Wendy Brawer stofnandi Green Map Systems
Wendy Brawer er hönnuður og frumkvöðull á bak við hið víðfræga greenmap. Hún er fædd 1953 í Detroit þar sem hún ólst upp. Í byrjun tíunda áratugarins flutti hún til New York þar sem hún hefur búið síðan. Wendy hefur síðan beitt sér fyrir fleiri öndunarholum, borgargarðyrkju, og sjálfbærni í þéttbýlinu á Lower East Side þar sem hún býr og starfar á Manhattan, New York.
Árið 1992 stofnaði hún hönnunarteymið Modern World Design. Fljótlega vatt starfsemin upp á sig og fyrsta græna kortið kom út en það bar nafnið Green Apple map og var beint að útivistarsvæðum í þéttbýlinu og ýmiskonar umhverfisgæðum borgarsamfélagsins auk þess sem starfsemi með metnað fyrir vistvænum starfsháttum var kortlögð.
Með græna kortinu var brotið blað þar eð hefðbundin skipulagskort höfðu áður ekki sýnt fram á grænar og vistvænar víddir umhverfisins og þannig hafði þessi tilraun í för með sér áhrif sem urðu víðtækari en upphaflega var búist við. Síðan hefur komið út grænt kort af New York með áherslu á moltugerð og lífrænan úrgang, með áherslu á orkumál (óvistvæn sem vistvæn), hjólakort og kort barnanna sem í samstarfi við samstarfsfólk Wendyar gerði grænt kort þar sem börn ákváðu hvað væri þess virði að kortleggja í eigin hverfi borgarinnar með hjálp grænkortatáknanna.
Grænkortagerð sem náði útyfir landsteina Bandaríkjanna þar sem hún hafði átt síauknum vinsældum að fagna tók stökk eftir að fulltrúar grænkortateyma frá 23 þjóðlöndum fengu styrk frá Rockefeller sjóðnum til að hittast á Norður Ítalíu, nánar tiltekið í Bellagio árið 2002. Þá var alþjóðlegt samstarf um non profit kortagerð formgert gegnum stofnun Green Map System sem festi í sessi hnattrænt táknakerfi sem samnefnara fyrir kortagerðina en þau ná yfir hagkerfi, samgöngur, menningu, plönturíki og dýraríki, vatnafar og umhverfisupplýsingar og geta því veitt víðtækar upplýsingar um sérkenni kortlagðra svæða þó að flestir sem kortleggja með þessum hætti velji ákveðnar áherslur á sínum kortum.
Frá því að Wendy lagði af stað í grænkortaleiðangurinn hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nú hafa um 850 staðbundin verkefni orðið til í grænkortagerð í 65 þjóðlöndum í öllum heimsálfum, m.a. hér á landi en Náttúran.is unnið að þróun og útgáfu grænkorts frá árinu 2008. Íslenska grænkortið er reyndar það fyrsta og eina sem tekur fyrir heilt land en ekki afmarkað svæði eða borg. Skoða græna Íslandskortið hér.
Wendy hefur í gegnum árin unnið til ótal verðlauna og nú síðast fór New York Public library þess á leit að fá að varðveita til skjalavörslu öll útgefin kort sem sögulega heimild. Þar verða því öll útgefin kort varðveitt um aldur og ævi. Wendy er m.a. á lista UTNE um „50 visionaries changing your world“.
Ólíkt fólk með ólíkan bakgrunn en sameiginlegt áhugamál hefur alla tíð einkennt samstarfsteymin sem hafa unnið með grænkortagerð. Það er eitt af leyndarmálunum á bakvið gleðina sem einkennt hefur ólíka kortagerð á ólíkum svæðum heims. Lykillinn er samstarf fólks með áhuga á umhverfisgæðum samfélaga.
Umhverfismál af öllum toga óháð sjálfri kortagerðinni hafa átt hug Wendyar alla tíð og hún hefur starfað með ótal samtökum, t.d Sierra Club og fleirum. Hún hefur í áratugi beitt sér fyrir "community gardens"/nytjagarðyrkju í borgarsamfélaginu og eiginmaður hennar og hún standa ásamt stórum hópi að býflugnarækt á Manhattan svo dæmi séu tekin.
Vegna vinsælda kortagerðinnar um ferðast Wendy um víða veröld. Hún heimsótti okkur á Íslandi í síðustu um síðustu mánaðarmót á för sinni frá Þrándheimi í Noregi þar sem verið er að hefja kortagerð. Hún er bráðlega á leið til Curitiba í Brasilíu þar sem ólík grænkortateymi í landinu ætla að funda og safnast saman.
Við á Íslandi höfum áform um að fá Wendy aftur í heimsókn á komandi vetri þar sem nú er unnið að víðtækri þróun á nýrri vef- og prentúgáfu auk fyrstu app-útgáfunnar og því rík ástæða til að stofna til ráðstefnu og sýningar um gildi grænkortagerðar hér á landi og annars staðar í heiminum.
Ljósmyndir: Efri; Wendy Brawer við Kleifarvatn, neðri; hluti grænkortateymsins á Íslandi; Dr. Anna Karlsdóttir, Chiara Ferrari Melillo, Wendy Brawer og Guðrún Tryggvadóttir á skrifstofu Náttúran.is í Ölfusi.
Birt:
Tilvitnun:
Anna Karlsdóttir „Wendy Brawer stofnandi Green Map Systems“, Náttúran.is: 11. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2013/08/11/wendy-brawer-stofnandi-green-map-systems/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. ágúst 2015