Margt athyglisvert kom fram á vinnustofu Vistbyggðaráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar sem haldin var 20. nóvember 2013. Þar komu saman rúmlega 40 manns úr ýmsum sviðum byggingariðnaðarins og skyldum greinum. Markmiðið var að miðla upplýsingum um vistvænar bygginar og tengja þennan hóp betur innbyrðis. Umræður voru líflegar og greinilegt að áhugi er á sviði vistvænna bygginga og margt þróast til betri vegar en því miður annað setið á hakanum.

Það sem virtist vera sammerkt með öllum erindunum og reynslu þeirra sem tjáðu sig var að hagræni þátturinn væri það sem á endanum riði baggamuninn í ákvörðunum og frágangi bygginga. En því miður væru oft brögð að því að verkkaupar vikju frá upphaflegri hönnun, ekki síst á lokastigum, þegar sjóðir væri farnir að tæmast. Það kæmi niður á endanlegum frágangi s.s. gólfefnum, veggjum, loftum og lýsingu. 

Í erindi sínu sýndi Björn Guðbrandsson, frá Arkís, fram á slíkar tilslakanir geta hreinlega haft kostnað í för með sér sem afleiðing verri aðbúnaðar fyrir starfsfólk eða nemendur. Sama ætti einnig við um heimili þótt rannsóknir þær sem hann vísaði til hefðu ekki beinst að þeim vettvangi. 

Björn sagði að talið væri að allt að 30% bygginga hefðu einhver einkenni húsasóttar. En með því að huga að vistvænni hönnun og frágangi mætti bæta líðan og þar með afköst og getu þeirra sem í húsunum dvelja svo um munaði.

Hann nefndi sláandi tölur, skólar sem væru vel hannaðir og byggðir gætu skilað um 20% betri árangri í stærðfræði og 29% í lestri ef nemendur hefðu gott útsýni, góða birtu og góða hljóðvist. Vinnustaðir hefðu sýnt aukna framleiðni og fækkun veikindaga um allt að 40%.

Sjúkrastofur sem uppfylla viðmið vistvænna bygginga hafa skilað fjórðungi hraðari bata en aðrar stofur.

Guðrún Jónsdótir frá Eflu talaði um hljóðvist en sá þáttur hefur ef til vill notið hvað minnstrar athygli. Hún sagði um 170.000.000 Evrópubúa búa við hljóðstig sem hefði áhrif á heilsu þeirra. Hér á landi hefðu hljóðflokkunarstaðlar nýlega fengið vægi í byggingaregluerð 112/2012 og vitund væri að aukast um mikilvægi góðrar hljóðvistar. Þekking og reynsla á því sviði hefur aukist hér á landi varðandi hönnun og búnaður til að mæla þegar byggð rými og umhverfi er til staðar. Rannsókn hefði verið gerð í nokkrum skólum og vonandi verða gerðar úrbætur þar sem þeirra er þörf.

Í umræðum kom einnig fram að víða er pottur brotinn á heimilum og ekki síst í fjölbýli en þar getur t.a.m. gólfefni og frágangur þess haft veruleg áhrif á hljóðvist íbúðar og ekki síður hljóðvist næstu íbúða. Bæði til hliðar og ekki síst neðri hæðir. 

Hilmar Ingi Jónsson frá Remake kynnti mælikerfi sem mælir raforkunotkun á stofni og stökum greinum og getur gefið rekstaraðilum sundurliðaða innsýn í hvar orku er helst sóað. Búnaðurinn stýrir engu en með mælingum sést í rauntíma orkunotkun hverrrar mældrar greinar og með uppsöfnuðum gögnum má sjá sögulega notkun og bregðast við með aðgerðum til úrbóta s.s. að setja reglur um að slökkva ljós á ákveðnum svæðum þegar ljósa er ekki þörf. 

Þjónusta þeirra miðast fyrist og fremst að fyrirtækjum að svo stöddu en í bígerð er að útbúa viðmót sem hentar heimilum og þá ekki síst þeim sem eru hituð með raforku. 

Sigurgeir Þórarinsson frá Mannvit fjallaði um þróun og breytingar í lögnum og loftræstingum sem hefur verið talsverð á síðustu árum. Jafnvel hefur sá þáttur þróast hvað mest til vistvæni án þess að sérstök áhersla væri lögð á það hérlendis. Plastefni hefðu víða tekið við af málmum og steypu. Margt hefði komið í ljós við notkun s.s. að galvaniseruðu lagnirnar hafa smitað sinki í heitt vatn og kaldar leiðslur náð að ryðga. Kopar hefð sína galla. Verð hefur líka áhrif og útlit þar sem lagnir eru sýnilegar. 

Eins geta aðferðir við lofræstingu og hitun verið misjafnar eftir aðstæðum. Kostir og gallar þurfa að metast. T.d. hafa ofnar með aukahitaplötum skilar mun betri nýtingu á heitu vatni en hafa þann galla að erfitt er að þrífa þá. Því hafa sjúkrastofnanir valið einfaldari ofna og fengið þannig aukið hreinlæti á kostnað orkunýtingar. 

Það er ljóst af þessum erindum og umræðum sem fram fóru að mikil þekking er til staðar og rétt hönnun og frágangur getur skilað miklum ávinningi. Bæði hvað varðar líðan fólks og ekki síður í bókhaldinu með aukini framleiðni. Auk þess getur vel hannað og vandað umhverfi haft lægri viðhalds- og rekstrakostnað í för með sér.

Það er því um að gera að velja góða aðila sér til fulltyngis við hönnun og byggingu eða breytingar á húsnæði. Vistbyggðarráð er vettvangur þeirra aðila sem láta sig þessi mál varða og má ætla að meðal aðildarfélaga megi finna hönnuði og ráðgjafa sem hafa þekkingu og skilning á vistvænum lausnum. 

Grafík: Vistbyggðarráð.

Birt:
21. nóvember 2013
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Hagkvæmar tæknilausnir fyrir vistvænar byggingar“, Náttúran.is: 21. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/21/hagkvaemar-taeknilausnir-fyrir-vistvaenar-bygginga/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: