Nú stendur Umhverfsiþing yfir í Hörpu. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra hélt inngangserindið sem fjallaði um innihald þingsins sem er „Verndun og nýting - framtíðarsýn og skipulag“. Í ræðu ráðherra kom m.a. fram að hann vildi taka af allan vafa um að áformuð stækkun friðlands Þjórsárvera fæli ekki í sér að virkjanaskostir væru innan þess. Aftur á móti gæti seinna meir ekki verið útilokað að upp kæmi umræða eða jafnvel að virkjað yrði „við“ friðlandið.

Greinarhöfundur eftast um að „allur vafi“ hafi verið tekinn af með orðalagi ráðherra.

Ásdís Hlökk Theodorsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar ræddi landskipulagsmál og skipulagsmál almennt og minnit á að tímarnir breytast og að skynsemi sé grundvöllur nýrra hugsunar á sviði skipulagsmála.

Systkynin Birta Marí og Ágúst Jónsbörn úr Grenivíkurskóla kynntu starf barnanna í Grænfánaverkefninu en Grenivíkurskóli hefur nú hlotið Grænfánann fjórum sinnum. Umhverfissáttmálinn sem börnin í Grenivíkurskóla sömdu fólu í sér samtal við sveitarfélagið og íbúa þess sem skilað hefur miklum árangri.

Ómar Ragnarsson talaði fyrir hönd félagasamtaka. Hér að neðan má lesa ræðu Ómars undir yfirsögninni „Aðeins ein jörð“:

Umhverfisráðherra. Góðir þingfulltrúar og aðrir viðstaddir.

Aðeins ein jörð !
Það er ekki um fleiri´að ræða.
Takmörkuð er á alla lund
uppspretta lífsins gæða. 

 Nú eru liðin rétt 50 ár síðan John F. Kennedy Bandaríkjaforseti  sagði eftirfarandi um hættuna  á því að mannkynið útrýmdi sjálfu sér og öllu lífi á jörðinni:  
„Við lifum öll á sömu plánetunni, öndum öll að okkur sama loftinu, eigum afkomendur, sem okkur er annt um, og við erum öll dauðleg.“

Enn er þetta í fullu gildi, bæði hætta á gereyðingarstríði og hætta á hrikalegum afleiðingum þess þegar græðgi og stundarhagsmunir heltaka fólk og þjóðir.
Þetta held ég að sé okkur hollt að hafa í huga á umhverfisþingi örþjóðar sem lifir á sömu plánetu og andar að sér sama loftinu og aðrar þjóðir heimsins.

En hvaða skerf við ættum við að leggja af mörkum andspænis því, að á næstu áratugum munu margar af helstu auðlindum jarðar fara þverrandi vegna ágengni og rányrkju og afleiðinga af hlýnun lofthjúps jarðar af mannavöldum?

Þar er efst á blaði krafa Ríósáttmálans um sjálfbæra þróun og stöðvun rányrkju sem tryggi jafnrétti kynslóðanna.
Hér á landi er þetta krafan um að við göngum ekki á gæði og frelsi milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land.
Og göngum ekki heldur á lífsgæði og frelsi milljarðanna, sem eiga eftir að byggja jörðina.

Þar ber einna hæst háskalega hröð hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum,  sem ekki einasta magnar hættu á flóðum, eyðandi fárviðrum, hækkandi sjávarborði og eyðingu jarðvegs og gróðurs, heldur magnar stríðshættuna og hættuna á gerðeyðingarstríði.

Þetta tengist ástand hafsins, sem við Íslendingar eigum allt okkar undir, súrnun þess og áhrifum mengunar á lífríki þess, sem nú er að koma í ljós að geti orðið meiri en menn hefur áður grunað.
Enn sem komið er erum við, því miður, öflugir þátttakendur í því að magna upp þennan mikla vanda og vá  á kostnað komandi kynslóða.

Við erum  búin að gera bindandi samning um rannsóknir, leit að olíu og vinnslu hennar norður af landinu án þess að nokkur nothæf rökræða hafi farið fram um það.  Þetta er siðlaust af okkar hálfu.

Íslensk umhverfisvernd hefur, því miður, að mestu aðeins náð til strandarinnar en ekki út fyrir hana, enda í mörg horn að líta uppi á landi.     Við eigum mest mengandi bílaflota í okkar heimshluta.

En ábyrgð okkar í umhverfis- og náttúruverndarmálum lýtur líka að því að við erum sem þjóð vörslufólk fyrir eitt af helstu náttúruundrum og náttúruverðmætum heims, sem er hinn eldvirki hluti Íslands.

Hér er ég með vandaða bók um 100 helstu náttúruundur heims og eru rúmlega 40 þeirra náttúruundur.
7 náttúruundranna eru í Evrópu og aðeins 2 á Norðurlöndum, norsku firðirnir og hinn eldvirki hluti Íslands.
Um Ísland segir: „Iceland is a land like no other.“ „Ísland er engu öðru landi líkt.“  Hvergi er neitt þessu líkt sagt um neitt annað land í bókinni.

Ef flett er upp Norður-Ameríku er þann heimsfræga hveraþjóðgarð Yellowstone ekki að finna, - henn kemst ekki á blað.

Samt sýndi bandarískur sérfræðingur í jarðhitavirkjunum kort af helstu svæðunum í Bandaríkjunum þar sem mætti virkja á ráðstefnu hér á landi nýlega. 
Um langstærsta og eldrauðasta svæðið á kortinu með mesta samanlögðu magni gufuorku og vatnsorku sem finnst í álfunni sagði Bandaríski sérfræðingurinn:  
„Þetta er Yellowstone. Verður ekki snert.   Yellowstone er heilög jörð, heilög vé.“

„Á sama tíma og enginn í Bandaríkjunum dirfist að tala um virkjanir í Yellowstone   er hér á landi, - á hliðstæðu, en mun stærra svæði með miklu meiri náttúruverðmætum -  að finna áætlanir um á annað hundrað virkjana með svonefndum mannvirkjabeltum um hálendið og þetta kallað „sátt milli nýtingar og verndar“                                                 

Náttúruverndarlög eru afturkölluð,   rammaáætlun á að þjóna því að komið verði upp neti virkjanamannvirkja  allt frá Reykjanestá austur í  Skaftafellssýslu norður yfir hálendið til Jökulsár á Fjöllum, 
- rætt eru um að fara aftur á bak um 22 ár með því að leggja umhverfisráðuneytið niður eða gera það að deild í einhverju atvinnuvegaráðuneytanna, - 
-  engin viðbrögð heyrast um nýjustu skýrslur vísindamanna um geigvænlegar loftslagsbreytingar af mannavöldum vegna þess að sett eru árlega met í magni koltvísýrings í lofthjúpnum, - það  hefur ekki verið meira í 800 þúsund ár.   Skellt er skollaeyrum við því.

Umhverfisstefnan birtist þessa dagana í því að fjötra bæði fólk og fossa, - fjötra til dæmis stórfossana þrjá í efsta hluta Þjórsár, sem hver um sig er jafnoki Gullfoss ef þeir fá að renna með fullu vatnsmagni.

Kannanir sýna að stjórnvöld ganga gegn vilja almennings í Gálgahrauni, Bjarnarflagi, á hálendinu og í stóriðjumálum.

Og allt er þetta í gangi þótt í stjórnarsáttmálanum standi:
„Ríkisstjórn Íslands muni vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og fyrirmynd annarra þjóða í umhverfisvernd.“      Ég segi bara:  Vaaáá !  Kanntu annan?

En hvað sagði ekki George Orwell: „Fyrst velja þeir orðin og síðan breyta þeir merkingu þeirra“.

„Orkufrekur iðnaður“ sem þýðir á mannamáli mesta mögulega bruðl með orkuna, en er orðið að trúarhugtaki um æskilegustu orkunýtingu hér á landi.

Í uppleggi rammaáætlunar er „nýtingu“ og „vernd“ teflt saman sem andstæðum í stað þess að tala um orkunýtingu og verndarnýtingu, þar sem Gullfoss er gott dæmi um verndarnýtingu.
Þeir sem vilja virkja allt eru kallaðir „hófsemdarmenn um  skynsamlega nýtingu“, en þeir sem andæfa eru kallaðir öfgamenn.

Skoðum sérstöðu náttúruverðmæta Íslands.   Hana má ráða af úttekt Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðfræðings á litlum hluta hins eldvirka hluta Íslands, vatnasvæði einnar ár, Jökulsár á Fjöllum.

Hún leiddi í ljós að á þessu eina vatnasvæði er lang magnaðasta, fjölbreyttasta og einstæðasta eldfjallasvæði heims.

Umræður um umhverfismál hér á landi eru á svipuðu stigi og í Bandaríkjunum fyrir 50 árum og í Noregi fyrir 30 árum. 

Við þekkjum áunna sykursýki.  En hér ríkir stefna, sem nefna má „áunna fáfræði“ um náttúruverðmæti og umhverfismál.

Sumir segja að skylda okkar Íslendinga sé að virkja alla orku landsins, sem er að vísu minna en nemur 0,01% af orkuþörf heimsins, en það verði þó okkar skerfur til björgunar lofthjúpnum.

Tökum hugsanlega hliðstæðu, að skortur sé á góðmálmum heiminum og að þjóðirnar leggi sitt af mörkum.

Myndu Ítalir þá leggja til Péturskirkjuna, kirkjuhvolfþök sín og myndastyttur af því að þar liggi mesta magnið af þessum eðalmálmum?

Myndu Rússar fyrst bræða hvolfþökin og gersemarnar í Kreml?

Bandaríkjamenn fyrst láta bræða Frelsisstyttuna?

Frakkar bræða alla góðmálmana í Versölum?

Austrænar þjóðir fórna eðalmálmum í keisarahöllum og Búddahofum?
Auðvitað ekki. Þetta yrði brætt síðast, ekki fyrst.

Náttúruverndar- og umhverfissamtökin á Íslandi hafa aldrei átt eins annríkt og núna,   því viðfangsefnin hrannast upp eins og óveðursský.
Fólkið í þessum samtökum stendur agndofa andspænis því sem ég hef verið að lýsa.
Orð eins og trúnaðarbrestur og vantraust eru nefnd. 

Dæmi um ótrúlegt ástand: Í um það bil 15 ár hefur svonefndur Árósasáttmáli verið í gildi og reynst vel í okkar heimshluta.
En við dröttuðumst fyrst til að lögtaka hann skertan fyrir 2 árum.
Og nú virðist það geta gerst, að hér á landi verði þessi samningur að engu hafður.

Samstaða og samvinna náttúruverndarsamtakanna hefur aldrei verið meiri en nú, en það er ósk þeirra að á þessu þingi fari fram það sem hefur vantað sárlega,  þroskuð umræða um umhverfis- og náttúruverndarmál í viðleitni til að lyfta henni á hærra plan og  flýta fyrir því að við komumst á svipað umræðustig og nágrannaþjóðir okkar.

Því að verkefnin sem blasa við okkur og mannkyni öllu hafa vart í annan tíma verið brýnni og erfiðari. 
                                               
Aðeins ein jörð.
Það er ekki um fleiri´að ræða.
Takmörkuð er á alla lund
uppspretta lífsins gæða. 

          Aðeins ein jörð.
          Á henni plágur mæða:
          Rányrkja grimm sem örbirgð hlýst af
          með eyðingu´og stríðið skæða,
          flóðin, sem byggðir færa í kaf,
          er fárviðri´um löndin æða.
                                                     
Aðeins ein jörð
Um hana stormar næða.
Auðlindir þverra ef að þeim er sótt   
aðeins til þess að græða.

            Aðeins ein jörð.
            Afglapasporin hræða.
            Lögmálið grimma´lemur og slær
            og lætur ei  að sér hæða:
            Ef deyðir þú jörðina deyðir hún þig
            og deyjandi mun þér blæða!

Aðeins ein jörð, - 
samt alla mun fæða og klæða
ef standa um hana viljum vörð,
vernd'ana og líf hennar glæða,
elska þessa einu jörðu,
það er ekki um fleiri að ræða.

.....og Umhverfisþing heldur áfram, sjá dagskrána hér.

Beina útsendingu frá þinginu má nálgast hér.

Ljósmyndir, efri mynd; Sigurður Ingi í pontu í byrjun þingsins, neðri mynd; Ómar í pontu. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
8. nóvember 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisþing 2013 hafið í Hörpu“, Náttúran.is: 8. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/11/08/umhverfisthing-2013-hafid-i-horpu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: