Mjaðurtar-svaladrykkur - uppskrift
Uppskrift af mjaðurtar-svaladrykk frá Önnu Karlsdóttur:
Tínið minnst 40-50 blómkólfa af mjaðurt í fullum blóma*, á stað fjarri byggð og þar sem gnægt er af henni.
- Sjóðið 2 lítra af vatni með 1 kílói af sykri (gæti t.d verið helmingur hvítur og helmingur brúnn eða minna unninn sykur).
- 3 -4 sítrónur (helst lífrænar, annars vel skrúbbaðar) í sneiðum.
- Leggið blómin og sítrónur í skál eða pott í lög eins og lasagna - hellið síðan sykurvatninu yfir.
- Látið kólna niður í stofuhita á meðan að hrært er varlega í mjöðnum.
- Setjið skál á kaldan stað í fjóra sólarhringa og passið að hræra vel að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.
- Síið vökvann í gegnum sigti og grisju og setjið á flöskur
- Ef að þið notið glerflöskur þurfið þið að halda þeim í kælingu - annars plastflöskur.
- Njótið - útþynnts drykkjarins með kolsýrðu vatni og klaka eða kranavatni.
*Mjaðurt, Filipendula ulmaria er mýkjandi og græðandi fyrir slímhúð magans, dregur úr sýrumyndun í maga, er bólgueyðandi, þvagdrífandi, barkandi og hitastillandi. Mjaðurtin hefur bæði verið kölluð vinur magans og magnýl grasalækna. Jurtin er einstaklega góð gegn sárum og bólgum í maga, einnig dregur hún úr miklum magasýrum. Vegna salisýlsykrunganna er mjaðurtin góð við alls kyn s gigt og bólgu í liðum, vöðvum og taugum. Mjaðurtin er afar mild jurt og hefur verið notuð handa börnum bæði til að slá á hita og eins við niðurgangi og bólgu í slímhíð meltingarfæra. Blóm og blöð mjaðurtar (mjaðjurtar) voru fyrrum notuð til að bragðbæta öl og vín og má rekja heiti hennar til þeirrar notkunar. (Heimild: Arnbjörg LInda Jóhannsdóttir í Íslenskum lækningajurtum).
Ljósmynd: Mjaðurt, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Anna Karlsdóttir „Mjaðurtar-svaladrykkur - uppskrift“, Náttúran.is: 11. ágúst 2015 URL: http://nature.is/d/2011/07/31/mjadurtar-svaladrykkur-uppskrift/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. júlí 2011
breytt: 11. ágúst 2015