Orkuveita Reykjavíkur hefur á undanförnum árum selt upprunaábyrgðir á markað í Evrópu. Það er þó ekki svo að íslensk raforka sé nú flutt úr landi um rafstreng án þess að við höfum tekið eftir því heldur er málið þannig vaxið að með aukinni eftirspurn eftir „vottaðri endurnýjanlegri orku“ á meginlandinu hefur verið komið á kerfi sem að gerir raforkuframleiðendum eins og Orkuveitu Reykjavíkur kleift að selja „ígildi íslenskrar raforku“, sem skv. þessu kerfi er skilgreind sem 99,9 % endurnýjanleg, úr landi en á móti tekur raforkan okkar á sig skítugri mynd úr blöndu af kjarnorku og jarðefnaeldsneyti.

Hið góða orðspor innlendrar endurnýjanlegrar orku er s.s. selt úr landi gegn því að við tökum á okkur subbulegri mynd frá raforkuframleiðslu annarra Evrópulanda. Hugmyndin byggir þó í meginatriðum á því að meðvitund um vistvæna orkugjafa verði almennari og að aukin eftirspurn gefi raforkuframleiðendum byr undir báða vængi til framleiðslu endurnýjanlegrar orku fram yfir aðra. Það á síðan að draga úr lostun koldíoxíðs þegar á heildarmyndina er litið.

Í grein á vef Orkuveitu Reykjavíkur er fjallað um upprunaábyrgðir raforku.

Upprunaábyrgðir raforku hefur verið sett á skv. tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EC, lögum nr. 30/2008 og reglugerð nr. 757/2012.

Mynd: Losun koldóxíðs og kjarnaúrgangs í hlutdeild raforkusölu á Íslandi 2011 er því þannig: koldíoxíð 159,05 g/kWh og geislavirkur úrgangur 0,45 mg/kWh. Orkuveita Reykjavíkur.

Birt:
4. desember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Upprunaábyrgð fyrir raforku“, Náttúran.is: 4. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/19/upprunaabyrgd-fyrir-raforku/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. október 2013
breytt: 20. júlí 2014

Skilaboð: