Elding hvalaskoðun hefur nú tryggt sér hina virtu gullvottun EarthCheck sem eru vottunarsamtök fyrir ferðaþjónustu. Þannig hefur Elding slegist í hóp með leiðandi fyrirtækjum á heimsvísu sem, á fimm ára tímabili eða lengur, hafa sýnt fram á einurð og sett sér háleit markmið í umhverfisstjórnun.

Til að öðlast vottun frá EarthCheck, þarf að gera grein fyrir umhverfisfótspori og fylgja alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um góða viðskiptahætti. Árlega, í aðdraganda vottunarinnar, eru lögð fram ítarleg gögn um starfsemina, þau borin saman við viðmið greinarinnar og fyrirtækið tekið út af viðurkenndum matsaðila.

Efnahagslegt vægi ferðaþjónustu hefur aukist mikið á undanförnum árum og mikilvægi náttúrunnar og umhverfisins er vel þekkt í því samhengi. Fyrir hagkerfi sem reiðir sig í auknum mæli á ferðaþjónustu er því mikilvægt að huga vel að umhverfismálum. Viðmiðunargögn EarthCheck eru einu staðfestu heimildirnar um áhrif ferðaþjónustunnar á umhverfið síðustu 12 ár. Það sem meira er metur kerfið árangur fyrirtækja í að draga úr gróðurhúsaáhrifum sínum og verndun náttúruauðlinda.

Elding er frumkvöðull á sviði umhverfisstjórnunar fyrirtækja á Íslandi, fengu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2008 en Elding hefur Vakann Gull, EarthCheck Gull vottun og Bláfánaveifu.

Sjá aðra með EarthCheck vottun hér á landi.

Ljósmyndir: Efri; Eldingarteymið með vottunarskjalið, neðri; vottunarskjalið.

Birt:
6. desember 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Rannveig Grétarsdóttir „Elding fær gullvottun hjá EarthCheck“, Náttúran.is: 6. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/12/06/elding-faer-gullvottun-hja-earthcheck/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: