla Íslands vann með okkur að þróun nýrra liða en hún hefur verið faglegur ráðgjafi verkefnisins allt frá upphafi. Ung ítölsk stúlka Chiara Ferrari Melillo, sérmenntuð í stjórnun þjóðgarða, dvaldi hjá okkur í allt sumar við rannsóknir og þróun Græna kortsins. Hennar framlag er ómetanlegt. Sjálfboðaliðar frá SEEDS aðstoðuðu okkur við rýni á kortinu og fjöldi manns með sérfræðiþekkingu komu að verkefninu á ýmsum stigum þess. Þeim þökkum við öllum með virktum. Einnig öllum fjárhagslegum bakhjörlum okkar en án þeirra væri hvorki Náttúran.is né Græna kortið til.
Nýverið komu nokkrir nýir sjálfboðaliðar til starfa í Náttúruteyminu og munum við kynna þá nánar þegar nýr vefur lítur dagsins ljós upp úr áramótum.
Helstu skilaboð jólanna eru að hver manneskja finni sinn innsta besta kjarna og sýni náttúrunni og samferðarmönnum sínum umhyggju, virðingu og ást. Með það í huga óskum við lesendum okkar, viðskiptavinum, stuðningsaðilum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólakveðja Náttúrunnar 2013“, Náttúran.is: 22. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/18/jolakvedja-natturunnar-2013/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. desember 2013
breytt: 16. mars 2014