Landvernd mótmælir harðlega ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að afturkalla lög nr 60/2013 um náttúruvernd sem samþykkt voru á síðasta þingi. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ráðherra hyggist fela ráðuneytinu að hefja endurskoðun á náttúruverndarlögunum. Landvernd bendir á að ítarleg heildarendurskoðun laganna fór fram allt síðasta kjörtímabil.

Landvernd krefur ráðherrann um haldbæran rökstuðning við ákvörðun sína um afturköllun, en hann er ekki að finna í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Jafnframt fara samtökin fram á það að ráðherra svari því hvaða þætti nákvæmlega hann hyggst láta ráðuneyti sitt endurskoða.

Landvernd benti á í umsögn sinni um frumvarpið síðastliðinn vetur að með þáverandi frumvarpi væri heildsteyptari og skýrari umgjörð komin um vernd íslenskrar náttúru en áður hefur verið hérlendis. Þá fögnuðu samtökin sérstaklega ýmsum nýmælum og skerptum áherslum eða breytingum á einstökum köflum gömlu laganna. Í því sambandi nefndi Landvernd sérstaklega: i) skýrari markmiðssetningu, ii) kafla um meginreglur umhverfisréttar, þ.m.t. innleiðingu varúðarreglu og mengunarbótareglu, iii) aðlögun friðlýsingaflokka að alþjóðlegum viðmiðum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, iv) heimild til friðlýsingar heilla vatnasviða, v) viðbætur og breytingar á kafla um vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda, vi) endurbættan kafla um varnir gegn ágengum framandi tegundum, vii) endurbættan kafla um akstur utan vega, viii) nýjan kafla um vöktun náttúrunnar og ix) bætt þvingunarúrræði stjórnvalda til að framfylgja lögunum.

Landvernd telur að vissulega megi endurskoða þætti eins og að færa stjórn friðlýstra svæða undir einn hatt, taka betur á gróður- og jarðvegsvernd í lögunum og tengingu við önnur lög sem við koma náttúruvernd og að tryggja að umsagnir fagstofnana um náttúruverndarmál verði bindandi fyrir leyfisveitendur. Þetta kallar þó engan veginn á endurskoðun laganna í heild sinni. Landvernd sér því ekki ástæðu til að afturkalla lög nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Birt:
25. september 2013
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Yfirlýsing Landverndar vegna ákvörðunar umhverfisráðherra um að afturkalla lög um náttúruvernd“, Náttúran.is: 25. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/25/yfirlysing-landverndar-vegna-akvordunar-umhverfisr/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: