Í dag þ. 13. desember 2013 er síðasti dagur framlengingar frests til að senda inn athugasemdir við frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til laga um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Mikil andstaða hefur verið við áform ráðherra um brottfall náttúruverndarlaga en í athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands segir m.a.:

Frumvarp það sem ráðherra hefur lagt fram um brottfall laga um náttúruvernd þjónar sama tilgangi og tal hans um að leggja niður umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða áform hans um breytingar á friðlýsingarskilmálum fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Frumvarpinu má líkja við árás á náttúruvernd. Verði það að lögum það mun veikja náttúruverndarlöggjöfina, stjórnkerfi náttúruverndarmála og uppbyggingu lagaumhverfis í þágu náttúruverndar. Þær ástæður sem ráðherra tilgreinir í greinargerð og framsöguræðu eru lítt eða ekki rökstuddar heldur eru þær settar fram sem fyrirsláttur eða yfirvarp til að réttlæta afnám nýrra laga um náttúruvernd.

Umhverfis- og auðlindaáðherra þegir þunnu hljóði um hvað hann hyggst fyrir annað en að setja af stað vinnu við gerð enn nýrri laga um náttúruvernd verði frumvarp hans að lögum. Á hinn bóginn verður ekki annað ráðið af umræðunni á Alþingi en að hinn raunverulegi tilgangur ráðherra sé að verja hag hinnar nýju stéttar landeigenda, auðmanna, með breytingum á almannaréttinum og að vinna hagsmunum orkufyrirtæka framgang enda myndu meginreglur umhverfisréttarins og skýrari ákvæði 57. gr. laga nr. 60/2013 sjálfkrafa falla brott verði þetta frumvarp að lögum.

Frumvarpið er af allra einföldustu gerð. Einungis tvær greinar:

1. gr.
Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem taka áttu gildi 1. apríl 2014, falla brott.

2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi1

Sjá athugasemdir Náttúruverndarsamtaka Íslands um frumvarpið í fullri lengd.

Ljósmynd: Túnfífill að lokast, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
13. desember 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Athugasemdir NSÍ um brottfall náttúruverndarlaga“, Náttúran.is: 13. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/13/athugasemdir-nsi-um-brottfalla-natturuverndarlaga/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: