Þegar gjöf er valin er ekki síst mikilvægt að hafa í huga að ákvörðun þín hefur alltaf bein áhrif á umhverfið. Ef gjöfin er flutt langt að og er framleidd úr PVC, áli eða öðrum efnum sem hafa óvéfengjanlega slæm áhrif á umhverfið, bæði við framleiðslu og eftir líftíma, þá ertu kannski ekki að gefa eins góða gjöf og þú heldur.

Að gefa náttúrulegar, umhverfismerktar, sanngirnisvottaðar eða lífrænar gjafir er alltént jákvæðara fyrir umhverfið. Ekki svo að skilja að allt úr plastefnum og málmum sé hræðilega slæmt en mikið af því sem er á markaði í dag er fullt af efnum sem eru óæskileg og hreint og beint eitur fyrir lífríki jarðar og heilsu okkar.

Auðvitað verður að skoða þetta í samhengi við notagildi gjafarinnar og endingu. Ef við getum fært rök fyrir því að ákvörðun okkar sé ekki tekin að óhugsuðu máli er stórt skref unnið. Það tekur tíma að aðlaga sig að því að taka tillit til umhverfisþátta en það er ekki seinna vænna að byrja. Ákvarðanir hvers og eins okkar skipta öllu máli fyrir áframhaldandi líf á þessari jörð.

Það er ekki einu sinni nauðsynlegt að gefa efnislegar gjafir til að sýna hug okkar. Að gefa tíma, þjónustu, heimilsþrif, pössun, snjómokstur, út að borða, gluggaþvott, garðvinnu, bílaviðgerðir, áskrift, sundkort, jógatíma, blómadropanámskeið, myndlistarnámskeið, veisluhald eða ferðalag eru líka skemmtilegar gjafir sem nýtast oft miklu lengur og uppfylla þörf sem fyrir hendi er hjá þeim sem við viljum gleðja.

Ef að það hljómar ekki nógu spennandi og eitthvað áþreifanlegt þarf að vera í pakkanum eru persónulegir heimagerðir hlutir alltaf mjög fallegir. T.d. að prjóna eða sauma eitthvað sérstaklega fyrir viðkomandi, smíða eða mála mynd, laga jurtaolíur eða sápur, tína jurtir um vor, sumar eða haust og laga teblöndur, sultu eða chutney til gjafa.

Sportlegar og menningarlegar gjafir eins og leikhúsmiðar, námskeið, óperumiðar, hótelgisting, ferðalög og heilsuræktarkort gleðja lengi og bera vott um umhyggju bæði fyrir þeim sem fær gjöfina og náttúrunni.

Efri grafík: Eitraðar gjafir. Neðri grafík: Góðar gjafir. Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
20. nóvember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að gefa vænstu gjöfina“, Náttúran.is: 20. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/12/08/ao-gefa-vaenstu-gjofina/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. desember 2007
breytt: 20. nóvember 2013

Skilaboð: