MAST hefur send út boð til hóps félaga og fyrirtækja um að Skráargatið, sænskt merki sem á að gefa til kynna að tiltekin vara sé „hollari“ en sambærilegar vörur á markaði, verði loks innleitt hér á landi, sem er ánægjulegt.

Minna ánægjulegt hefur þó verið að fylgjast með þessari erfiðu fæðingu og ekki síður furðulegt að Skráargatið hafi verið notað á fjölda vörutegunda á íslenskum markaði allt frá byrjun árs 2011 jafnvel þó að leyfið hafi ekki tekið gildi hér á landi.

Skal sagan lauslega rakin hér:

Neytendasamtökin skoruðu ítrekað á stjórnvöld að taka merki Skráargatsin upp hér á landi. Auk þeirra hvöttu Lýðheilsustofnun, Menneldisráð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna allt frá árinu 2005 til þess að merkið yrði tekið upp hér á landi. Sjá frétt hér á vefnum frá 17.2.2011. Sjá frétt úr Fréttablaðinu þ. 23.02.2012.

Fimm þingmenn lögðu síðan til þingslályktunartillögu í febrúar 2011 um að taka merkið upp og í kjölfarið íhugaði MAST að taka merkið upp. Reglugerð var lengi i fæðingu og var send til umsagnar til ESB/EFTA þar sem um var að ræða löggjöf sem ekki er hluti af EES-ferlinu. Síðan var lengi beðið eftir svari frá sænsku matvælastofnuninni um hvort nota mætti merkið.

Ítrekaðar fyrirpurnir fulltrúa Náttúran.is og Neytendasamtakana til MAST og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til að fá svör við seinagangi innleiðingarinnar og af hverju fyrirtæki kæmust upp með að nota merkið án leyfis og eftirlits, var seint svarað en engin skýring kom á því hvers vegna fyrirtæki kæmust upp með að nota merkið án leyfis. Sjá frétt hér á vefnum frá 14. ágúst 2012.

Það má kannski segja að við ættum bara að gleðjast yfir því að undirritun skuli fara fram á morgun og hætta að röfla yfir því hve langan tíma innleiðingin tók. En trúverðugleiki Skráargatsins hlítur að hafa beðið hnekki ef notkun merkisins án leyfis var látin óáreitt svo árum skipti.

Það er óskandi að skýrt verði hvort viðurlög liggi við misnotkun neytendamerkinga af þessum toga í framtíðinni eða hvort að þetta þyki ásættanleg vinnubrögð.

Það finnst mér greinarhöfundi ekki!

Birt:
11. nóvember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Loks kemur að innleiðingu Skráargatsins hérlendis“, Náttúran.is: 11. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/11/loks-kemur-ad-innleidingu-skraargatsins-herlendis/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. nóvember 2013

Skilaboð: